Hélt af stað í ágúst hópur bestur
við hitta vildum grannana í vestur.
Svifum yfir sæ og jökultinda
sáum líka niðr´á græna rinda.
loftfákurinn létta vængi þandi
lentum síðan beint á Grænalandi.
Í rútuna við æddum eins og óðir
öll við vildum kanna leyndar slóðir,
í bátinn niður bröltum við án nauða
og brunuðum út fjörð hans Eiríks rauða.
Öslar bátur inn um ís og klaka
öðru hvoru stangast hann við jaka,
ævintýrasigling allt var þetta
er við förum milli Grænlandskletta.
Allir voru enn í besta standi
er í húmi bar okkur að landi
byggðin öll sem álfaborg má kalla
upp um bratta hlíð og klettastalla
Þarna áttum þíðan næturblund
það var gott að hvíla sig um stund.
Vakna svo þá vantar okkur sól
víst var þokan grá við norðurpól
um morguninn á markað fórum á
þar matur var og ýmislegt að fá.
Svo könnuðum við kirkjur nokkrar þá
þó klerka enga væri þar að sjá.
Til Hvalseyjar svo lá nú okkar leið
og léttilega bátur fjörðinn skreið.
Svo létti til, og þokan fléttist frá
það fallegt var sem auga okkar sá
á land við gengum gömlum rústum hjá
Þó geymi sagan ýmsu að segja frá.
En enginn veit hver hlóð hér þennan stein
og hvert hann fór, það geymir þögnin ein.
Um kvöldið gengum við á gleðifund
er Grænlendingar skemmt okkur um stund
og sungu dreymin sönglögin svo fín
og sýndu okkur þjóðarklæðin sín.
Enn var morgun og við út á sæ
áðum svo í vinalegum bæ
nú var okkur brautin góð og breið
til baka fórum aftur sömu leið.
Fjórða daginn strax í morgunmund
mögnuð ferðin var þá yfir sund
hraðbáturinn þeyttist eins og ör
ógleymanleg var sú skemmtiför.
Í Brattahlíð er við um græna grund
gengum til og frá um nokkra stund.
Sögukona sagði okkur frá
svo var þarna margt að heyra og sjá.
Við þjóðhildi er litla kirkjan kennd
sem kannski gefur staðnum sína vend,
í gamla bæinn gengum við svo inn
þar gaf að líta falleg hreindýrs skinn
Um Eirík rauða svo er sagan sögð
sem sjálfsagt mætti kalla hvílubrögð
er Þjóðhildi var heitt í húminu
hún henti karli fram úr rúminu.
Nú er komin góður endir á
ævintýri þessu að segja frá
þökkum fyrir, þessi ferð var góð
þökk sé þeim sem fyrir henni stóð.
Svo síðast höldum við af Grænlandsgrund
við glöddumst saman ofurlitla stund
Er fórum heim og flugvélin var sest
þá fundum við á Íslandi er best
23. ágúst 2007
Sólveig Sigurðardóttir, Þingskálum.

Ferðasaga Þórunnar
Dagur 1: Flogið frá Reykjavíkurflugvelli og lent á Grænlandi Narssarssuaqflugvelli um miðjan dag haldið þá beint til skips og siglt út Eiríksfjörð til Quqortoq (Julianachab-3500 íbúar), komið þangað seint um kvöld því báturinn sem við vorum á gekk mjög hægt og tafði það því mjög ferðina, og fengum við aðeins samlokur þegar við komum í hús.

Dagur 2: Morgunverður síðan gengið um Quqortoq skoðaðar kirkjur, markaðir og fl. Um kl: 13:00 var haldið aftur til sjós siglt inn Einarsfjörð til Hvalseyrarkirkju sem er ein best varðveitta miðaldakirkja á norðurslóðum. Þar er farið á land og dvalið dágóða stund. Síðan farið til baka til Quqortoq snæddur þar kvöldverður á ágætum veitingastað skammt frá hótelinu sem íslensk kona rekur þar voru ýmsar uppákomur söngur sagður fróðleikur um Grænlenska búninginn og fl.
Dagur 3: Morgunverður síðan aftur til sjós og siglt til bæjarins Narssaq (2500 íbúar), yst í Eiríksfirði þar var stansað nokkurn tíma og skoðuðum við m.a. skinnaverksmiðju mjög flotta. Þaðan siglt síðan til Narssarsuaqflugvallar (um 200 íbúar) farið þar í öku- og könnunarferð um svæðið en það er um margt fróðlegt hvað varðar nátturu og sögu. Gist var á hóteli staðarins og snæddur kvöldverður, en það er hlaðboð sem ævinlega er mjög glæsilegt.
Dagur4; Morgunverður síðan aftur til sjós og nú siglt yfir Eiríksfjörð (20 mín. Sigling) til Brattahlíðar (Qassiarssuq), 50 íbúar.) sem er miðpunktur hinnar fornu , norrænu byggðar. Skoðaðar mannvistarleifar rústir af bæ Eiríks rauða og endurreist Þjóðhildarkirkja og farið yfir sögur staðarins, þar var snæddur hádegisverður á stað sem íslensk kona rekur og mun hún taka sérstaklega vel á móti hópnum. Síðan var gengið um staðinn og skoðaðir margir fallegir staðir. Siglt síðan aftur til Narssarsuaqflugvallar, ekið út á flugvöll til brottfarar til Reykjavíkur kl: 14:45.
Leiðsögumaður í ferðinni var Emil Guðmundsson, og fóru 22 félagar úr Félagi eldri borgara í Rangárvallasýslu.
Þórunn Ragnarsdóttir