Lög FEBRANG

1. gr. 

Félagið heitir Félag eldri borgara í Rangárvallasýslu, skammstafað FEBRANG. Heimili þess og varnarþing er í Rangárvallasýslu. 

2. gr. 

Tilgangur félagsins er að vinna að málefnum aldraðs fólks með því að:
1. Vekja athygli og auka skilning almennings, ríkis og sveitar á þörfum eldri borgara (60 ára og eldri).
2. Stuðla að aukinni þjónustu við eldri borgara.         
3. Skipuleggja tómstunda- og félagsstarf á meðal eldri borgara.
4. Vinna að öðrum þeim málum, sem til hagsbóta teljast fyrir eldri borgara.

3. gr. 

Félagar geta orðið einstaklingar, sem þess óska, enda greiði þeir tilskilin árgjöld. Einnig geta fyrirtæki og félagasamtök, sem þess óska, gerst styrktaraðilar.

Kosningarétt og kjörgengi hafa einungis þau sem eru 60 ára og eldri með lögheimili í Rangárvallasýslu.

4. gr.

Tekjur félagsins eru árgjöld, gjafir og aðrar tilfallandi tekjur, sem félagið kann að afla sér. Fjárhæð árgjalds skal ákveðin á aðalfundi félagsins ár hvert. 

5. gr. 

Stjórn félagsins skal kosin á aðalfundi. Stjórnina skipa fimm aðalmenn og tveir til vara, formaður er kosinn sérstaklega. Að öðru leyti skiptir stjórnin með sér verkum.

Þeir sem hyggjast bjóða sig fram til setu í stjórn FEBRANG þurfa að tilkynna framboð sitt í síðasta lagi 10 dögum fyrir aðalfund til stjórnar félagsins.

Kjörtími formanns er eitt ár en annarra stjórnarmanna tvö ár. Kosningu þeirra skal haga þannig að tveir þeirra ganga úr stjórninni ár hvert.

Á aðalfundi skal kjósa tvo skoðunarmenn reikninga til eins árs í senn og tvo til vara.
Stjórnarfundir eru lögmætir ef til þeirra er boðað með eins dags fyrirvara og meiri hluti stjórnarmanna sækir fundinn.

6. gr. 

Aðalfund skal halda fyrir apríllok ár hvert og er löglegur, ef til hans er boðað með sannanlegum hætti a.m.k. 14 dögum fyrir fundardag. Aðra félagsfundi skal halda þegar stjórn ákveður og skal til þeirra boðað á sama hátt.

7. gr. 

Aðalfundur hefur æðsta vald í öllum málefnum félagsins. Dagskrá hans skal vera sem hér segir:
1. Skýrsla stjórnar fyrir síðasta ár.
2. Endurskoðaðir reikningar fyrir síðasta ár lagðir fram til samþykktar.
3. Lagabreytingar.
4. Ákvörðun árgjalds.
5. Kosning stjórnar, varastjórnar og skoðunarmanna reikninga.
6. Kosning nefnda.
7. Kosning fulltrúa á fundi LEB.
8. Afgreiðsla ályktana og tillagna.
9. Önnur mál.

8. gr.

Nefndir sem aðalfundur kýs skulu starfa á ábyrgð stjórnar sem getur sett þeim starfslýsingar og tímaramma og getur kallað eftir skýrslum um störf þeirra.

9. gr. 

Á stjórnar- og aðalfundum ræður einfaldur meirihluti greiddra atkvæða, þó þarf 2/3 – tvo þriðju hluta- greiddra atkvæða til breytinga á lögum félagsins.

Tillögur til lagabreytinga skal tilkynna í fundarboði aðalfunda.

10. gr. 

Hætti félagið störfum skulu eignir þess skiptast á milli starfandi dvalarheimila aldraðra á félagssvæðinu.

11. gr. 

Reikningsár félagsins er almanaksárið.

12. gr. 

Lög þessi öðlast þegar gildi eftir samþykkt þeirra á aðalfundi. Jafnframt falla þá úr gildi eldri lög félagsins.   

Samþykkt á aðalfundi 4.3. 2024.

Scroll to Top