Ég minnist þess ekki úr æsku að blær Guðs hafi verið sérstaklega hljóður. Heldur minnist ég hans sem almáttugs, stjórnandi og ráðandi, sá sem lét mig finna oft og vel fyrir samvisku minni. Ég lærði bænir og vers, sálma og ritningarkafla allt án þess að fá nokkra einustu skýringu á því hvað allt þetta þýddi.
„Hún amma þín var mjög trúuð kona” sagði mamma mín. „Hún söng sálma í annríki daganna”.
Eftir að ég komst til vits og ára og kynntist Kvennakirkjunni hef ég oft leitt hugann að sálmasöng ömmu minnar. Skyldi hún í alvöru hafa trúað svona heitt að syngja sálma daginn út og inn? Það getur ekki verið eðlilegt eða hvað? Var hún ef til vill svona buguð og þreytt af því að halda rekstri heimilisins gangandi? Var hún svona hrædd við Guð sem tók frá henni manninn og skyldi hana eftir með óbyggðan bæinn og fullt af litlum börnum? Sennilega var þetta hennar lausn.
Ég verð að játa það enn þá einu sinni að ég veit ekki hvort ég trúi á Guð. Samt er skrýtið þegar eitthvað bjátar á og að þrengist biðjum við mörg Guð um hjálp.
Á þessum óvissutímum er að mörgu að hyggja.
Við verðum sjálf að finna okkar lausn. Við þurfum að hafa kjark til að biðja um hjálp. Og ef tækifæri gefst að hafa kjark til að breyta.
Fyrir mörgum árum fékk ég tækifæri. Síminn hringdi og röddin sagði. „Viltu koma með mér í Seltjarnarneskirkju í kvöld?”. „Hvað er í Seltjarnarneskirkju í kvöld?“ spurði ég. „Það er jólamessa Kvennakirkjunnar”. „Hvað er Kvennakirkja?” sagði ég. „Það veit ég ekkert, sagði röddin, örugglega eitthvað skemmtilegt”.
Kvennakirkjan kveikti ljós fyrir mig og margar fleiri konur, hún er kraftaverk, hún kennir ekki guðsótta heldur guðsvináttu. Ef Guð er til held ég að hún sé svona vinkona sem leiðir, huggar, hvetur og gerir gott úr vitleysunum sem við gerum.
Þessi vinkona leiðir mig þessa dagana sem margir eru dimmir, blautir og einsemdin bankar á.
Hafðu kjark til að finna þína lausn. Hjálpin er oftast hinu megin við hornið.
Ásdís Ólafsdóttir