Fsk. 1. Skýrsla stjórnar til aðalfundar FEBRANG 20.5.2021

Félagsstarfið

Félagsmenn nú eru 276. Nýir félagar 38 en 22 eru látnir eða burtfluttir.

Nýkjörin stjórn skipti með sér verkum. Formaður Jón Ragnar Björnsson, varaformaður Sigrún Ólafsdóttir, gjaldkeri Þórunn Ragnarsdóttir, ritari Svavar Hauksson og meðstjórnandi Þorsteinn Markússon. Varamenn Vilborg Gísladóttir og Ásdís Ólafsdóttir. 

Því miður hefur starfsemi félagsins liðið mikið fyrir Corona faraldurinn. Þó tókst að starfrækja púttið. Síðasta haust hófst starfsemin aftur með handverki, boccia og leiklist, en lagðist fljótlega af vegna pestarinnar. Við vonuðumst til að geta sett starfið af stað eftir áramótin, en það gekk ekki eftir.

Þrátt fyrir þetta hélt stjórnin alls 24 stjórnarfundi. Ákveðið var að rita fundargerðir á tölvutæku formi og birta á vefsíðu félagsins febrang.net. 

Full bjartsýni skipulögðum við fræðslufund sem halda átti s.l. haust. Sömuleiðis var ákveðið að stjórnin væri með viðtalstíma fyrir stjórnarfundi. 

Stjórnin ætlaði að heimsækja önnur félög á Suðurlandi til að kynnast starfsemi þeirra. 

Áformað var að halda fundi með stjórnendum grunnskólanna á svæðinu til að ræða samstarf eldri borgara og starfsmanna og nemenda, m.a. að kanna möguleika á að kennarar og nemendur leiðbeini eldri borgurum notkun á tölvum, spjaldtölvum, snjallsímum og öðrum margmiðlunartækjum. 

Rætt var um möguleikana á félagssnæðingi, en þar hittist fólk, borðar saman og spjallar. Öllum þessum áformum hefur verið slegið á frest þar til eftir að tekist hefur að ná tökum farsóttinni.

Stjórnin telur mikilvægt að félagsmenn séu sem best upplýstir um starfsemi félagsins. Við erum í sjálfboðavinnu fyrir ykkur og við berum ábyrgð á rekstri félagsins milli aðalfunda. Þess vegna var ráðist í það að búa til vefsíðuna febrang.net. Þar er reynt að birta sem mest efni sem við kemur okkur eldra fólki. M.a. eru fundargerðir birtar á vefsíðunni og reynt að hraða birtigu þeirra eins og kostur er, enda eru þær lang mest lesna efni vefsíðunnar. Mikil vinna er að halda úti lifandi vefsíðu og skipaði stjórnin Vefsíðunefnd sem hjálpast að með öflun efnis og matreiðslu þess. Auk vefsíðunnar erum við á Facebook.

Ekki hafa allir félagsmenn aðgang að tölvum. Við brugðum því á það ráð að birta vikulega í Búkollu í nóvember og fram í desember ýmsar upplýsingar til félagsmanna. Þar voru fréttir um nýju vefsíðuna, hvatning um að hreyfa sig, hafa samband við annað fólk o.fl. 

Stjórnin vann rekstraráætlun fyrir s.l. ár. Rekstraráætlun fyrir árið 2022 verður kynnt síðar á þessum fundi.

Ákveðið var að reyna að bjóða upp á þrjár ferðir í sumar, dagsferð í júní og ágúst og þriggja daga ferð í júlí. Óskað var tilboða hjá fimm rútufyrirtækjum í allar þrjár ferðir sumarsins í von um að fá sem hagstæðust kjör. Ferðanefnd annaðist skipulag ferðanna.

Stjórninni finnst full ástæða til að félagsmenn komi saman og fagni eftir erfitt ár í einsemd og einangrun. Því var samþykkt að stefna að Upprisuhátíð/Vorhátíð fimmtudaginn 24.6.2021 kl.17 í félagsheimilinu Goðalandi.

Sótt var um framlag til Héraðsnefndar að upphæð kr. 5.590.000 fyrir árið 2021. Héraðsnefnd veitti hins vegar 4 millj. kr. framlag, tæplega 1,6 milljón kr. minna en sótt var um. Sú staðreynd varð m.a. til þess að ákveðið var að gera ítarlega úttekt á rekstrinum til að skoða hvar unnt væri að hagræða. -Velta við öllum steinum nema Steina Markússyni!


Formannaskipti urðu í Öldungaráði Rangárvallasýslu. Fanney Björg Karlsdóttir tók við formennsku. Hún mætti á tvo stjórnarfundi. 

Breytt rekstrarfyrirkomulag

Ákveðið var að hagræða í handverki, en mikil vinna hefur verið við að halda utan um lánsviðskipti. Notkun “Posa” gæti einfaldað enn frekar utanumhald, en hann er ekki ókeypis. Staðgreiðsluviðskipti verða tekin upp í handverki.

Framkvæmdastjóri hefur frá stofnun félagsins verið starfsmaður Héraðsnefndar. Héraðsnefnd greiddi svo framkvæmdastjóra af framlagi félagsins.

Gengið var frá því við Héraðsnefnd og Þórunni Ragnarsdóttur að hún yrði starfsmaður félagsins frá síðustu áramótum á óbreyttum launakjörum. Héraðsnefnd/KPMG annast greiðslur til framkvæmdastjóra svo og greiðslur til verktaka á vegum félagsins eins og verið hefur. 

Nefndir
Nefndir eru skipaðar eða kjörnar og þeim er ætlað að vinna að ákveðnum afmörkuðum verkefnum. Þannig eru fleiri virkjaðir til starfa fyrir félagið.

Nokkrar nefndir hafa verið kosnar á aðalfundum félagsins. Það eru einkum Ferðanefnd, Skemmtinefnd, Spilanefndir og Kjararáð. Stjórnin ritaði formönnum nefndanna bréf og óskaði eftir að þeir könnuðu áhuga nefndarmanna á áframhaldandi nefndasetu. Allir nefndarmenn gefa áfram kost á setu nema Kjararáð, en allir ætla að hætta í því. Við þökkum Kjararáðsmönnum fyrir þeirra framlag til félagsins.

Stjórnin telur eðlilegt að aðalfundur kjósi kjörnefnd, en hún gerir tillögur til aðalfundar um stjórn og aðra starfsmenn félagsins. Aðalfundur kjósi einnig laganefnd þegar þörf er talin á. Aðrar nefndir svo sem þær sem getið er um að framan leggur stjórnin til að skipaðar verði af stjórninni. Stjórnin efur skipað í Vefsíðunefnd og Bókaklúbbsnefnd.

Húsaleigumál
Tvennt varð til þess að húsaleigumál félagsins komust á dagskrá. Annars vegar tilboð Rangárþings eystra um ókeypis aðstöðu fyrir handverkið og hins vegar veruleg lækkun á framlagi Héraðsnefndar.

Handverkið nýtir um ⅔ þess tíma sem félagið notar í Menningarsalnum. Með því að flytja það í ágætis aðstöðu í gamla matsal Kirkjuhvols sá stjórnin fyrir sér að geta sparað allt að 400 þús. kr. af 600 þús. kr. „húsaleigu“.

Þegar málið var rætt við fulltrúa Oddasóknar var upplýst að Rangárþing ytra og Ásahreppur greiddu húsaleigu fyrir alla félagsstarfsemi í sveitarfélögunum og 600 þús. kr. greiðslan sem FEBRANG sótti árlega um til Héraðsnefndar væri ekki húsaleiga vegna FEBRANG. Við þessi tíðindi hætti stjórnin snarlega við að flytja handverkið. Hún óskaði jafnframt eftir því að Oddasókn endurgreiddi félaginu framlagið vegna ársins 2020. Þeirri beiðni var hafnað.

Kjaramál
Stjórn LEB óskaði eftir því að formaður FEBRANG tæki sæti í Kjaranefnd LEB. Hann tók því boði eftir að stjórn félagsins hafði heitið honum stuðningi sínum og aðstoð.

Þeir eldri borgarar sem verst standa lifa undir fátækramörkum. Stjórnvöld gera lítið til að bæta úr því, þrátt fyrir áköll margra sem láta sig málið varða.

Stjórnin sendi öllum þingmönnum kjördæmisins bréf vegna fjárlagafrumvarps ríkisstjórnarinnar. Aðeins fjórir af tíu sáu ástæðu til að svara bréfinu.

Við teljum þörf á breyttum baráttuaðferðum. Því var það að stjórnin skrifaði greinina „Virkjum grasrótina“ með hugmyndum sínum um breyttar vinnuaðferðir í kjarabaráttunni og öðrum hagsmunamálum eldri borgara. Greinin var send öllum aðildarfélögum LEB, stjórn LEB og birt í Bændablaðinu og Kjarnanum.

Stjórn FEBRANG sat fjarfund LEB og formanna aðildarfélaga sinna 13.3.2021. Fundurinn samþykkti einróma tillögu í fimm liðum um baráttumál eldri borgara, hún ber heitið „Eldra fólk vill hafa áhrif á eigið líf, eða Áhersluatriði eldra fólks í komandi Alþingiskosningum“.

Í framhaldi af því setti stjórnin saman plaggið „Miðlun „áhersluatriða“ í málefnum eldri borgara” en það eru tillögur um hvernig koma má samþykkt formannafundarins á framfæri í aðdraganda kosninga í haust.

Áform í bið
Stjórnin áformar að bókaklúbbur félagsins taki til starfa í haust og hefur skipað þriggja manna nefnd til að vinna að málinu. Enn fremur er verið að kanna möguleika og áhuga á dansi.

Kennsla í notkun margmiðlunartækja er ákaflega áríðandi. Sífellt meira af samskiptum við „kerfið“ fer í gegnum Internetið og okkur er nauðugur einn kostur að tileinka okkur tæknina. Félagið þarf að geta boðið félagsmönnum upp á aðstoð við að tileinka sér tæknina. Áform eru um að afla fjár til að geta boðið félagsmönnum kennslu á tækin sín -heima hjá sér.

Við þökkum það traust sem þið hafið sýnt okkur með því að treysta okkur fyrir rekstri félagsins. Allir í stjórninni gefa kost á áframhaldandi störfum fyrir félagið.

Scroll to Top