Limamót 1998

Haraldur Júlíusson bóndi, orgelleikari og kórstjóri frá Akurey í Vestur-Landeyjum skrifaði þennan skemmtilega og fróðlega pistil. Hann segir:

Eftirfarandi pistill sem ég fann í gömlu dóti hjá mér var settur saman í tilefni af ættarmóti, svokölluðu Limamóti afkomenda hjónanna Sunnefu Ormsdóttur og Árna Jónssonar í Efri-Ey í Meðallandi sumarið 1998.
Hann hefur að geyma nokkur minningabrot frá fyrstu 6 árum ævi minnar í Hól og Efri-Eyjar bæjunum í Meðallandi 1934 -1941, þegar við systkinin Haraldur, Bjargmundur og Lilja, fluttumst með foreldrum okkar að Akurey í Vestur-Landeyjum vorið 1941.
Haraldur Júlíusson

Ágætu limir, meðlimir og aðrir hátíðargestir!

 Það er mér mikill heiður og ánægja að mega vera með ykkur hér á þessu Limamóti. Það var reyndar með hálfum huga að ég féllst á það við frænda minn Guðgeir Bjarnason að tala hér, en það þarf meira til en mér er gefið frá skapara mínum að hafna slíku boði úr hendi Guðgeirs. Einnig kom það líka til, við athugun mína á þessu máli, að mér bæri nokkur skylda til verksins þar sem ég mun vera aldursforseti þeirra sem komnir eru út af þeim heiðurshjónum Sunnevu Ormsdóttur og Árna Jónssyni í Uppbænum í Efri-Ey.

Niðurstaða þessara hugleiðinga minna og athuguna varð sú að líklega væri ég nokkurs konar frummaður og bæri mér því skylda til að standa hér og sýna mig  og sjá aðra af ættkvíslinni sem hér kynnu að verða samankomnir og aðra þá sem henni tengjast á einhvern hátt.

Efri-Ey

Mitt í þessum merkilegu hugleiðingum mínum heyrði ég svo frétt í útvarpi allra landsmanna að fundist hefði frummaður í uppþornuðum mýrarpytti einhversstaðar suður í Evrópu. Hafði hann legið þar óskemmdur um nokkurn tíma, eða um fimm milljónir ára. Nú voru vísindamenn búnir að rannsaka heilabú mannsins nákvæmlega og komust að þeirri niðurstöðu að maðurinn hefði verið heimskari en þá hefði órað fyrir, enda hefði stærð heilans aðeins verið brot af stærð heilans í nútímamanninum. Lá nú við að mér félli allur ketill í eld við þessar upplýsingar og ég hætti við að kenna mig við frummanninn, en þar sem þróunarferillinn var ekki styttri en um var rætt, lét ég slag standa og er hér mættur og bærilega þróaður. En mér er það líka ljóst og er mjög sáttur við það, að þeir sem á eftir mér feta í aldursröðinni eru mér fremri og meiri á flestum eða öllum sviðum.

Á þessu sumri 1998 eru liðin 57 ár frá því að foreldrar mínir Sigurlín Árnadóttir og Júlíus Bjarnason fluttu frá Hól með okkur börn sín 3 að Akurey í Vestur-Landeyjum. Þau höfðu þá búið í Hól í 6 ár, en þeim fannst þröngt um sig þar og vildu leita nýrra möguleika og tækifæra til landbúnaðar í víðara umhverfi.

Í Akurey búnaðist þeim vel og undu hag sínum hið besta. En rætur þeirra slitnuðu aldrei við Meðallandið og sama má segja um okkur systkinin. Alltaf töluðu foreldrar okkar um það að fara „Austur“ eða fara „heim“ sem þýddi að fara austur í Meðalland og oft var spurt „hvort nokkuð væri að frétta að austan?“

Fyrir mér og ef til vill okkur flestum er Efri-Ey og Meðallandið eins og Mekka er múslimum og ferðir okkar frá Akurey hafa ætíð verið nokkurs konar pílagrímsferðir sem farnar hafa verið flest þau 57 ár sem liðin eru frá fardögum í júní árið 1941.

Minningar mínar frá æskudögum mínum hér á Efri-Eyjarbæjunum eru tengdar lífinu sem lifað var á þeim árum. Og ég læt hugann reika. – Það er kvöld. – Ég heyri í hauströkkri taktfast hestvagnshljóð nálgast. Pabbi ásamt fleiri nágrönnum er að koma heim úr haustferð til Víkur. Af vagninum eru teknar nauðsynjar til heimilisins sem duga skulu til vors. – Rúgmjölspoki, hveitipoki.- Sykur, salt og saltfiskur. – Rúsínur, sveskjur og kaffibaunir óbrenndar ásamt David kaffibæti frá Ó. Johnson & Kaaber.- Fyrir mömmu nokkur tvinnakefli og efni til að sauma úr á börnin og kanske fékk hún efni í kjól, svo eitthvað sé talið og eflaust hefur kandisykur og súkkulaði til jólanna verið með, því heitt súkkulaði var alltaf haft á jólum.

Aftur er komið myrkur og nú heyrist einkennilegur niður úti í myrkrinu. Kúðafljót er að koma. Hlaup er komið í Fljótið og vatnið brýtur sér leið úr farvegi sínum og flæðir austur yfir Meðallandið. Morguninn eftir þegar bjart er orðið sést vatnsflaumur milli bæjanna og Óli í Miðbænum er að fleyta sér á rekadrumbi austan við Miðbæinn. Mikið öfunda ég Óla að vera orðinn svona stór og svona klár.

Og eins og svo oft áður í Meðallandinu þá er skip strandað á Skarðsfjöru, eða var það á Slýgnafjöru? – Mönnunum er giftusamlega bjargað og skipt niður á bæina þangað til að hægt er að flytja þá á brott. Mennirir tala á svo furðulegan hátt að ég skil ekkert af því sem sagt er, en okkur krökkunum er sagt að mennirnir séu útlendingar og svona tala þeir þá í útlöndum.

Mennirnir eru með einkennilegar dósir í vösum sínum og úr þeim taka þeir hvítar og brúnar lengjur, stinga öðrum enda þeirra upp í sig og kveikja svo í hinum endanum sem út úr þeim stendur, sjúga svo að sér eldin, taka lengjuna út úr sér og blása út þykkum reyk svo húsið fyllist af furðulegri en ekki slæmri lykt. Þó allt öðru vísi en af taðreyk eða hangikjöti. Mamma sagði að þetta væri vindlalykt. Eftir nokkra daga voru þessir framandi gestir á brott farnir, en nokkrar vindladósir urðu eftir til að leika sér að á meðan þær dugðu til slíkra nota. Enn mun vera til ein af þessum í Akurey, sem hefur að geyma gamlar ljósmyndir.  

Enn læt ég hugan reika og ég minnist jólaskemmtunar í skólanum norður á Bóli. Allt er svo hátíðlegt og á miðju gólfi stendur jólatré. Mér finnst enn að það sé hið eina sanna jólatré. Það er heimasmíðað í líkingu trés með mörgum greinum. Greinarnar eru vafðar með berjalyngi og á greinunum hanga skrautlegir hjartalagaðir jólapokar sem eru fléttaðir saman úr mislitum pappírsræmum. Ég hafði aldrei séð aðra eins dýrð og fegurð. Og ég minnist ilmsins af lynginu og heitu súkkulaðinu og fínu kökunum sem allir fengu að gæða sér á.

Um leiki okkar systkinanna er það helst að segja að inni voru rekin stórbú með fjölda fjár, því allir kögglar úr sviðafótum voru hirtir og vel „fóðraðir“ og gátu enst lengi. Þar mátti finna fagrar sauðahjarðir, kynbótaær og hrúta, hyrnda og kollótta. Hornin voru búin til úr fiskbeinum sem hituð voru í kertaloga og undið upp á þau svo sem með þurfti, til að fá þau með sem eðlilegustum snúning sérstaklega á hrútana. Voru síðan boruð smá göt í köggulinn sem beinunum var stungið í. Þá var kertaloginn notaður til að ná fram sem flestum litaafbrigðum á fénaðinn. Líka voru eftirsóttir kögglar sem brennst höfðu þegar sviðið var, til að fá fram vel flekkóttar kindur.

Úti var sami búskapur stundaður, en þar gengdu hornin af kindunum aðalhlutverki og gott átti sá bóndi sem átti í sinni hjörð margsnúin hrútshorn. Kindakjálkar voru líka notaðir, en ég man minna eftir þeim. Síðan var gott að eiga væna hjörð af hrosshófum sem komu sér vel í erfiðum smalamennskum. Öllu þessu var svo vel og skipulega raðað í haga eða að jötu, eftir því sem með þurfti á hverjum tíma.

Þessir leikir voru náttúrlega að mestu sniðnir fyrir okkur strákana og verðandi framtíðar bændur, en stelpan systir okkar átti helst að leika sér við brúðurnar sínar sem voru svokallaðar „tuskudúkkur“ enda var hún yngri og ósköp lítil á þessum tíma. Henni var meira að segja pakkað inn í sængur og annað dót þegar farið var upp á Svæður til að heyja. Seinna þegar árin liðu og hún varð stór, reyndist hún bræðrum sínum jafnfætis eða meira á flestum eða öllum sviðum lífsbaráttunnar og hefur margsinnis reynst þeim og öðrum hin mesta hjálparhella, eins og þið öll sömul vitið.

Svo langar mig aðeins að minnast heimsókna okkar systkinanna til ömmu og afa í Uppbænum, sem voru tíðar á þessum árum. Ég minnist afa þar sem hann sat á rúmi sínu, sjúkur maður en rólegu og æðrulaus. „Hvenær batnar þér afi?“ spurði ég. „Þegar ég kem til Guðs“ sagði afi.

Ég man Ömmu þar sem hún stóð við hlóðir með hvíta skuplu á höfði sér og bakaði flatkökur, betri en nokkrar aðrar flatkökur. Og mikið voru kökurnar góðar með nýstrokkuðu smjöri og kæfu sem við fengum í nesti með okkur heim. En stundum fengum við líka nýjar kleinur í nestið og kandísmola og allt var þetta gefið af mikilli ást og umhyggju fyrir okkur systkinunum. Oft hef ég hugsað um það hvað það hafi verið mikill missir fyrir okkur systkinin þegar við fluttum frá Hól, að missa hið nána samband sem við áttum við afa og ömmu í Uppbænum.

Einn góðviðrisdag síðsumars ber það til tíðinda í Hól að álft er komin á hlaðið og blæs á okkur krakkana og baðar út vængjunum. Við verðum skelfingu lostin flýjum inn til mömmu. Hér er þá komin álft  sem alist hefur upp á einhverjum bænum og er nú að skoða sveitina. Ekki veit ég um afdrif hennar, en ekki mun hún hafa haft langa dvöl í Hól.

Og nú er komið að því að flytja frá Hól í Meðallandi að Akurey í Vestur-Landeyjum. Þetta var stór ákvörðun hjá foreldrum mínum og margt þurfti að gera. Lélegur bílvegur var kominn í Meðallandið og samgöngur því erfiðar. Ekki mátti fara með kindurnar og voru þær seldar. Þar á meðal Grána mín sem mér var nýgefin. Uppboð var haldið á ýmsum varningi og fór það að mestu fram hjá mér, en aðeins man ég eftir hreppstjóranum sem bauð upp varninginn sem mér fannst mjög valdsmannslegur og var mér lengi fyrirmynd að því hvernig ég taldi að valdsmenn væru í sjón og útliti.

Svo rann upp dagurinn sem lagt var á stað. Búið var að kveðja alla í Uppbænum og Miðbænum, Bakkakoti og öðrum bæjum þar sem vinir og kunningjar eða frændfólk var. Menn voru komnir með hesta og stigið var á bak og haldið af stað út yfir Kúðafljót, út í Álftaver. Við börnin, ég 6 ára, Bjargmundur 4 ára og Lilja 3 ára vorum reidd af sterkum mönnum sem voru vanir vatnamenn. Ég held að Gísli á Melhól hafi verið fararstjóri, en auk hans munu Jón og Bjarni í Efri-Ey hafa verið með og ef til vill fleiri. Valin var svokölluð Syðri leið. Farið frá Sandaseli og komið upp hjá Þykkvabæjarklaustri. Nyrðri leið var frá Melhól og komið upp hjá Skálmabæ. Ferðin yfir fljótið mun hafa tekið um 2 og 1/2  tíma. Mikið sundlaði okkur og sýndust menn og hestar fara á fleygiferð móti straumnum. En okkur var fast haldið og allt fór vel. Síðan var komið að Hraunbæ. Lítið man ég eftir komunni þangað, en oft lá leiðin þangað seinna og þar var gott að koma og mikil gleði ríkti á þeim bæ og í miklum barnahópi. Frá Hraunbæ var haldið að Herjólfsstöðum og gist þar um nóttina. Þar var gott að vera og mikil gestrisni.

Snemma næsta morgun vorum við börnin vakin, nú var komin vörubifreið frá Kirkjubæjarklaustri sem Júlíus Lárusson, einn af frægum Klausturbræðrum ók, skyldi hann koma okkur á leiðarenda samdægurs. Var nú búslóðinni komið á bifreiðina og síðan lagt af stað í fyrstu bílferðina sem fjölskyldan hafði lagt upp í saman. Þetta var líka fyrsti bíllinn sem við systkinin höfðum séð. Hrossin höfðu verið send á undan. Guðjón í Selinu, bróðir pabba og Sveinbjörn á Melhól tóku að sér að reka þau alla leið.

Margt nýstárlegt bar nú fyrir augu yngstu farþeganna. Þannig vakti það athygli mína þegar komið var til Víkur í Mýrdal, hversu mörg og stór hús voru þar. Var það svo ríkt í minni mér síðar, að þegar ég í barnaskóla átti að telja upp helstu bæi og  kauptún á Íslandi þá taldi ég Vík í Mýrdal með þeim stærstu og hlaut að launum aðhlátur minna skólafélaga og ábendingu kennarans um að hyggja betur að orðum mínum í hvert sinn sem ég tæki til máls. Eins og í öllum ferðum okkar síðan, var stansað í Skammadal hjá Borgu og Sirra og þar man ég eftir undarlegu hljóði rafstöðvarinnar sem stóð skammt frá bæjarhúsunum og vöktu hjá mér athygli.

Ferðin gekk hið besta og var komið í áfangastað um mjaltaleytið um kvöldið en ekki man ég eftir mjöltunum. Ég minnist þess að þreyttir ferðalangar gengu í bæinn á nýjum óþekktum stað, þar sem framtíðin og gæfan beið okkar allra, en 6 ára drengstauli grét sig í svefn og vildi fara „heim,“ austur í Meðalland. En að morgni var nýr dagur runninn upp með nýjum ævintýrum og nú er vistin orðin nær óslitin í 57 ár og sannað þykir að vegurinn að heiman er vegurinn heim.  – (Árin í Akurey urðu 65. 1941 – 2006)

Guð gefi okkur öllum farsæld og frið og blessuð sé minningin um Sunnefu Ormsdóttur og Árna Jónsson í Efri-Ey og allt það góða fólk sem hér áður gekk um grundir og við áttum samleið með. 

 Endurritað með smá breytingum

Hvolsvelli 26. maí 2022

Haraldur Júlíusson

Scroll to Top