SPANSKA VEIKIN – SÓTTVARNIR UNDIR EYJAFJÖLLUM

Að taka verkin í sínar hendur!
Það er fróðlegt að lesa þessi orð núna í skugga COVID. Þegar á reynir getur mannskepnan verið skynsöm.
Samtakamátturinn er sterkt afl ef það er rétt notað. Höldum áfram að hlýða Víði.

Brot  úr minningum Auðuns Ingvarssonar (1869-1961)

Í nóvember 1918 barst spanska veikin til Reykjavíkur, og fluttust ýmsar sögur, ekki fallegar, af henni hingað austur.  Kom mér þá í hug að fá Vestur-Eyjafjallahrepp settan í sóttkví, því veikin fór eins og eldur í sinu austur um Árnes- og Rangárvallasýslur.  Margir töldu þetta alveg þýðingarlaust og barnaskap af mér.  Ég vakti máls á þessu við Einar Árnason í Miðey, og hafði hann nokkra trú á, að það gæti heppnast.  Ég sneri mér þá til sr. Jakobs í Holti, sem var heldur vondaufur með, að hægt væri að verjast veikinni. Samstundis átti ég tal við Guðmund lækni á Stórólfshvoli.  Kvað við svipaðan tón hjá honum og sr. Jakob.  Nú fóru að berast ljótar sögur af veikinni frá Reykjavík, og kveið margur fyrir, að fá þennan voða í sveitina.  Enn fór ég af stað og átti símtöl við sr. Jakob og Guðmund lækni og með þeim árangri, að ákveðið var af heilbrigðisstjórn Rangárvallasýslu að banna allar samgöngur við Vestur-Eyjafjallahrepp.  Var þá skipaður vörður við Ála milli Eyjafjalla og Austur-Landeyja svo um hreppamörkin milli Austur-  og Vestur-Eyjafjalla. Ég átti að sjá um vörzlu að vestan en Einar Sigurðson í Varmahlíð og Magnús Tómasson í Steinum að austan. Þarna skall hurð nærri hælum, því daginn sem samgöngubannið var sett á, kom póstur utan frá Odda og fékk leyfi frá heilbrigðisstjórninni til að fara heim til sín austur undir Austurfjöll. Gísli Sveinsson sýslumaður hafði þá haft í gegn samgöngubann fyrir Skaftafellssýslu. Pósturinn var svo óheppinn að hitta sauðamann frá Teigi sem búinn var að taka veikina. Sama kvöld, að mig minnir smitaði hann fólk undir Austurfjöllum.  Hann kom við á Seljalandi í Hvammi og Holti undir Útfjöllum en smitaði engan þar. Hér í hreppi veiktist enginn af þessari drepsótt.

Ýmislegt þurfti að komast yfir sóttvarnarlínuna, svo sem fénaður og vörur til margra heimila, einkum þeirra, sem veikin hafði náð tökum á. Símasamband var við Miðey svo þaðan var hægt að panta vörur frá verzlun minni. Ég flutti þær út yfir Ála, fór stundum 2-3 ferðir á dag í þeim erindum. Samgöngubannið stóð fram í febrúar og bar fullan árangur. Var ég mjög ánægður yfir að svo vel skyldi heppnast að verjast þessum vágesti. 

 Endurrit úr minningum Auðuns Ingvarssonar frá Dalseli

Goðasteinn 1972; ll (2) bls 54-55    

Scroll to Top