
Mig langar, lesandi góður, að deila með þér litlum sögum af börnum. Ég held að það geri okkur gott að brosa svolítið, ekki síst á þessum sérstöku tímum þegar okkur eru skorður settar til verndar þeim sem viðkvæmust eru. Við verðum að vera dugleg, standa saman – og brosa. Oft er sagt að jólin séu hátíð barnanna og víst er að börnin hlakka til en það þýðir ekki að við sem eldri erum getum ekki átt svolítið í hátíðinni með börnunum. Oftar en ekki vekja jólin með okkur endurminningar úr bernskunni. Í huganum hverfum við aftur til þess er við sjálf vorum börn og vonandi átt þú, lesandi góður, hlýjar og góðar minningar frá þínum bernsku jólum.
Ég er svo lánsöm að fá að hitta fyrir mörg börn í mínu starfi og einhverju sinni spurði ég 6 ára börn hvort þau vissu hverjir það voru sem fengu fyrstir að sjá jólabarnið? Til þess að hjálpa börnunum að rifja upp jólaguðspjallið þá benti ég á mynd upp á vegg af fjárhirði og einn drengurinn var snöggur til og svaraði sigri hrósandi: „Það voru kindararnir!“

Já, það er indælt að mega vera innan um börn og ekki síst að fá að fylgjast með skírnarbörnunum sínum vaxa og dafna. Um daginn heyrði ég t.d. að honum Benedikt sem er reyndar orðinn unglingur í dag. Þegar hann var lítill strákur þá fékk hann hamstur sem lifði nú ekki lengi, greyið. Benni litli, sem þá var 5 ára, hringdi niðurbrotinn í ömmu sína og spurði hvort hann mætti jarða hamsturinn úti í garði hjá henni. En frost var í jörðu svo amma sagði einsog var: „Benni minn, það er bara ekki hægt að moka holu í jörðina.“ En afi var fljótur að redda málunum og stakk upp á því að jarða hamsturinn í fjörunni – og það gerðu þeir. Daginn eftir var Benni ósköp hnugginn og sagði við mömmu sína að hann treysti sér ekki í leikskólann, hann væri svo dapur. En hún ráðlagði honum að biðja bænirnar sínar. Að tala við Guð og biðja Guð um að geyma hamsturinn. Og það gerði Benni. „Góði Guð viltu passa hamsturinn minn í himnaríki“ sagði hann. Þá truflaði mamma hans hann og sagði að hún væri alveg viss um það að nú væri hamsturinn í garðinum hjá Guði að leika sér við bleiku merina hennar ömmu sem dó úti í túni þá um sumarið. Benni horfði stóreygur á mömmu sína, spennti greipar og bætti við: „Góði Guð, viltu passa að bleika merin hennar ömmu stigi ekki á hamsturinn minn!“
Margir halda að rauður sé litur jólanna. Fólk skreytir húsin sín og garðana gjarnan með rauðum seríum og þá er jólasveinninn gjarnan klæddur í rauð klæði. Það er hlýtt og gott í skammdeginu að njóta litríkra jólaljósa. En litur jólanna í kirkjunni er hvítur, litur gleði og upprisu. Litur ljóssins.
Þetta varð svolítið þrætuepli milli dóttur minnar sem þá var 5 ára gömul og ömmu hennar. Þær voru að spjalla saman í bílnum eftir vel heppnaða bæjarferð þar sem amma hafði keypt á hana jólakjól. Stúlkan hafði valið sér hvítan jólakjól og segir sem svo við ömmu sína: „Amma, kjóllinn minn er hvítur alveg eins og hvítur er litur jólanna.“
„Já“, segir amma, „og svo er rauður líka litur jólanna.“
“Nei amma, hvítur er litur jólanna”, segir sú stutta.
„Já, en líka rauður“, svarar amma. „Sérðu bara öll rauðu ljósin og svo er jólasveinninn í rauðu…“
Þá svarar sú stutta af yfirvegun: „Amma, svolítið gamalt fólk veit ekki alltaf allt.“
Börnin okkar eru blessun. Hlutverk þitt í þessu lífi er sömuleiðis að vera til blessunar. Fyrir þig og samferðarmenn þína. Og ef hallar undan fæti þá eigum við að geta treyst því að eiga hvert annað að. Við getum vonandi öll verið sammála um það hverju sem við svo sem trúum. Og nú horfum við fram á veginn, beinum sjónum til jóla og bíðum þess að jólabarnið komi í heiminn með sérstökum hætti. Litla barnið í jötunni er gjöf Guðs til þín. Með því segir Guð: „Ég elska þig og þú skiptir mig máli. Og hér er sonur minn og hann vill hafa áhrif á þig. Á hug þinn og hjarta. Vera með þér jafnt nótt sem nýtan dag. Viltu taka á móti þessu barni? Þiggja þessa gjöf?“
Því verður hver og einn að svara fyrir sig.
Guð gefi þér, lesandi góður og þinni fjölskyldu gleðileg jól og frið í sálu og sinni.
