Haldinn var rafrænn fundur formanna félaga eldri borgara, stjórn LEB og kjaranefnd LEB s.l. laugardag. Af því tilefni hittumst við í stjórn FEBRANG og fylgdumst með fundinum sem við vörpuðum upp á tjald. Góður fundur að okkar mati og mikil samstaða og baráttuhugur.
Hér er fundargerðin frá fundinum svo og samþykkin sem gerð var. Samþykktin verður væntanlega prentuð og henni dreift til okkar sem eru í 55 félögum eldri borgara. Við getum svo notað plaggið þegar við hittum hæstvirta frambjóðendur fyrir kosningar.
Fundur formanna Landsambands eldri borgara og stjórnar LEB.
Laugardagurinn13. mars 2021.
Fundurinn var haldinn sem Zoom fjarfundur og var hann staðsettur í bækistöðvum FEB-R að Stangarhyl 4, þar sem stjórn og útsending fór fram. Á fundinn mættu milli 30 og 40 manns sem. Einnig voru í salnum í Stangarhyl nokkrir fundarmenn. Fulltrúar 31 félags mættu.
Dagskrá
1. Valgerður Sigurðardóttir, fundarstjóri setur fundinn.
2. Skoðanakönnun: Eiga eldri borgarar að bjóða fram?
Þóra Ásgeirsdóttir fulltrúi Maskínu sem gerði könnunina kynnir niðurstöðuna.
3. Formaður LEB, Þórunn Sveinbjörnsdóttir, flytur ávarp
– Landsfundur LEB 2021
– Staða mála í Starfshóp um lífskjör og aðbúnað aldraðra.
– Stærstu verkefni í vinnslu hjá LEB
4. Eldri borgarar og Alþingiskosningar
Fulltrúar Aðgerðarhóps kynnir tillögu að kröfum eldri borgara og hugsanlegar aðgerðir.
5. Umræður.
Liður 3.
Umræður urðu um ræðu Þórunnar, fólk lýsti yfir ánægju með gott starf sem unnið væri hjá Landsambandinu.
Umræður urðu talsverðar um fé sem ríkið veitir til sveitarfélaganna, en misjafnt er hvernig það hefur skilað sér og á hvaða hátt sveitarfélögin hafa nýtt sér það. Sum hafa ekki sótt um og er það afleitt. Voru formenn hvattir til að hafa samband við sín sveitarfélög og fylgjast með nýtingu fjárframlaganna.
Eins voru fundarmenn hvattir til að þrýsta á sín sveitarfélög að fara að lögum og gera öldungaráð virk á sínum heimaslóðum.
Liður 4.
Ingibjörg H. Sverrisdóttir (FEB-R) kynnti aðgerðarhópinn sem í voru aðilar frá félögum eldri borgara á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum, ásamt fulltrúa Gráa hersins og formanni LEB Þórunni Sveinbjörnsdóttur
Til máls tóku svo frá aðgerðarhópnum Þorbjörn Guðmundsson, Stefanía Magnúsdóttir og Helgi Pétursson sem skiptu með sér efni tillaganna, sem höfðu áður verið sendar formönnum allra aðildarfélaga LEB.
Liður 5.
Umræður urðu talsverðar, fólk lýsti ánægju sinni yfir störfum LEB og störfum aðgerðarhópsins. Einnig ánægju með fundinn og að vel hafi til tekist og vonandi yrðu oftar haldnir svona fundir. Einnig var rætt um að mikilsvert væri að unnið yrði þverpólitískt og að þessi ályktun yrði vel kynnt og notuð í grasrótarkynningu og í samræðum við flokkana. Var samstaða um að kalla flokkana til fundar þegar haustaði og setja þá þrótt í að kynna kröfur eldri borgara fyrir næstkomandi kosningar.
Tillagan var svo borin upp og samþykkt með smávægilegri breytingu.
Þórunn þakkaði svo fundarstjóra, Valgerði og fundarmönnum fundinn og sagði það ævintýri hversu vel hefði tekist til að halda fundinn og færði Viðari Eggertssyni, starfsmanni LEB þakkir fyrir vinnuna við fundinn.
Fleira gerðist ekki. Fundarstjóri þakkaði góðan fund og sleit fundi.
Fundargerð ritaði Dagbjört Höskuldsdóttir.
Eldra fólk vill hafa áhrif á eigið líf
Tillaga að áhersluatriðum eldra fólks í komandi Alþingiskosningum (Tillagan var samþykkt á Formannafundinum).
Bætt lífskjör eldra fólks
Frítekjumörk vegna lífeyris frá lífeyrisjóðum verði 100.000 kr. Eftirlaunafólk fái að vinna eins og því sýnist án skerðinga í almannatryggingakerfinu og njóti afrakurs vinnu sinnar eins og aðrir. Lágmarkslífeyrir verði aldrei lægri en umsamin lágmarkslaun á almennum vinnumarkaði. Ellilífeyrir og frítekjumörk hækki árlega samkvæmt launavísutölunni sem Hagstofa Íslands gefur út.
Burt með aldurstakmarkanir
Það er réttlætismál að eldra fólk fái að miða starfslok sín við áhuga, færni og getu en þurfi ekki að hætta virkri þáttöku í atvinnulífinu eingöngu vegna aldurs. Aldursmismunun er bönnuð samkvæmt stjórnarskrá. Skorað er á alþingismenn að fella úr allri lagasetningu ákvæði um aldurstengdar viðmiðanir, en leggja þess í stað áherslu á þekkingu, reynslu, hæfni og menntun fólks óháð aldri.
Að lifa heima með reisn
Til að efirlaunafólk geti lifað heima hjá sér með reisn, er lagt til að ríki og sveitarfélög stórauki samvinnu sína með það að markmiði að heilsugæslan verði vagga öldrunarþjónustunnar. Öll fjárframlög taki mið af þessu. Heilsugæslan nálgist eldra fólk fyrr á lífsleiðinni með samhæfðri teymisvinnu lækna, hjúkrunarfræðinga og félagsþjónustu sveitarfélaga og haldi því sambandi. Velferðartækni ætti að vera mikilvægur þáttur í öryggi í heimahúsum eldra fólks. Þáttur aðstandenda verði metinn með umönnunarálagi. Stofnun öldrunargeðdeildar er forgangsmál.
Fjölbreyttari búsetuúrræði
Ljóst er að búseta á eigin heimili hentar ekki öllum. Reynslan hefur sýnt að það vantar sárlega millistig milli búsetu á eigin heimili og hjúkrunarheimili. Búsetuúrræði þess fólks sem lendir þarna á milli eru alltof fábreytt. Efla þarf dvalarheimilisstigið á ný og sambýli eldra fólks.
Fjármunum Framkvæmdasjóðs aldraðra verði einungis varið til byggingar stofnana fyrir aldraða og til að mæta kostnaði við nauðsynlegar breytingar og endurbætur á húsnæði sem notað er til þjónustu við þá eins og kveðið er á um í lögum.
Endurskoðun laga
Um málefni sem varða eldra fólk sérstaklega gilda of margir og of sundirleitir lagabálkar, þar á meðal almannatryggingalögin. Einfalda þarf lagaumhverfið og gera það skilvirkara, meðal annars með því að skilja að lög um eldra fólk og öryrkja. Tryggja þarf aðkomu eldri borgara að þeirri endurskoðun.