Litla hestakonan

Sumarið 1967 fannst mér ég verða alvöru hestakona. Það gerðist þannig að pabbi minn lagði í langa ferð með þremur vinum sínum. Fjallabaksleið á hestum alla leið frá Miðhjáleigu í Landeyjum, sólarganginn austur í Skaftártungur og síðan sem leið lá aftur heim.

Það þótti ekki ráðlegt af honum Ólafi að fara af bæ í slættinum. „Ætli hann sé eitthvað að ruglast karlinn” sagði fólkið í sveitinni.

Ekki man ég hvað þetta ferðalag tók marga daga. Þeir voru þrír á hestum og einn á Bronco jeppa með tjald og annan viðlegubúnað, alltaf búinn að tjalda og hafa til kvöldmat þegar komið var í náttstað.

Það var lagt upp frá Hellu og pabbi var með svo marga hesta að hann gat ekki farið einn. Svo ég litla stelpa var látin í þetta mikla verkefni að hjálpa honum út að Hellu. Þá fékk ég í fyrsta skipti á æfinni að ríða alvöru hestum, Nasa hans Sigmars, Glámi hans Þóris og Gusti hans Guðmundar. Það var gaman og að teyma heila hersingu við hlið sér, ég man það eins og það hafi gerst í gær.

Eftir þetta neitaði ég að vera á gömlu klárunum og komst upp með það. Ég var orðin alvöru hestakona og er það enn, og vona að ég hafi heilsu til að fara á hestbak í mörg ár til viðbótar.

Fyrir tuttugu árum sá ég mjög fullorðna konu í reiðbuxum og lopapeysu með vasapela í rassvasanum dansa og syngja af mikilli gleði. „Ég  ætla að verða eins og þessi” hugsaði ég þá.

Þegar ferðalangarnir fóru síðustu dagleiðina fórum við Svavar bróðir á móti þeim og tókum þátt í rekstri heim að Miðhjáleigu og ég á alvöru hestum.

Ásdís Ólafsdóttir

Frístundabóndi

Bót

Í náttstað í Skaftártungu. Veist þú hvaða bær þetta er?
Litla hestakonan á Gusti við Hafurshól undir Eyjafjöllum 25. júlí 1967.
Pabbi, Ólafur Guðjónsson á Glámi við Hafurshól undir Eyjafjöllum 25. júlí 1967.
Scroll to Top