Markarfljót

Þeir sem aka Hringveginn um Rangárþing eiga erfitt með að gera sér grein fyrir að Markarfljót hafi verið ógnvaldur.

Rangárþing tekur við þegar komið er austur yfir Þjórsárbrúna og við blasa grösugar sveitir og grónir sandar. Austan Hvolsvallar er ekið yfir Þverá sem lætur lítið yfir sér og áfram liggur leiðin austur að Markarfljóti yfir víðáttumikið sléttlendi með stöku hálfþurrum álum. Af Markarfljótsbrúnni virðist fljótið saklaust og friðsamt.

Meðfram Eyjafjöllunum er ekið um víðáttumikið graslendi og sagan af Önnu á Stóru Borg og Hjalta í Paradísarhelli kemur upp í hugann. Erfitt er að sjá þess merki að Markarfljót hafi runnið um þessar slóðir, eins og segir í sögu Jóns Trausta sem lét Hjalta bjarga sýslumanninum mági sínum frá drukknun í fljótinu sem þá rann skammt neðan við helli Hjalta. Það er þó staðreynd að mestur hluti sléttlendisins undir Vestur Eyjafjöllum er til orðinn af framburði Markarfljóts.

Áður er farið var að hemja Markarfljót gat það flæmst yfir mest allan neðri hluta Rangárþings. Það átti til að renna með Vestur Eyjafjöllum og leita útrásar í Holtsósi. Það leitaði líka í vestur, braut land í Fljótshlíð, og rann í Þverá sem varð að stórfljóti og rann í Þjórsá! Þá var t.d. Þykkvibærinn eyland og allar samgöngur erfiðar og hættulegar.

Vatnasvið Markarfljóts er um 1200 km2, lengd þess frá Þórsmörk að sjó 38 km. Mikill framburður er í fljótinu ofan af hálendinu. Það hefur borið milljónir tonna af sandi og leir með sér og m.a. myndað Landeyjasanda.

Fyrirrennarar fljótsins við lok fyrri ísaldarskeiða hafa átt þátt í að byggja upp láglendið og fylla mikinn fjörð sem nú er Landeyjar og fleiri sveitir.

Fyrir 1600 árum þakti birkiskógur með allt að 20 cm gildum stofnum landið sunnan Fljótshlíðar. Mikið af þessum skógi eyddist í hamfarahlaupi eða -hlaupum.

Um landnám er talið að Markarfljót hafi kvíslast í einum sjö greinum um láglendið og landnámsbæir því oft nefndir eyjar -Hallgeirsey o.s.frv. Um 1200 virðist fljótið hafa sameinast í færri farvegi og verða æ fyrirferðarmeira.

Síðustu aldirnar hefur Markarfljót greinst í fjóra megin farvegi og flakkað á milli þeirra, þ.e. núverandi farveg, Fauska, Ála, Affalls og Þverár. Fljótið hefur valdið landbroti við alla þessa farvegi með tilheyrandi framburði. Eftir að jöklar tóku að hopa snemma á tuttugustu öldinni óx vatnsmagn í fljótinu. Í kjölfar þess fylgdi mikill sandágangur í ofanverðum Landeyjum og einnig sótti vágesturinn að sunnan, upp frá sjávarströndinni.

Það var árið 1910 að fyrsti varnargarðurinn var byggður að frumkvæði heimamanna. Hann var við Seljaland og 700 m langur. Árin 1917-18 var garðurinn endurbættur og lengdur. Á árabilinu 1930-1950 voru gerðar miklar fyrirhleðslur í fljótinu til að verja láglendi Fljótshlíðar, Vestur Eyjafjalla og Landeyja. Ennfremur til að veita fljótinu undir hina miklu samgöngubót, Markarfljótsbrúna árið 1933.

Scroll to Top