Mislingabragur

Háðsbragur um sóttkví í Vestmannaeyjum vegna Spænsku veikinnar 1918 eftir Erlend á Gilsbakka skrifaður eftir minni og vantar hluta í. 

Þá alheimurinn allur saman flóði 
í árans púðurreyk og mannablóði
þá kom skip við land það lýðir sáu
þeim leist það myndi flytja með sér plágu

Af mislingum þar maður einn var veikur
við mislinga var kóngur landsins smeykur
Stillir saman stefndi þing að bragð
stórmannlega hann talaði og sagði

Við verjumst þeim körlum bæði og konum 
kannski eins og Frakkar Þjóðverjonum
þegar flestar þjóðir eru að stríða
því skildum vér þá mislinga hér líða 

Og vera úti á höfn á hverju fleyi
og halda vörð á nóttu sem á degi
og þó svo að það kosti þúsund marga dolla
við þurfum bara að leggja á fólkið tolla 

En „ekki satt“ hann að því lýði spurði
og ekki held ég neinn á slíku furði
Og vitanlega vegna barna minna 
við verðum ráð við drepsóttinni að finna 

því undir lok má ættin tigna og fríða
um aldur heimsins þeygi fá að líða
Góðan róm þeir gerðu að máli sjóla
þeir góluðu hæst er síða höfðu kjóla 

og þar næst gekk hann Þór hinn hára prúði 
þessi mesti heimsins Leppalúði
Símon, Árni, Einar, Mángi og Gvendur
þó Árni væri stundum lítið kenndur 

valið hlutu vörð með Þór að halda 
vitaskuld má þjóðin launin gjalda. 

Stillir=konungur. Dolla=dollara. Þeygi=ekki. Sjóli =konungur. Er síða höfðu kjóla=séra Jes á Oddstöðum. Þór hinn háraprúði = Þórarinn á Oddstöðum. Símon Egilsson. Árni Johnsen. Einar Símonarson. Mángi á Vesturhúsum og Gvendur, allt framámenn í Vestmannaeyjum.

Scroll to Top