Notum aðventuna til að hlúa að okkur

Jólahugvekja. Séra Elína Hrund Kristjánsdóttir

Aðventan er gengin í garð, þessi tími sem okkur er ætlaður til að undirbúa okkur undir fæðingarhátíð frelsarans, undir komu hans. Aðventan með alla sína yndislegu leyndardóma, dásamlegu smákökulyktina, ljósadýrðina og allar tilfinningasveiflurnar.

Umgjörð aðventu og jóla er gleði og friður.  Guð kom til okkar í Jesú til að gefa okkur kraft og styrk og til að umvefja okkur kærleika. Fæðing litla barnsins í Betlehem færir okkur sjálfan Guð í heiminn. Við höfum því ástæðu til að hlakka til jólanna og gleðjast yfir hátíðinni sem er í vændum.  

En við verðum mörg hver svolítið viðkvæm á þessum árstíma og förum m.a. að hugsa um fjölskylduna, tengslin og hefðirnar. Ef til vill vantar einhvern í fjölskylduna okkar sem alltaf hefur verið til að taka þátt í hinum föstu fjölskylduhefðum,  eins og baka fínu smákökurnar hennar langömmu að austan eða skera út laufabrauðið, eins og amma á Grenivík gerði alltaf, með hnífnum hennar sem alltaf fylgir þegar fjölskyldan kemur saman til að skera út og steikja, að vísu er búið að skipta út skaftinu nokkrum sinnum og endurnýja hnífsblaðið en þetta er nú samt hnífurinn hennar ömmu og sögurnar eru rifjaðar upp af ömmu og afa.   Núna á þessari aðventu vantar ef til vill einn eða jafnvel fleiri í hópinn. Nú farið þið ekki saman til að setja ljós á leiði látinna ættingja heldur farið þið með ljós á leiðið hennar eða hans. En þið bakið samt góðu smákökurnar hennar langömmu og skerið út laufabrauðið með hnífnum hennar ömmu og takið upp nýjar hefðir sem minna ykkur á þau sem farin eru því það er svo gott.

Það er eðlilegt að sakna þeirra sem við höfum misst þegar aðventan gengur í garð og jólaundirbúningurinn nær hámarki. Það eru ekki einungis þau sem nýlega hafa misst sem finna hvernig sorgin og söknuðurinn eykst með hverjum degi þegar nær dregur jólum. Aðventan og aðdragandi jólanna reynist mörgum erfiður og í stað þess að vera tími sem einkennist af gleði og tilhlökkun getur aðventan einkennst af depurð og einmanaleika. Við finnum fyrir þrýstingi að vera glöð, því við eigum öll að vera glöð á jólunum, það er nánast skylda, það má ekkert skyggja á jólagleðina. Flestar manneskjur hlakka til jólanna á einhvern hátt en það eru líka margar sem kvíða jólunum og taka á móti þeim með sorg og söknuði í hjarta.

Það getur verið erfitt að setjast niður þessa aðventu og senda jólakort með óskum um gleðileg jól til ættingja og vina þegar það reynist erfitt að finna gleðina í eigin hjarta. En mitt í þessu öllu er fagnaðarerindið og nærvera Guðs, nærvera Guðs sem umlykur okkur öll og heldur okkur í fangi sér þar til við getum staðið aftur á eigin fótum.  Jesús var sendur í heiminn til að flytja nauðstöddum gleðilegan boðskap og til að græða þau sem hafa sundurmarið hjarta. 

Ævi manneskjunnar er ein samfelld aðventa eins og Sigurbjörn Þorkelsson segir í einu ljóða sinna, og full ástæða er til að lifa eftirvæntingarfull og njóta hvers dags í fögnuði yfir því sem í vændum er,  því við eigum sigurinn vísann.

Gerum okkar besta til að njóta aðventunnar, fara á kaffihús, finna ilminn af mandarínunum og piparkökunum og umfram allt skulum við njóta samvista við fólkið okkar,  leyfa friðnum sem fylgir aðventunni að umvefja okkur. Jesús sagði okkur aldrei að lífið myndi verða sársaukalaust en hann sagði að hann gæfi okkur frið, sinn frið sem er ofar öllum skilningi.

Hlustum saman á jólalögin og minnumst gamalla tíma, horfinna tíma. Og þó okkur kenni pínulítið til í hjartanum þá finnum við friðinn umvefja okkur, friðinn sem tilheyrir aðventunni og jólunum.

Notum aðventuna til að hlúa að okkur og taka til í hjörtum okkar og rýma til fyrir boðskap jólanna, rýma fyrir friði jólanna og hleypum hinu sanna jólaljósi inn.

Guð gefi ykkur innihaldsríka  aðventu og gleðilega jólahátíð.

Scroll to Top