Stríðsminningar Haraldar Júlíussonar frá Akurey

 Ég ætla að rifja upp nokkrar æskuminningar frá því er breski herinn og seinna sá ameríski tók sér bólfestu í túninu í austurbænum í Akurey á  svonefndum Fljótsbökkum þar sem þeir  byggðu einn íbúðarbragga og voru þar um það bil  5-10  dátar. 

Þeir voru vopnaðir og ávallt var einn á verði  í varðturni að fylgjast með flugumferð með ströndinni. þeir fóru lítið um nágrennið og höfðu lítið samneyti við okkur vesturbæjar systkinin en foreldrar okkar lögðu bann við því að við værum að sniglast í kringum braggann  þegar við vorum að sækja kýrnar sem gengu þarna í kring en stundum laumuðu þeir til okkar nammi. 

Þeir áttu kött sem strauk eitt sinn frá þeim til okkar og komu þeir að sækja hann, og höfðu meðferðis slatta af eplum í fundarlaun. Í þá daga voru epli ekki á hvers manns borði og eplalykt fannst aðeins um jól. 

þeir leituðust við að eiga góð samskipti við okkur en mest samskipti áttu þeir við fólkið í Hrauk sem nú heitir Lindartún, þangað sóttu þeir neysluvatn í mjólkurbrúsa. 

Það sem helst bar til tíðinda í sögu þessa setuliðs var þegar flugvél var skotin niður í hafið suður af Kotabæjum, Þorgeir á Arnarhóli átti bát í fjörunni og náði að manna hann og sjósetja ásamt nágrönnum sínum og tókst að bjarga öllum flugmönnunum í land.  Sumir voru særðir og mikið herlið streymdi að og var Helgi Jónasson læknir á Hvoli með fyrstu mönnum á staðinn, sagan segir að þýsk kafbátaleitarvél hafi skotið flugvélina niður. Aðrir telja að um mistök hafi verið að ræða hjá Bandaríkjamönnum. Í þakklætisskyni fyrir þessa björgun sendi Bandaríkisstjórn fjárupphæð til að styrkja ungan mann til háskólanáms, einnig dreifðu þeir ýmsum varningi eins og niðursoðnu nautakjöti til björgunarfólks á staðnum. 

Seinna atvikið sem ég ætla að segja frá er þegar flugvél hrapaði við skotæfingar á þessu sama svæði. Flugvélar komu í röðum frá Kaldaðarnesi dag eftir dag að skjóta í æfingaskyni á stóran tank sem rekið hafði á fjöruna. Af þessari skothríð varð mikill hávaði sem truflaði mjaltafólk á stöðli og styggði fénað í haga og rúður nötruðu í gluggum. Eitt sinn síðla dags þegar allar vélarnar voru farnar til baka kom ein vél frá Kaldaðarnesi og steypti sér yfir tannkinn eins og þær fyrri höfðu gert og hleypti af, hóf sig snarlega upp aftur en steyptist  lóðrétt í hafið og mikill sandstrókur reis upp og dauða þögn ríkti. Eftir fáein augnablik fylltist loftið af flugvélagný á ný. Nágrannar okkar úr bragganum brugðu skjótt við og fengu hesta lánaða í Hrauk og riðu á fjörur með hraði. Einn dátinn fór á þeim hraða  að að hann fór yfir hestinn án viðkomu.  

Scroll to Top