Það mun hafa verið fyrir fjórum árum að vori til að við hittumst fjögur, Erla Þorbergsdóttir, Elínborg Óskarsdóttir, Jón Ragnar Björnsson og ég, Vilborg Gísladóttir (íbúar í Bogatúni á Hellu) heima hjá Jóni Ragnari og fengum okkur smá hressingu.

Áður en þeim fundi lauk höfðum við ákveðið að stofna gönguhóp sem færi út að ganga alla daga vikunnar og lagt yrði af stað hálf ellefu á morgnana frá horninu á Bogatúni.
Ekki er að orðlengja það að morguninn eftir mættum við og gengum af stað. Síðan hefur þessi hópur stækkað að mun og erum við oft yfir 10 talsins og stundum fleiri. Það er engin skyldumæting, fólkið kemur þegar því hentar og allir hafa gagn og gaman af. Varla hefur liðið sá dagur að ekki hafi einhverjir mætt á staðinn og gengið, oftast upp með Ytri Rangá, en stundum höfum við farið annað. Nú síðast fórum við í Ásabrekkuskóg í frábæru veðri. Flest okkar eru búsett á Hellu, en nokkrir fleiri eru með í hópnum og allir velkomnir.
Besta hreyfingin sem við getum stundað er ganga og best að fara daglega. Þessar gönguferðir eru líka mannbætandi, gott að hitta annað fólk, anda að sér hreinu lofti og spjalla saman. Það er líka alltaf eitthvað nýtt í náttúrunni sem við sjáum og getum rætt og krufið til mergjar, blóm, trjágróður grös, fuglar og fiskar.
Á okkar gönguleið eru líka bekkir og borð þar sem hægt að setjast niður og hvíla sig. Eins er notalegt þegar við endum í kaffisopa hjá einhverjum í hópnum. Þessi hópur er afar samheldinn og skipaður skemmtilegu fólki. Við höfum haldið þorrablót og jólaboð svo eitthvað sé nefnt og er mæting alltaf mjög góð.
Ég mæli eindregið með því að fólk myndi svona gönguhópa sér til gamans og hressingar.
Það þarf ekki marga í byrjun, en sannið þið til, svona félagsskapur dregur til sín fólk smátt og smátt uns kominn er myndarlegur gönguhópur.