Gæti ég fengið að gista í nótt og góðgerðir að auki?

Ræða heiðursgests flutt að Heimalandi 19. feb. 2011 á þorrablóti. Eftir Þorstein Ó. Markússon frá Borgareyrum.

Hjónin í Eystra-Fíflholti, Þóra Gissurardóttir og Þorsteinn Ó. Markússon.

Þegar ég man fyrst eftir mér út á Hólmabæjum velti ég fyrir mér hvers vegna ég tilheyrði Eyjafjöllunum frekar en Landeyjunum,  nálægðin við Landeyjarnar var miklu meiri og straumurinn af Landeyjaköllunum á verkstæðið til pabba var miklu meiri en undan fjöllunum.

En þangað komu 1000 manns á ári,  ekki eingöngu á söðlaverkstæðið heldur líka í klippingu, sprautur eða tanntöku til að spara ferð til læknisins að Stórólfshvoli. Ég mótaði mér fljótt skoðanir um Landeyinga.

Þeir komu oft margir saman, voru stundum með pela með sér, sögðu sögur og tóku stundum lagið inn á verkstæði, þeim lá ekki mikið á en gátu stundum tekið til hendinni úti á túni með okkur krökkunum  meðan pabbi gerði við reiðtygin þeirra.

Mér fannst alltaf eins og það mætti líkja þeim við sauðnautahjörð sem hnappar sig saman þegar hættu ber að höndum og þörf  er á samstöðu, milli þess sem þeir slettu úr klaufunum þegar svo bar undir.

En hvernig voru þá sveitungar mínir? Það var nú ekki gott að segja, þeir komu ekki oft, það var helst Högni í Miðdal með aktygin sín fyrir sláttinn. En svo kom að því að ég gat farið að mynda mér skoðun á sveitungum mínum þegar fulltrúar þeirra fluttu á næsta bæ.

Það voru nefnilega Bændur í þess orðs fyllstu merkingu sem ekkert voru að sluxa á bæjum og þaðan af síður á kvennafari. Húsbóndinn sagði pabba að hann færi aldrei svo að heiman að hann tæki ekki kýrverð með sér í „all fall” eins og hann komst að orði. Ég man að honum fannst ekki mikið til um túnstærðina heima. „Sei, sei þau eru ekki stór túnin hjá þér Markús ég gæti hreinlega pissað út yfir þetta“ sagði hann, pabba varð svarafátt,  hann hefði getað svarað fyrir sig eins og músin forðum daga sem varð á vegi ljónsins en ljónið spurði hana af hverju  hún væri svona lítil og væskilsleg af hverju ert þú ekki stór og myndarleg eins og ég  en þá sagði músin það er af því ég er búin að vera veik svo lengi.

Þeir girtu buxurnar ofaní sokkana og gengu um á gúmmítúttum þeir undu löngum stundum við gegningar og þegar einhver bóheminn úr Landeyjununum spurði þá hvers vegna þeir væru svona lengi við gegningar spurðu þeir á móti, hvað ættum við annað að gera?

Ég reyndi með misjöfnum árangri að læra af þeim búskap til dæmis kenndu þeir mér að halda belju. Eitt sinn vorum við bræðurnir sendir með kú til nauts til þeirra og eftir að tarfurinn hafði athafnað sig og við ætluðum að tölta heim á leið þá kom það ekki til greina, kusa yrði að gista um nóttina til að allt færi nú ekki til spillis, þetta var nýtt fyrir okkur bræður landeyingar annaðhvort stungu hnífsoddi í hrygginn á kusu eða einfaldlega bitu í hann ef þeir voru hníflausir eins og Gvendur á Búlandi en þetta var svona undir fjöllunum.

Ég held að kenningin mín um sauðnautin passi sæmilega við landeyinga en ég er í svolitlum vandræðum með að skilgreina Eyfellinga, ég hef hugsað um hvort nota mætti einskonar Darwins kenningu um úrval náttúrunnar en ég held að það standist ekki því eins og við vitum er fjallarokið aðaleinkenni fjallanna og samkvæmt því ættu allir að vera eins og Merkurkallarnir Úlfar, Ásgeir og Kiddi Mikk. og jafnvel nýi bóndinn hann Eyvindur frændi minn þetta eru allt riðvaxnir tappar sem myndu standast fjallarokið vel en þá eru þeir bara í skjóli við fjöllin en ekki í aðal rokinu sunnanundir og vöxtur þeirra gæti meira að segja reynst stórhættulegur ef þeir til dæmis dyttu í einhverri brekkunni og yltu oní einhverja sprænuna og yrðu sér að voða.

Samkvæmt sömu formúlu hefði ég átt að vera hávaxinn og myndarlegur eins og hann Baldur á Fitamýri búandi í staðvindunum úti á Hólmabæjum en því er ekki að heilsa ég er eins og þið sjáið sami tappinn og Merkurkallarnir og áður en skipt var um hné í mér var ég svo hjólbeinóttur að hægt hefði verið að ríða fylfullri meri í gegnum klofið á mér og ég þess vegna þolað ennþá meira vindálag.

Ég held að betra væri að nota sömu aðferðina við að skilgreina Eyfellinga og blindu mennirnir notuðu þegar þeir voru að skoða fílinn. Sá sem þreifaði á rananum var ekki sammála þeim sem þreifaði á fætinum um útlit fílsins og um þetta rifust þeir.

Borgareyrar, Vestur-Eyjafjöllum.

Það má hugsa sér að ein löppin á fílnum sé á Merkurbæjunum ein úta mýrum ein í Skálakróknum og ein útí Holtshverfi,  raninn er svo að dingla úti á Hólmabæjum oft í lausu lofti í einhverum vandræðaskap þó allt tilheyri þetta sömu skepnu er það þó sitt með hvoru móti. En það sér maður ekki fyrr en maður er orðinn nógu státinn til að klifra á bak skepnunni og sjá í kringum sig.

Eins og þið vitið blasa Eyjafjöllin við utan af Hólmabæjum og eru hvergi fallegri annars staðar frá, fossarnir sjást falla, jökullinn er passlega hár,  fótsporin eftir skessuna í heiðinni og skessan sjálf steingerð við Múlann.

Svo voru það ljósið í Hamragörðum þar var rafstöð og þar logaði alltaf ljós og það var eina ljósið sem sást þegar ég var krakki því hvergi var annars staðar rafmagn í sjónmáli, það varð víst að loga til að jafna spennuna eða eitthvað svoleiðis, þessar vatnsaflsstöðvar  voru víst vangæfar að halda jafnri spennu og eina sögu heyrði ég af svona spennuvandamáli í heimarafstöð hjá Halfdáni og Siggu á Seljalandi en það var nú löngu seinna, en þau voru að horfa á sjónvarpið en bjuggu við það vandamál að frystikistan truflaði sendinguna. Ólafur Ragnar forseti var að halda ræðu þegar kistan byrjaði að trufla, Ólafur var ekki í uppáhaldi hjá Hálfdáni frekar en mér, en sem hann byrjar ræðuna fer kistan  að trufla, Sigga kallaði í Hálfdán, kistan kistan, -kistann sjálf svaraði þá Hálfdán.

En hvað var á bak við fjallið? Það langaði mig að vita þegar ég var krakki en ég held að það hafi ekki verið fyrr en ég fór í skólann að ég varð fyrir miklum vonbrigðum að sjá að það var bara ekki neitt.

Já skólinn! Ég byrjaði að hristast í trukk með Berg Sæm. austur í skóla og það tók óratíma. Kennararnir voru Sigurður Guðmundsson og Sigmundur á Skála það voru nú fínir kallar. Sigmundur var slíkur öðlingur að engu lagi var líkt, hann tók í vörina og einhverju sinni er hann var að segja skólabróður mínum til í reikningi og hallaði sér yfir hann að honum þótti kallinn andrammur. Um þetta funduðum við krakkarnir og komumst loks að þeirri niðurstöðu að þetta væri ekki rétt, það væri ekki vond lykt út úr honum Sigmundi og við það sat. Einu sinni man ég eftir að fyki í Sigmund og ég skammaðist mín svo mikið að ég man þetta enn í dag. Þannig var þegar Brynleifur Tóbíasson dó, en hann var stórtemplar í stúkunni og Sigmundur stjórnaði stúkunni Fjallarós í skólanum. Jarðarförinni var útvarpað eins og tíðkaðist í þá daga Sigmund langaði að hlusta á hana og bauð okkur krökkunum frí ef við vildum hlusta með honum. Við vorum auðvitað til í það og svo var farið upp á loft til Bergþóru og jarðarförin hófst. Ekki leið á löngu að við fórum að ókyrrast og fórum að pískra um að fara út í fótbolta.

 Brúarstrákarnir Jenni og Dofri held ég að hafi átt uppástunguna. Þeir voru búnir að læra að  óþægðast við vegavinnukallana en það kunnum við ekki út á Hólmabæjum, nema ég man að ég var sá síðasti sem slapp út við litla hrifningu Sigmundar sem skellti hurðinni á eftir mér, en skömmustan yfir því að hafa óþægðast við Sigmund skemmdi ánæjuna af boltasparkinu.  

Skólinn skiptist milli sóknanna Ásólfsskála og Dalssóknar annan hvern dag svo við hittumst ekki nema á prófum sirka tvisvar á vetri og þá var slegist og lítil kynni fannst mér myndast milli okkar krakkanna vegna þessarar skiptingar.

Tengsl mín við sveitungana slitnuðu svo mikið eftir barnaskólann og byrjuðu ekki aftur fyrr en mín börn fóru að ganga í skólann en þá fór ég að keyra skólabílinn sem ég gerði í 12 vetur.

Þá fór ég að kynnast sveitungunum á nýjan hátt. Ég kynntist Óla Sveins. í Mörk því að ég keypti bensín hjá honum og hitti hann þess vegna oft. Það var gaman að spjalla við hann en það gat kostað mig að vera langt frammá kvöld í gegningunum þegar ég kom heim því Óli hafði um margt að spjalla en það var þess virði. Hjá Óla fékk ég held ég það besta kompliment sem ég hef fengið um dagana þegar hann sagði við mig að hann hefði nú ekki spáð vel fyrir mér þegar ég byrjaði skólaaksturinn  verandi frá Borgareyrum „en það get ég sagt þér að nú  stilli klukkuna  eftir þér“.

Ég hafði kynnst Svenna bróður hans en hann kom stundum heim og þá kannski aðeins við skál, hann spjallaði inni á verkstæði og þeir kváðust á pabbi og hann, einu sinni kom hann og kastaði fram þessari vísu á tröppunum:

Ég hef sunnan vegi sótt
Og sjálfsagt lent í brauki
Gæti ég fengið að gista í nótt
Og góðgerðir að auki?

Einu sinni fór hann með vísu sem pabba þótti svo góð að hann vildi skrifa hana niður. Það harðbannaði Svenni ég var að sniglast í kring og lærði vísuna en hún er svona:

Vini brestur veikist lið
Verður flest að ergi
Þegar mest ég þurfti við
Þá eru bestir hvergi. 

Sumir halda að vísan sé ekki eftir Svenna og þess vegna hafi ekki mátt skrifa hana niður en á því hef ég aldrei fengið sönnur.

Og úr því að ég er búin að minnast á bræðurna Ólaf og Svenna ætla ég að láta flakka eina vísu um pabba þeirra Svein í Koti. Ég held að hún sé eftir Manga Knút í Seli en Sveinn var í kjörstjórn og mátti þess vegna aðstoða fólk í kjörklefanum. Nú þurfti Gudda Þoddleifs. systir Kristófers í Dal aðstoð og kom það í hlut Sveins  að hjálpa henni en ekki tókst betur til en svo að hann skemmdi seðilinn og brenndi hann svo. Gudda var náttúrulega ekki ánægð en vísan er svona: 

Sveinn í Koti sá andskoti
Seðil skemmdi því er ver
Síðan brenndi með sinni hendi
Svoddan Gudda Þoddleifs. tér.

Ég kynntist svo sveitungunum enn betur gegnum kirkjukórinn, en ég hafði aldrei nennt í hann áður þó Guðbjörg í Dal hefði sent mér boð með Högna að ég ætti að koma í kórinn og grafa ekki svona pund mitt í jörðu. En það var hún Jóna á Ásólfsskála sem mátaði mig og það atvikaðist þannig að ég fékk þau hjón Jónu og Viðar til að hjálpa til við söng á þorrablóti  í Gunnarshólma. Jóna vildi ekkert taka fyrir en sagði að fyrst hún væri búin að hjálpa mér gæti ég eins hjálpað henni  og komið í kirkjukórinn. Þetta voru skotheld rök og ég byrjaði í kórnum. Takk fyrir það Jóna. Þá fór ég að sækja kirkju en það hafði ekki  verið sterkur þáttur í mínu fari áður en hefur verið ómissandi síðan.

Margra félaga er að mynnast úr kórastarfinu en ég ætla að láta nægja að minnast á hann afa í Holti þann sómakall. Það bókstaflega birti í kringum hann þegar hann brosti með öllu andlitinu, honum tókst næstum að kenna mér að taka í nefið en ég slapp fyrir horn með það.

Stundum kom það fyrir á æfingum að það var smá stjarna í kallinum hann sat þá gjarnan svolítið afsíðis hlustaði og yppti öxlum. Þá kallaði Jóna gjarnan, ætlarðu ekki að syngja með okkur afi? Og afi svaraði:

 „Ég held ég hafi gleymt gleraugunum heima“, svo hélt hann áfram að dreifa sólskini með brosinu sínu.

Ég held að ég fari nú að stytta mál mitt svo þið þurfið ekki að bíða mikið lengur eftir alvöru skemmtiatriðum sem koma á eftir.

Eystra-Fíflholt.

En eins og þið mörg vitið var það ekki af fúsum vilja að ég flutti úr sveitinni fyrir 11 árum heldur tapaði ég í áratuga baráttu fyrir tilveru minni undir Fjöllunum og þótti   stundum á skorta stuðning sveitunganna og hef jafnvel verið að bíða eftir þó ekki væri nema að heyra sorry,  frá sumum þeirra. Í dag skiptir það mig ekki lengur máli þar er það tíminn sem vinnur sína vinnu ég er líka svo hamingjusamur að hafa tapað þessari baráttu í vissu þess að ég var beittur rangindum og fyrir það hef ég reynt að þakka þeim sem öllu ræður, bæði í traktornum úti á túni og í kirkjunni hjá honum  Halldóri því að ég er viss um að hann hefur stjórnað þessu öllu,  sem sagt sá sem öllu ræður, ekki hann Halldór þó hann blessunarlega ráði miklu.

Hugsið ykkur ef ég hefði unnið þetta mál og væri núna úti á Hólmabæjum að hringa mig eins og ormur á gulli sem ég hefði fengið með vafasömum hætti af samfélaginu eins og raunin er nú með þá sem þiggja núna greiðslur fyrir aðstöðuna í Landeyjahöfn, nei þá er nú betra að vera í Fíflholti og horfa yfir af hæsta punkti Landeyja,  hafandi sömu fjöllin og áður, sömu fossana og skessusporin fyrir augunum.

Frá Borgareyrum settist sólin stysta dag ársins í Eiðið í Vestmannaeyjum, frá Fíflholti sest hún í Þrídranga  og það munar ekki miklu og þá er ekki slæmt að geta leyst lífsgátuna í morgunkaffinu með nágrönnunum sem aldrei láta sig vanta marga daga í einu og að hafa nóg að bíta og brenna og vera nokkurn veginn viss um að hafa unnið fyrir því með eigin höndum og auðvitað með hjálp hennar Þóru því ekkert gæti ég án hennar.

Ég vil svo að lokum þakka fyrir hönd okkar Þóru þetta ágæta boð ykkar  og veit að í kvöld munum við eta, drekka og vera glöð.

Kærar þakkir.

Scroll to Top