Vatnsveitusaga frá 1967

Eftir Þorstein Ó. Markússon

Ég ætla að segja frá því er ég vann við lagningu Vatnsveitu Vestmannaeyja 1967, en ég byrjaði að dreifa vatnsrörunum frá þeim stað sem vörubílarnir settu þau en það var á Álabökkunum og í Fauskafarvegi vestan við Brúnir, lengra komust þeir ekki vegna sandbleytu. 

Ég var með 50 hestafla Deutz traktor með heykvísl aftaná en enga þyngingu að framan rörin voru 150 kíló hvert 4 metrar á lengd. 

Ég gat komið þrem rörum neðst á kvíslina og setti svo tvö ofan á, það varð ég að gera með handafli, þá var ég kominn með 750 kíló aftan á vélina svo hann var orðinn mjög léttur að framan, ég varð því að bakka þegar ég fór upp úr lautum og úr Fauskafarvegi upp á bakkann. 

Vatnsleiðslan lögð frá Markarfljótsbrú suður á Krosssand.

Ég byrjaði að dreifa rörunum á Álabökkunum en vörubílarnir komust talsvert áleiðis framhjá Vatnahjáleigu í land Búðarhóls, ég fór með rörin þaðan fram á Bakkamýri þangað sem þessi asbeströr byrjuðu við gljána og plaströr tóku við fram að sjó. 

Þegar vel gekk voru lögð allt að 100 rör á dag en það var ekki oft sem sú tala náðist í upphafi vegna þess hvað landið var erfitt, þannig að ég þurfti að fara allt að 20 ferðir til að hafa við, svo ég yrði ekki geltur, ég fór fram á að fá að vinna lengur ef ég sæi fram á að ég næði ekki að hafa nóg af rörum fyrir daginn en ég fékk það ekki en var sagt að þá yrði bara fenginn auka traktor, það vildi ég alls ekki svo það varð að standa sig, ég þurfti einu sinni að fá frí ég man ekki ástæðuna og þá þurfti að fá tvo Ferguson traktora sem ekki gátu tekið nema 3 rör hvor, og þeir höfðu með naumindum við svo ég gat ekki annað en verið montinn daginn eftir. 

Þegar var farið að leggja rörin í Borgareyratangann fóru vörubílarnir með rörin heim að Borgareyrum og út á Fauskaaur sunnan við fjárhúsin og komust fram á móts við Brúnir þeir settu þau í tvær stæður, þau voru keyrð frá Þorlákshöfn á vöktum dag og nótt. 

Ég þurfti að drösla þeim úr stæðunni 5 stykkjum í ferð eins og ég hef lýst og bakka þegar ég fór upp úr farveginum svo traktorinn færi ekki upp á endann og öll rörin rynnu af, svona gekk þessi vinna alla leið að mörkum Dalssels og Borgareyra þá kröfðust Dalselsbændur að fá þessa vinnu í þeirra landi, þessu mótmæltu veitustrákarnir en þeim var ekki ansað og Dalselsbændur höfðu sitt fram, svo ég varð að hætta, þá tóku þeir við því verki sem ég hafði unnið einn, 2 traktorar hvor með 2 stráka og höðu varla við þó um rennsléttann Dalselsdílann væri um að fara.

Meira frá vatnsveitunni

Lagning asbeströranna byrjaði frammi í gljá eða eins langt og hægt var að leggja þau vegna sands, endarörinu var vandlega lokað svo sandurinn fyllti það ekki, allt gekk vel í fyrstu og vel gekk að leggja rörin talsverðann tíma og skurðurinn hélst opinn það var nauðsynlegt svo hægt væri að trukkprófa lögnina síðar. 

Nú gerðist það eins og við var að búast að slagveðurs rigningu gerði og ekki tókst betur til en svo að skurðurinn fylltist og vegna þess að rörin voru stífluð voru þau tóm svo þau flutu upp og skurðurinn fylltist af sandi og rörin lágu ofan á, nú þurfti að arka upp á nýjan stofn og grafa þau aftur og nú voru þau ekki lokuð í endann, heldur var brugðið á það ráð að við Grímur bróðir vorum fengnir til að ýta með traktor fargi ofan á miðju hvers rörs svo það lyftist ekki upp. 

Þetta máttum við gera á kvöldin þegar dagvinnu + eftirvinnu lauk og gátum þess vegna gert þetta hvenær sem var á kvöldin, svo eitt kvöldið seint komu veitustrákarnir á Bronkónum til okkar þar sem við vorum að moka ofan á rörin, þeir héldu að við hefðum verið stanslaust að moka frá því að þeir hættu og þá kom freistarinn upp í okkur að óhætt væri að smyrja ofurlítið á tímana við þetta verk. 

Ég vann líka við byggingu vatnsveitu hússins, það þurfti að keyra steypumölinni úr Affallinu við Ossabæ. 

það varð að gera þegar frost var komið í jörð þannig að bílarnir festust ekki með hlassið í sandinum. 

Við Grímur bróðir mokuðum á bílana með traktorum, fullkomnara var það ekki, en nú var kominn ca 10 sentimetra klaki í malarhauginn, á þessu unnu traktorarnir ekki og nú voru góð ráð dýr. 

Grímur hafði unnið í Keflavík og bísaði dínamiti og hvellhettum þar, við sóttum nokkrar túpur og boruðum gat á hauginn með járnkalli, og komum sprengiefninu fyrir og fórum bakvið hauginn í skjól eins langt og rafmagns kapallnn náði, sprengdum og þannig tókst að brjóta klakann og moka undan honum, ekki leist sumum bílstjórunum á þetta en þetta bjargaði málunum. 

Ég var ekki við mótauppsláttinn en fór í steypuvinnu þegar kallað var, því var ég vanur eins og margir sveitakallarnir, steypunni var keyrt á hjólbörum og þá þurfti að fá lánaðar hjólbörur á bæjunum, en þær voru til á hverjum bæ, notaðar til að keyra súrheyi og fleiru þá var um að gera að ná sér í góðar börur því mikið kapp var í hjólböru mönnum því það var virðingarstaða, ólíkt því að lenda í vatni eða sementi sem ekki þótti virðingarstaða, nú var um að gera eins og ég sagði áðan að börurnar væru góðar og ekki angandi af súrheysfýlu og voru börur frá sumum bæjum illa lyktandi til dæmis voru börurnar frá einum ónefndum bæ illa lyktandi og alræmdar og vont að lenda á þeim. 

Ég fór svo að vinna í byggingunni um veturinn þegar strákarnir voru farnir heim til Eyja og aðeins fáir Eyjamenn urðu eftir; múrarar (Siffi Björgvins) og smiðir Gústi Hreggviðs. t.d. Svo var Væi, Hávarður Sigurðsson verkstjóri, svo var Halli á Hólavatni líka þarna en við vorum einu innfæddu verkamennirnir þennan vetur. 

Ég mjólkaði beljurnar og kláraði gegningarnar snemma og fór svo að Hólmum en þar höfðu kallarnir aðsetur í gamla húsinu. Ég kom þangað þegar þeir voru að fara á fætur og í morgunkaffið og fór svo með þeim fram á sand. Þarna unnum við allan daginn og höfðum matar og kaffi aðstöðu í strætisvagni, kamarinn var 20 lítra fata undir húsinu. Einu sinni þegar við komum úr helgarfríi hafði gaddað góssið í fötunni, í stað þess að fleygja fötunni með gödduðu innihaldi hennar fór Halli að mylja úr henni með járnkarli eða kúbeini. Fékk hann við það viðurnefnið doctor Camaro eftir sjónvarps hetju sem þá var í sjónvarpinu. Þarna var ég fram á vor þegar búskapurinn tók við og vinnukraftur úr Eyjum kom. 

Ráðskona hjá veituköllunum var Sóley Ástvaldsdóttir, þau Ingi í Hemlu voru að digga saman og urðu seinna hjón. Ég mætti stundum Inga þegar ég var að mæta á morgnana, þá var hann að skjótast heim svo lítið bæri á. Sóley var ung og óreynd í ráðskonustörfunum og kallarnir stríddu henni með því að hún væri með einhæft kaffimeðlæti svo sem kex og svoddan nokkuð. Þá var í sjónvarpinu auglýsing um Ritz kex sem var þannig að innbrotsþjófur var að stökkva út um glugga með Ritz kexpakka segjandi „Gott er að eiga Ritz kex ef óvæntann gest ber að garði“. Þannig ályktuðu kallarnir að Sóley þyrfti alltaf að eiga nóg af Ritz kexi handa óvæntum gestum.

Scroll to Top