Halló þingmenn, heyrið þið til okkar?

Við birtum fyrir skömmu bréf til þingmanna Suðurkjördæmis frá stjórn FEBRANG. Þeir eru tíu talsins og fjórir sáu ástæðu til að svara.

Nú hefur FEB-R, Reykjavíkurfélagið, skrifað þingmönnum Reykjavíkur til að vekja athygli á nokkrum sjálfsögðum kröfum okkar eldri.

Hér er bréfið:



Reykjavík 25. nóvember 2020 

Til þingmanna Reykjavíkurkjördæma norður og suður 

Á næstu vikum mun það koma í ykkar hlut að taka þátt í afgreiðslu fjárlaga næsta árs og þá m.a. taka afstöðu til þess hver eigi að verða hækkun greiðslna almannatrygginga milli áranna. Í því sambandi vill FEB vekja athygli ykkar á því að á undanförnum árum hefur stöðugt dregið sundur með lágmarkslaunum og lífeyri almannatrygginga til aldraðra og öryrkja, eins og sýnt hefur verið fram á með óyggjandi hætti í mörgum umsögnum um fyrirliggjandi fjárlagafrumvarp.

Samkv. 69. gr. laga um almannatryggingar ber að taka mið af launaþróun við ákvörðun um upphæðir almannatrygginga. Á undanförnum árum hefur ákvörðunin hverju sinni byggst á spá í fjárlagafrumvarpi um strípaða „meðaltalshækkun skv. kjarasamningum, en sú aðferðafræði hefur leitt til þess að á s.l. 10 árum hefur óskertur ellilífeyrir farið úr því að vera 91,5% af lágmarkslaunum niður í 75%.

Með öðrum orðum: Uppsafnaður hlutfallslegur halli þessara ára er orðinn 18%. Óánægja og reiði aldraðra vegna þessarar þróunar fer vaxandi og um leið vantrú á að eitthvað sé að marka fögur fyrirheit stjórnmálamanna og flokka fyrir kosningar.

Krafa eldri borgara er að frekari kjaragliðnun verði stöðvuð nú þegar, og síðan verði hafist handa um að vinda ofan kjaragliðnun undanfarinna ára.

Nú liggur það fyrir að samkvæmt lífskjarasamningnum eru hækkanir launataxta á næsta ári ekki ákveðnar í prósentum, heldur verða þær sama krónutala á alla línuna; 15.750 kr. ofan á alla launataxta lága sem háa. Það er hin almenna launaþróun sem rökrétt er að hækkun ellilífeyrisins taki mið af. Ellilífeyririnn þarf því að hækka um þessa sömu krónutölu ef fullnægja á 69. greininni. Hann myndi þá fara úr 256.800 kr./mán. í 272.550 kr., sem gerir hækkun um 6,1% í stað þeirra 3,6% sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu.

Með tilliti til atvinnuástandsins í landinu er líka vert að benda á, að það myndi hafa jákvæð áhrif á vinnumarkaðinn að draga úr skerðingum ellilífeyris vegna greiðslna frá lífeyrissjóðum, t.d. með því að sameina núverandi frítekjumörk í eitt 125 þús. kr. almennt frítekjumark. Það myndi auðvelda eldra fólki að láta af störfum og losa með því um störf fyrir þá sem yngri eru.

Fyrir hönd um 13.000 félagsmanna í Félagi eldri borgara í Reykjavík og nágrenni heitum við á ykkur, þingmennina okkar, að veita þeim málefnum sem hér hafa verið rakin stuðning ykkar við afgreiðslu fjárlaga á komandi vikum. 

Virðingarfyllst, 

f.h. stjórnar FEB Ingibjörg H. Sverrisdóttir, formaður 

Scroll to Top