
Ungmennafélögin létu fátt mannlegt sér óviðkomandi og fjölbreytt málefni voru rædd á fundum þeirra. Á fundi í Umf. Drífanda árið 1909 (1) voru kossar til umræðu. Þá var algengt að fólk heilsaðist og kveddi hvert annað með kossi en um þá siðvenju voru skiptar skoðanir:
Katrin Vigfúsdóttir (2) flutti erindi um kossa. Áleit hún að of mikið væri kysst hér á landi. Það væri ósiður sem bæði væri óhollur og óþarfur og ætti að leggjast niður. Sagði hún frá því að á fundi i Stykkishólmi í vetur hefði Guðmundur Eggertsson sýslumaður flutt þetta mál og þar hefði verið kosin nefnd til að vinna að útrýmingu kossanna. Vildi hún að Drífandi tæki málið að sér.
Hannes Sigurðsson studdi mál hennar. Sigurður Vigfússon (3) áleit kossana of mikið notaða, þeir væru of líkir kveðjukossum ýmissa villiþjóða. … Hannes Sigurðsson benti á hættu þá er leitt gæti af kossagangi, ýmsar næmar sóttir gætu borist á þann hátt mann frá manni. Páll Einarsson (4) talaði i sömu átt. Sæmundur Einarsson (5) kvað heppilegasta útrýmingarráðið mundi vera að gera kossana hlægilega. Vigfús Bergsteinsson (6) var á sama máli og síðasti ræðumaður. Að lokum talaði Katrín Vigfúsdóttir nokkur orð.
Í svipaðan streng tóku félagsmenn Umf. Ingólfs árið 1911 þegar rætt var um kossa á félagsfundi. Framsögumaður var Friðbjörg Friðfinnsdóttir:
Sagði hún þá hættulega og um leið óþarfa og ættu þeir að leggjast niður. Eftir miklar umræður var samþykkt svohljóðandi tillaga frá Sigurði Sigurðssyni lausamanni: Fundurinn telur nauðsynlegt að útrýma kossum svo sem hægt er.
(1) Ungmennafélag í Dalssókn í Vestur Eyjafjallahreppi.
(2) Frá Brúnum í Vestur Eyjafjallahreppi, síðar ljósmóðir í Nýjabæ.
(3) Bróðir Katrínar.
(4) Bóndi á Fit í Vestur Eyjafjallahreppi.
(5) Hreppstjóri í Mörk í Vestur Eyjafjallahreppi.
(6) Frá Brúnum.