Saxi læknir vill að ég hreyfi mig

-Má ég ekki fækka þessum pillum sem ég er að éta? spurði ég Saxa lækni á heilsugæslunni.

-Jú, jú, en þá verður þú að létta þig! Sagði doktorinn. 

Reyndar sést langar leiðir að ég er í yfirþyngd, svo ég ákvað að fara ekki í fýlu við Saxa. Við spjölluðum svo um hvernig ég gæti létt mig. -Hreyfing og mataræði, voru ráðleggingarnar.

Hann ætlaði að fara að segja mér frá vondu kolvetnunum og góðu fitunni og próteininu. Mér tókst að stöðva orðaflauminn og segja honum að ég vissi þetta mest allt, en kartöflur og jólakökur væru mitt uppáhald í þessu lífi. Saxi var greinilega vanur að fást við besservissara og vék tali sínu að því að heilsugæslulæknar gefi út hreyfiseðla eftir að hafa metið að hreyfing ætti við sem meðferðarúrræði. Hreyfistjóri mæti svo ástand viðkomandi einstaklings, setti upp þjálfunaráætlun og fylgdi henni eftir. Veitti stuðning og leiðbeindi um hreyfiúrræði sem væru í boði á svæðinu. Auk þess sinnti hann kynningu og fræðslu varðandi verkefnið til starfsfólks heilsugæslunnar og til almennings. 

Ég var settur í samband við flinkan hreyfistjóra hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Hreyfistjórinn  lagði til kraftgöngu, ganga eins hratt og ég gæti í ca. hálftíma a.m.k. fimm sinnum í viku. Ég fékk aðgang að vefsíðu og skráði þá daga sem ég gekk. Hreyfistjórinn fylgdist með og mátti hringja í mig ef ég færi að slaka á.  

Notaði göngustafi. Fljótlega eftir að ég byrjaði fann ég knýjandi þörf fyrir að fara út að ganga í hvernig veðri sem var. Jafnvel í jólafríi í 25 stiga hita á Tenerife skeiðaði ég minn hálftíma á degi hverjum.

Ég stóð mig vel í tíu mánuði og léttist um fimm prósent. 

Svo gerðist eitthvað.

Ég held að afsökunin hafi verið veðurfarið. Ég hætti kraftgöngunum og fór strax að þyngjast.

Ótrúlega er erfitt að hafa sig í gang aftur -en ég skal! 

Með baráttukveðjum!

Jón Ragnar Björnsson

Scroll to Top