Hagræðing í rekstri FEBRANG – Kynning 18.9. 2023

Á félags- og fræðslufundi, sem haldinn var 18.9. s.l. voru hagræðingaráform stjórnarinnar kynnt. Við birtum þau hér:

FEBRANG fagnar þrjátíu ára afmæli á þessu ári. Félagið hefur vaxið og þróast og verkefnum fjölgað.

Afmælisárið er góð ástæða til að fara í naflaskoðun og gera úttekt á því hvert félagið er að fara: Erum við að sinna réttu verkefnunum, gerum við þau rétt eða er rétt að gera breytingar. Allavega er rétt eins og alltaf að leita leiða til að hagræða í rekstri og reyna að bæta þjónustuna við félagsfólkið. Um 800 þúsund króna tap var á rekstrinum á síðasta ári. 

Stjórn FEBRANG ákvað á stjórnarfundi 17. apríl s.l. að fara yfir allan rekstur félagsins með það að markmiði að hagræða í rekstri og jafna framlagi Héraðsnefndar sem best milli verkefna félagsins.

Í 2. grein laga FEBRANG segir:
Tilgangur félagsins er að vinna að málefnum aldraðs fólks með því að: 

1. Vekja athygli og auka skilning almennings, ríkis og sveitar á þörfum eldri borgara (60 ára og eldri).

2. Stuðla að aukinni þjónustu við eldri borgara.
3. Skipuleggja tómstunda- og félagsstarf á meðal eldri borgara.

4. Vinna að öðrum þeim málum, sem til hagsbóta teljast fyrir eldri borgara.

Lang umfangsmesti og fjárfrekasti hluti starfseminnar hefur verið á sviði tómstunda- og félagsstarfs.

Tekjur félagsins á þessu ári eru 5,4 millj. kr. sem koma frá Héraðsnefnd Rangárvallasýslu og um 900 þús. kr. tekjur af félagsgjöldum. Framlag Héraðsnefndar nemur um 17.900 kr. á hvern félagsmann. Félagsgjaldið á þessu ári er 3.000 kr. 

Skoðum nú þær hagræðingaaðgerðir sem stjórnin hyggst grípa til

Starfskraftur:
Þórunn Ragnarsdóttir var starfandi framkvæmdastjóri fram að aðalfundi 2023. Hún var í 33% starfi. Ákveðið var að ráða ekki starfsmann að sinni, heldur fá verktaka í einstök verkefni á meðan stjórnin væri að vinna að hagræðingu í rekstri.

Stjórnin hefur nú ákveðið að ráða fastan starfsmann í 25% starf frá næstu áramótum á sambærilegum kjörum og áður giltu.

Handverk:

Um 48 félagar taka þátt í handverki, þ.e. keramik- og postulínsmálun. Handverkið er tvisvar í viku, þrjá tíma í senn, alls í 51 skipti á ári. 

Þrír leiðbeinendur annast kennsluna, yfirleitt tveir í senn. Einnig hefur starfskraftur annast sölu á handverksmunum til þátttakenda 2 klst. tvisvar í viku.

Tekjur af þáttökugjöldum eru áætlaðar 336 þús. kr. Kostnaðurinn við handverkið er áætlaður 2,1 millj. kr. á þessu ári.  Kostnaður á mann er áætlaður 44 þús. kr. (2.100.000/48). Þátttökugjaldið árið 2023 er 7.000 kr. (3000+4000). Nettó niðurgreiðsla nemur því um 37 þús. kr. á þátttakanda eða 1.792.350 kr. alls.

Þátttökugjöld hafa ekki fylgt verðþróun undanfarin ár. Gjaldið var 3.000 kr. á vorönn. Stjórnin hefur ákveðið að hækka gjaldið í 4.000 á haustönn og 4.500 á vorönn 2024. 

Mikil fjárbinding er í lager handverksvara. Verðmæti lagersins er nú 701 þús. kr. á innkaupsverði. Ekki hefur verið lagt gjald ofan á innkaupsverð vara. Stjórnin hefur ákveðið að leggja 10% gjald ofan á innkaupsverð. Fyrir því eru þrjár ástæður: 1. Alltaf verður einhver rýrnun. 2. Verðbólga rýrir verðgildi lagersins. 3. Lítils háttar tekjuöflun til að draga úr niðurgreiðslu. 

Útskurður:

Því miður hefur þátttaka í útskurði farið minnkandi. Var komin niður í 6 manns og kostnaður á mann þá yfir 50 þús. kr. Það er því svo komið að taka verður ákvörðun um hvort áfram verði haldið. Ákveðið er að halda áfram með útskurð á haustönn í von um að þátttakendum fjölgi. Þátttökugjaldið var 3.000 kr. á vorönn. Stjórnin hefur ákveðið að hækka gjaldið í 4.000 kr. á haustönn og sjá síðan til með framhaldið. Nettó niðurgreiðsla á þátttakanda er um. 49 þús. kr.

Sundleikfimi: 

Sundleikfimi var bæði á Hellu og á Hvolsvelli, 12 skipti á hvorum stað. Þátttakendur voru um 30. Stjórnin hefur í hyggju að á næsta ári verði sundleikfimi til skiptis á Hvolsvelli og Hellu. Reiknað er með að fólk úr öllum sveitarfélögunum taki þátt á báðum stöðum. Skiptum verði fækkað úr 24 í 20, en fólk hafi því kost á að mæta í 20 skipti í stað 12 ein og áður var.

Ferðir og hátíðir:

Ferðir hafa ekki notið niðurgreiðslu af framlagi Héraðsnefndar að öðru leyti en sem nemur vinnu við undirbúning og fararstjórn. Hátíðir hafa ekki verið niðurgreiddar að neinu leyti. 

Hringur:

Félagið hefur tekið þátt í launakostnaði kórstjóra. Upphæðin var 264.000 kr. á vorönn og hefur stjórnin ákveðið að greiða Hring sömu upphæð á haustönn.

Hér hefur verið greint frá ýmsum aðgerðum stjórnar til að hagræða og draga úr kostnaði við verkefni á vegum félagsins til að geta greitt niður önnur, sem litla eða enga niðurgreiðslu hafa fengið. 

Rekstraráætlun þessa árs gerir ráð fyrir rekstrarafgangi. Það helgast m.a. af því að launakostnaður hefur lækkað og gjöld á haustönn hækkað. Engin kostnaður er færður á vinnu við bókhald, innheimtu eða félagatal. Stjórnin hefur ákveðið að greiða lítillega niður leikhúsferð, árshátíð og jólahlaðborð.

Scroll to Top