Skammdegið leggst að og nú er runninn upp sá tími sem myrkastur er hér á landi. Þessir dagar leggjast á sveif með þeim undarlegustu tímum sem við höfum upplifað og líf okkar og samskipti við hvert annað gengið rækilega úr skorðum. Kórónuveira, sóttkví, samkomubann og takmarkanir eru orð sem eru um og yfir og allt um kring í lífi okkar nú um stundir. Og, einmitt þegar þannig háttar til þá hefur aðventan, jólafastan innreið sína. Sá tími þegar biðin og eftirvæntingin eftir ljósi lífsins rís sem hæst. Og, þau koma brátt blessuð jólin. Hátíðin sem sem boðar okkur að „í dag er frelsari fæddur sem er Kristur Jesús í borg Davíðs“ og þjóðskáldið okkar sr. Matthías Jochumsson orti um eftirfarandi:
Fjárhirðum fluttu
fyrst þann söng Guðs englar,
unaðssöng, er aldrei þver:
Friður á foldu,
fagna þú, maður,
frelsari heimsins fæddur er.
Það er þetta barn sem þá fæddist, frelsarinn okkar Jesús Kristur, sem hefur veitt okkur skilning á því hvað er heilbrigt og rétt í mannlegum samskiptum og sýn á lífið og veganesti þess boðskapar er að reynast góð manneskja í ferðinni, að við séum aldrei ein og yfirgefin hvort heldur við erum ung eða öldruð, göngum sólarmegin í lífinu eða í skugganum.
Það er nú svo að þegar árin og lífsreynslan eru farin að setja mark sitt á okkur, þá er eins og við kunnum betur að greina kjarnann frá hisminu og eftir stendur skilningurinn á því hvað helst hefur orðið okkur til góðs og gæfu og farsældar.
Þeir sem komnir eru á eldri ár hafa um aldir verið ræktarsamastir við trúna og trúarlífið og miðlað arfinum og kristindómnum áfram veginn til komandi kynslóða.

Miðlað þeirri trú að það er frelsarinn okkar Jesús Kristur sem er fyrirmynd okkar, frelsari og leiðtogi. Og, það er með því að ganga í fótspor hans sem við berum trú okkar vitni. Allt hans starf og boðun miðaði að því að gera mannlegt líf heilt og hamingjuríkt, og hann lagði áherslu á helgi mannlífsins, að líf hvers og eins er dýrmæt gjöf sem okkur er gefin af Guði. Og á öllum öldum höfum við sótt styrk í orðin hans sem þá fæddist. Styrk til að feta ævistiginn og skynjað í nálægð hans, að starf Guðs var og er unnið hér á jörðu fyrir okkur og með okkur sem það þiggjum. Orð hans og boðskapur hefur nært okkur og styrkt vegna þess að í samfylgd með honum verður allt auðugra og fyllra. Hver einustu jól minna okkur á Guð sem er enn að verki, enn nálægur og fullur elsku og fyrirgefningar.
Vonandi hafa þessir tímar sem við erum að upplifa nú, skerpt enn frekar skilning okkar á því hversu mikilvægt það er að byggja á boðskap hans sem hefur verið leiðarljós þessarar þjóðar um aldir og reynst okkur best; -trúin á góðan Guð og orðin sem hann biður okkur að virða og lifa eftir eru að sýna náungakærleik, samhygð, samhjálp. Þetta eru og verða alltaf dýrmætustu gildin sem við látum móta líf okkar. Að hlú hvert að öðru og bera hvers annars birgðar. Verum minnug hvatningarorða postulans, sem nú sem aldrei fyrr eiga við: „Börnin mín, elskum ekki með tómum orðum heldur í verki og sannleika“ (1. Jóh. 3.18).
Megi góður Guð gefa að við njótum öll friðar og gleði væntanlegrar hátíðar.
Sr. Halldóra Þorvarðardóttir