Svo bar við á vordögum að FEBRANG fékk fyrirspurn frá Félagi eldri borgara á Djúpavogi um það hvort við gætum tekið á móti þeim og veitt þeim leiðsögn um sýsluna.
Fyrirspurnin tekin fyrir og samþykkt einróma. Lögðumst við þegar í skipulagningu ferðarinnar og fundum nokkra vel til fallna leiðsögumenn.
Þann 19.júní rann upp fyrri dagur heimsóknarinnar og þá tók sér far Þorsteinn Markússon austur fyrir sýslumörkin. Fann hann ferðalangana þar á sandinum, tók sér sæti í bifreið þeirra og leiddi þá styrkri hendi inn í okkar fögru sýslu.
Leiðin lá að Skógum þar sem safnið var skoðað og hópurinn snæddi þar súpu með góðri lyst.
Síðan var ekið að Þorvaldseyri þar sem Ólafur Eggertsson fræddi hópinn m.a. um kornrækt og repjurækt. Einnig um sambýlið við okkar stundum óblíðu náttúru, svo sem eldgos.
Eftir þetta leiddi Þorsteinn hópinn niður í Landeyjahöfn og síðan í Bót í Landeyjum þar sem Ásdís Ólafsdóttir bauð upp á kaffi og pönnukökur.
Þá gerðist Þorsteinn all kristinn og fór með hópinn í kirkjuna á Krossi.
Þar tók á móti okkur meðhjálparinn Sigurður Sveinbjörnsson og fræddi hópinn um kirkjuna og sögu hennar.
Þaðan lá leiðin yfir hina nýju brú yfir í Odda. Þar leiddi Þorsteinn hluta hópsins upp á Gammabrekku.
Að þessu loknu fór hópurinn í náttstað á Hótel Hvolsvelli.

Að morgni 20. júní ók hópurinn vestur að Ægissíðu og hvarf þar niður í hella undir stórfróðlegri leiðsögn Álfrúnar Perlu Baldursdóttur.
Er hópurinn kom úr iðrum jarðar var stefnan tekin niður í Þykkvabæ og við leiðsögn tók Sigrún Ólafsdóttir. Gerður var stuttur stans við Djúpós og sagði Sigrún frá því þrekvirki sem þar var unnið.
Þaðan lá leiðin í Hábæjarkirkju í Þykkvabæ þar sem Sigrún fræddi hópinn um sögu kirkjunnar.
Síðan fór hópurinn í Hlöðueldhúsið í Oddsparti þar sem húsráðandi Hrönn Vilhelmsdóttir tók á móti þeim og sagði frá starfseminni.
Þarna snæddi hópurinn ljúffenga súpu og heimabakað brauð.
Þá sýndi Hrönn hópnum kryddræktun í gömlum bragga og einnig handverk.
Þaðan var ekið vestur í Háfshverfi og til baka gegnum Þykkvabæ þetta fornfræga sveitaþorp.
Nú tók við leiðsögn Þórunn Ragnarsdóttir og ekið með hópinn vestur að Rauðalæk þar sem hún rakti sögu staðarins. Þá leiddi Þórunn hópinn upp að Laugalandi, að Gunnarsholti og að lokum var komið við á Keldum.
Þaðan var ekið á Hvolsvöll og hringnum lokað.
Um kvöldið snæddu leiðsögumenn og formaður FEBRANG kvöldmáltíð með gestunum sem þökkuðu góðar móttökur og færðu FEBRANG gjafir.
Stjórn FEBRANG vill þakka öllum þeim sem tóku á móti gestunum á leið sinni um héraðið. Einnig leiðsögumönnunum okkar. Allt þetta varð til þess að gera heimsóknina bæði fróðlega og skemmtilega.
Svavar Hauksson tók saman með dyggri aðstoð leiðsögumannanna.