Það mun hafa verið um jólin 1949 eða 50 að von var á jólapakkanum frá Grími frænda og Nönnu.
Það hafði verið gaddur undanfarið og állinn vestan við bæinn var gaddaður í stokk svo á honum var þykkur ís bakka á milli.

Nú var von á pakkanum með Víkurbílnum, inn í Hólm, þangað eru 6 kílómetrar og þangað þurfti að sækja hann. Nú var stóra spurningin tækist það fyrir jól? Gæti kannski verið að Árni á Bjarkalandi eða Siggi bróðir hans í Steinmóðarbæ myndu sækja hann því þeir áttu jeppa, en ef svo færi væri björninn ekki unninn því þangað var állinn ófær og svo ekki að vita hvort þeir hefðu yfirleitt farið inn í Hólm í veg fyrir Víkurbílinn. Um þetta braut ég heilann og óvissan var mikil.
Ég fylgdist með því að pabbi var að bauka við sleða sem var úti í hlöðuskúr og nú hlaut eitthvað að standa til og viti menn hann lagði af stað með sleðann í eftirdragi og kom til baka með jólapakkana og að auki jólatréð sem þau Grímur og Nanna sendu alltaf.
Nú var miklu fargi af mér létt því ég hafði gert mér í hugarlund að pakkinn kæmist ekki fyrr en állinn ryddi sig hvenær svo sem hlákan kæmi.
En nú kom upp nýtt vandamál. Jólatréð var svo stórt að það komst ekki upp í baðstofu, hvað skyldi nú vera tekið til bragðs, það var sárt ef stytta þyrfti þetta fallega tré en undan því varð ekki vikist, ekki var hægt að hafa það úti svo pabbi fór inn á verkstæði sótti sög og sagaði neðan af því og það var svo skreytt inni í baðstofu og jólin komu og stressið gleymdist en minningin um þetta hefur blundað alla tíð síðan.
Þorsteinn Ó. Markússon frá Borgareyrum