Hér segir af Sveini í Koti

Sveinn í Koti ( Stóra-Dalskoti, faðir þeirra Óla, Svenna og Eymundar í Stóru-Mörk) var í kjörstjórn og mátti þess vegna aðstoða þá sem ekki treystu sér til að kjósa hjálparlaust. „Gudda Þoddleifs“ sem var systir Kristófers í Stóra-Dal, þurfti þessa aðstoð og Sveinn fékk það verkefni, en ekki tókst betur en svo að hann skemmdi seðilinn og brenndi hann. Þá varð til þessi vísa.

Sveinn í Koti, sá andskoti,
seðil skemmdi því er ver.
Síðan brenndi með sinni hendi,
Svoddan Gudda Þoddleifs tér.

Sveinn átti uppáhalds hest sem hann ól á salla (moði) frá öðrum gripum og hlaut hann af því nafnið Salli, þá varð þessi vísa til.

Salli ólst upp á salla
Salli hefur engan galla
Salla má sóma kalla
Svein ber hann upp til fjalla.

Svo er hér ein saga af Björgvin sýslumanni á Efra-Hvoli frá því er hann var að læra lögfræði í Kaupmannahöfn. Einn samstúdenta hans veiktist og það varð að halda honum vakandi hvað sem það kostaði. Læknir fékk Björgvin til að taka það að sér, þar sem hann var vel að manni, enn það dugði ekki og pilturinn dó. Þá sögðu skólapiltar að það gæfi augaleið að hann hefði hrist hann til bana.

Þá sagði Björgvin. Hafi ég drepið mann þá var það samkvæmt læknisráði.

Scroll to Top