Skýrsla stjórnar til aðalfundar FEBRANG 3.2. 2025

Stjórnin vekur athygli á því að þessi skýrsla er birt á vefsíðu félagsins febrang.net. Sama er að segja um ársreikning félagsins. Þar er að finna rekstrarreikning fyrir árið 2024 og til samanburðar tölur fyrir árið 2023 svo og efnahagsreikning fyrir bæði ár. Við ætlum ekki að lesa ársreikninginn upp í heild sinni, heldur gera ákveðnum þáttum hans skil í þessari skýrslu. 

Stjórnin skipti með sér verkum og skipaði í nefndir. Formaður, Jón Ragnar Björnsson var kosinn á aðalfundi, varaformaður Ásdís Ólafsdóttir, gjaldkeri Einar Grétar Magnússon, ritari Svavar Hauksson og meðstjórnandi Jóna Elísabet Sverrisdóttir. Varamenn Finnur Egilsson og Margrét Guðjónsdóttir.

Stjórnin hélt 14 formlega stjórnarfundi og notaði tæknina þess í milli óspart til að ráðgast um ýmis verkefni. 

Nefndir til aðstoðar stjórninni voru skipaðar á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund. Þessar nefndir eru ferðanefnd, skemmtinefnd, spilanefnd á Hvolsvelli og spilanefnd á Hellu, bókaklúbbsnefnd og dansnefnd. 


Héraðsnefnd Rangæinga styrkti rekstur félagsins rausnarlega um kr. 5.750.000. Þökkum við Héraðsnefnd og sveitarstjórnarfólki í Rangárvallasýslu fyrir góðan skilning á málefnum okkar og ómetanlega aðstoð.

Nú eru 330 félagar en þeir voru 309 fyrir ári. Alls hafa 40 nýir félagar bæst í hópinn, því 19 manns hurfu á braut, fluttu af svæðinu eða önduðust. Félagsgjaldið var 3.500 kr. sem skilaði rúmri milljón í tekjur. Stefna félagsins hefur verið hófleg félagsgjöld sem breytist í samræmi við verlagsðþróun.

Helstu tekjustofnar félagsins eru framlag Héraðsnefndar og árgjaldið, sem skilaði um 1,1 millj. kr. eða alls alls um 6,9 millj. kr. Nú er sala á ferðum, samkomum og öðrum viðburðum sem kosta, færðar sem tekjur í rekstrarreikningi. Þær nema alls um 5,8 millj. kr. Velta félagsins var því rúmar 12,7 millj. kr. kostnaður vegna viðburða er færður gjaldamegin. Alls námu gjöld um 12,2 milljónum kr. og hagnaður um 515 þús. kr. 

Eins og oft hefur áður komið fram hefur stjórnin undanfarin ár unnið að hagræðingu í rekstri félagsins. Þannig hefur tekist að lækka launakostnað. Áður var starfsmaður í 33% starfi en það hlutfall var lækkað í 25%. Launakostnaður að óbreyttu hefði verið um 2,9 millj. kr. og hefur lækkað um 700 þús. kr.

Félagið stóð fyrir fjórum hátíðum á starfsárinu. Góugleði var haldin í mars í Menningarsalnum á Hellu. Kvenfélagið Unnur á Hellu stóð fyrir veitingum sem voru saltkjöt og baunir. Heimatilbúið diskótek stóð fyrir dansi og skemmtinefndin skemmti gestum. 36 sóttu Góugleðina.

Jónsmessuhátíð var haldin í íþróttahúsinu í Þykkvabæ. Kvenfélagið Sigurvon sá um matinn sem var ljúffeng lambasteik með tilheyrandi. Hlynur Snær trúbador og Sæbjörg Eva dóttir hans léku og sungu fyrir dansi. 46 tóku þátt í jónsmessuhátíðinni.

Árshátíðin var svo haldin í október. Hún var vel sótt, rúmlega 80 tóku þátt. Veitt voru verðlaun fyrir besta árangur í pútti, skemmtinefndin annaðist skemmtiatriðin, kvenfélagið Eining í Hvolhreppi töfraði fram frábæran mat og fallega skreyttan sal. Veislustjóri var Ísólfur Gylfi Pálmason og Hlynur Snær trúbador annaðist dansmúsikkina.

Að þessu sinni var jólahlaðborðið haldið í Hvolnum á Hvolsvelli. Stjórnin skreytti salinn, Einar gjaldkeri las jólasögu og frábær maturinn var fenginn hjá Múlakaffi. Met þátttaka var á þessum viðburði þar sem 102 tóku þátt.

Tekjur af samkomum voru um 1,5 millj. kr. og kostnaður um 2,7.millj. kr.

Félagið skipulagði þrjár ferðir. Í júníbyrjun var farin dagsferð. Ekið var um Flóa, listasafnið í Forsæti skoðað, snæddur hádegisverður í Þorlákshöfn og lífsgæðakjarninn sem gengur undir nafninu Nían skoðaður. Strandarkirkja skoðuð og að endingu kaffisamsæti í boði Félags eldri borgara Hveragerði. 

Þriggja daga ferð á Snæfellsnes í júlí var vel heppnuð. Á degi eitt var hákarlasafnið í Bjarnarhöfn heimsótt, kvöldverður snæddur í Stykkishólmi og gist á Miðhrauni. Á öðrum degi var Snæfellsnesið skoðað með frábærri leiðsögn Svövu Svandísar Guðmundsdóttur. Á þriðja degi var haldið heim á leið með viðkomu í víkingabænum á Eiríksstððum og snæðingi á Hótel Bifröst.

Þriðja ferðin var dagsferð í Þakgil með viðkomu í Reynisfjöru. Í Þakgili voru grillaðar pylsur og notið einstaks landslags. Þórir Kjartanson var leiðsögumaður í Þakgil og þegar ekinn var hringur um Álftaver var Jónas Jónsson með hljóðnemann. Báðir frábærir leiðsögumenn. Á heimleið var komið við í Skógum og snæddur frábær kvöldverður.

Alls tóku 26 þátt í Flóaferðinni, 18 fóru á Snæfellsnes og 46 í þakgil.

Ferðanefnd félagsins hefur skipulagt ferðirnar ásamt Dísu okkar, Sigdísi Oddsdóttur. Hún hefur jafnframt annast fararstjórn í ferðunum með miklum sóma.

Í rekstrarreikningi félagsins eru tekjur vegna ferða um 2,1 millj. kr. og gjöld  2,6 millj. kr.   

Yfir sumartímann var boðið upp á vikulegt pútt á Strandarvelli undir styrkri stjórn Brynju Bergsveinsdóttur og sundleikfimi vikulega á Hellu og Hvolsvelli sem Drífa Nikulásdóttir stjórnaði.

Af verkefnum vetrarins má nefna Boccia tvisvar í viku á Hvolsvelli og Hellu. Vist spiluð vikulega til skiptis í þorpunum, bókaklúbbur, og gömlu dansarnir hálfsmánaðarlega. Hringur, kór eldri borgara æfði vikulega. Ákveðið var að gera hlé á starfsemi bókaklúbbsins vegna lélegrar þátttöku en við erum velkomin að taka þátt í Skruddum, bókaklúbbi sem er á vegum Hérðsbókasafnsins.

Handverk var iðkað tvo daga í viku á vorönn. Guðrún Óskarsdóttir hætti sem leiðbeinandi eftir vorönn. Við þökkum henni fyrir gott og óeigingjarnt starf sem leiðbeinandi. Fækkað hefur í handverkshópnum og því ákveðið að hafa einn handverksdag í viku í stað tveggja. Brynja Bergsveinsdóttir og Þórunn Sigurðardóttir standa vaktina eins og undanfarin ár. Ester Markúsdóttir kom svo til starfa á miðri haustönn. Að venju var haldinn glæsileg handverkssýning í lok apríl. 

Tekjur af handverki voru um 400 þús. kr. Kostnaður var hins vegar um 1,7 millj kr. en hafði lækkað um 500 þús. kr. frá fyrra ári.

Útskurður var vikulega undir styrkri stjórn Hjálmars Ólafssonar. Margrét Tryggvadóttir bauð upp á ókeypis handleiðslu í leiklist, framkomu o.fl. vikulega, tvö námskeið voru haldin í skapandi skrifum sem Harpa Rún Kristjánsdóttir kenndi.

Tveir félags- og fræðslufundir voru haldnir. Í byrjun vorannar þar sem kynnt var það sem var á döfinni. Helgi Pétursson formaður LEB og Þorbjörn Guðmundsson formaður kjaranefndar LEB fræddu okkur um starf landsamtakanna og baráttuna fyrir bættum kjörum. Fulltrúar frá flestum félögum eldri borgara á Suðurlandi voru gestir á fundinum. 

Í upphafi haustannar var farið yfir dagskrá félagsins og Jóhann G. Jóhannson flutti snjalla hugvekju.

Að loknum fyrri félags- og fræðslufundinum héldu sunnlensku félögin fund og ákváðu að hittast reglulega framvegis til að stilla saman strengi sína. Stjórnarfólk félaganna hittist síðan á fundum á Selfossi, Vestmannaeyjum og í Vík.

Á fundinum á Selfossi var frambjóðendum í Suðurkjördæmi boðið og var þar skipst á skoðunum um kjör og kröfur eldra fólks.

Stjórnarfólk sótti framboðsfundi eftir bestu getu og kom kröfum okkar eldri á framfæri.    

Félag eldri borgara á Ísafirði heimsótti okkur og buðum við þeim í vöffluveislu í Hvolnum.

Sem fyrr leggur stjórnin mikla áherslu á að félagsfólk geti fylgst sem best með starfi félagsins. Minnum á vefsíðuna febrang.net, þar eru birtar fréttir, hugleiðingar, vísur og örsögur. Við erum líka á Facebook á síðu sem heitir FEBRANG. Félagið hefur  auglýst viðburði í Búkollu. Þegar hætt var að dreifa henni á öll heimili í sýslunni brugðum við á það ráð að búa til eigið fréttabréf og dreifðum í sjálfboðavinnu á öll heimili sýslunnar. Þetta mæltist vel fyrir og hefur lækkað auglýsingakostnað. Hann var tæpar 400 þús. kr. árið 2023 og lækkaði í 283 þús. Við seldum auglýsingar í fréttabréfið fyrir 145.000 kr. svo nettó auglýsingakostnaður varð aðeins um 140 þús.kr. 

Við viljum þakka nefndafólki og starfsfólki fyrir gott og farsælt samstarf og góð og gefandi samskipti við fjölmarga félaga. Við þökkum sveitarfélögunum fyrir ókeypis aðgang að frábærum húsakosti undir starfsemina og Héraðsnefnd fyrir ómetanlegan fjárstuðning.

Scroll to Top