Olgeir Engilbertsson í Nefsholti skrifar skemmtilegan pistil um svaðilför fjallmanna:

Árið 1979 var lagt af stað á fjall á Landmannaafrétt á föstudegi í 22. viku sumars eins og venjulega. Þetta var þriðja ferð mín á þeim bíl sem ég á ennþá Dodge weapon 1953 árgerð oftast nefndur Geimstöðin. Í bílnum var á þessum árum hefðbundin bensínvél 6 sílindra flatheddsvél og spil.
Um morguninn var afskaplega bjart og fallegt veður, en dró upp bakka í suðvestri þegar á daginn leið. Á þessum árum var farið með hestana alla leið í Landmannalaugar og einnig fóru ráðskonurnar með mér með allan matinn. Aðrir fjallmenn komu ekki inneftir fyrr en snemma á laugardagsmorgninum. Þegar við vöknuðum um morguninn var kominn þreyfandi bylur og töluverður snjór þannig að varla sá út úr augum. Horfði nú illa með að koma mannskapnum úr byggð. Á þessum tíma voru margir með CB talstöðvar í bílum sínum, en þeir sem við höfðum heyrt að ættu að keyra fjallmennina voru ekki með talstöðvar. Þrátt fyrir þetta og eins að sólblettatímabilið stóð sem hæst með sínum miklu lofttruflunum vorum við Jón Gestsson fyrrverandi vörður í Laugum og fleiri alltaf öðru hvoru að hlusta ef ske kynni að við heyrðum í einhverjum.
Á þessum árum var í Ferðafélagshúsinu svokölluð Gufunestalstöð. Gufunesradíó náði ekki sambandi inneftir því að í svona veðri var stundum svo mikil statik, það er truflanir og urg, að ekkert heyrðist. Fjarskipti á þeirri tíðni og reyndar fleirum kerfum voru yfirleitt erfið í Laugunum. Það var svo um 10 leytið að við heyrðum mjög dauft í Jóni í Saurbæ FR 2065. Hann hafði þá vegna veðursins verið fenginn til að fara með fjallmenn ásamt tveim Subaru bílum, frá Skarði og Lunansholti.
Voru þeir komnir austarlega í Dómadalshraun og var Landroverinn hjá Jóni bilaður. Þetta var L 45 Landrover dísil 1973 árgerð eign Páls Elíassonar í Saurbæ, föður hans. Hann þurfti að draga Subaruana meira og minna og að lokum brotnaði afturdrifið. Aldrei var hann þó alveg fastur. Þannig var komið þegar við náðum talstöðvarsambandi.
Það var strax ákveðið að freista þess að fara á móti Jóni og þeim félögum, þó að ekki væri í rauninni neitt ferðaveður. Ég fór í að setja keðjur á öll hjól á bílnum og galla mig upp. Ég man ekki nákvæmlega hvað margir fóru með mér, en minnir að við höfum verið 8. Ég var með 4 skóflur á þakinu og við fengum 4 í viðbót hjá ferðamönnum. Þó að væri bylur þá var frostlítið og snjórinn tróðst sæmilega og ekki var mjög kalt. Alltaf gengu menn á undan til að finna veginn og skiptust menn á um það. Áfram tosaðist og lítið þurfti að moka fyrr en á Frostastaðahálsi en þar vestaní var sneiðingurinn alveg fullur og voru allar skóflur virkjaðar. Reynt var að moka og troða láréttan flöt og mjaka bílnum niður en hægt gekk og ýmist vildi hallast upp að hlíðinni eða á hina hliðina. Einu sinni var stunguskóflu stungið niður og passaði að hún fór nákvæmlega á kaf.

Á meðan við vorum að mjakast áfram fóru Jón og félagar hans að taka afturdrifskaftið úr sambandi og gekk það hálfilla eins og veðrið var. Tómas Tómasson í Hamrahól var honum sérstaklega hjálplegur við það ásamt fleirum.Topplyklasettið fundu þeir svo ekki, en það hafði fennt í kaf. Þórður frá Þverlæk fann það svo vorið eftir og kallaði staðinn Lyklaskarð. Þetta er þrönga skarðið ofan við bratta brekku austast í Dómadalshrauninu og er nafnið ennþá notað af fjallmönnum. Eftir að hafa náð drifskaftinu undan tókst þeim félögum að komast niður brekkuna og upp undir beygju ofan við austustu brekkuna í hrauninu. Þar var stór skafl.
Þá að okkur. Við mjökuðumst áfram í rólegheitum enda gengið á undan bílnum í snjó og sandbyl. Ég komst langleiðina upp bröttu brekkuna þar sem Landroverinn var stopp fyrir ofan mikinn skafl og snéri skakkur við stefnunni. Ég átti rúmlega 60 metra langt tóg sem nú kom sér vel og náði milli bílanna. Af því að ég komst ekki nógu langt upp og beygja á veginum lenti tógið uppi á hraunkantinum og hjóst í sundur. Við bundum bara saman endana og þá hafðist að draga Landroverinn yfir.
Einhvernveginn komust Subaruarnir áfran í förin hans Jóns. Það voru ótrúlega seigir bílar þessir gömlu Subaruar. Mennirnir sem voru búnir að vera í þessu brasi litu út eins og maður gæti haldið að kolanámumenn væru, kolsvartir kringum augun og víðar. Þegar hér var komið sögu var veðrið heldur batnandi. Snérum við nú við og tók ég Landroverinn í tog þar sem hann hafði aðeins framdrifið. Gátu Subaruarnir oftast keyrt þegar komin voru góð för. Þannig gekk að vegamótunum við Tjörvafell, en þar var ákveðið að skilja eftir Landroverinn og annan Subaruinn. Hinn var hengdur aftaní Víboninn til að sem fæstir þyrftu að vera úti. Þarna var verulega mikill snjór en samt hélt bílstjórinn að hann gæti keyrt í förunum mínum.
Allt í einu heyrist smellur og þá hafði slitnað lófastórt stykki úr þar sem tógið var fest svo að eitthvað hefur aðeins þurft að toga í. Var nú Subarunum komið út fyrir veg og menn tróðust inn í bíl hjá mér. Vorum við þá orðin 20 í bílnum og nokkrir hundar. Að auki stóðu menn á hvoru gangbretti.
Sást nú orðið vel til og næstum komin rigning eða slydda. Snjórinn tróðst vel og ekki spólaði mikið með allt þetta hlass en rólega var farið. Eitthvað þurfti að moka áleiðis upp Frostastaðaháls en feginn varð ég þegar ég sá tveggja drifa rútu vera komna á móti upp á Háls. Tengdum við spilið á rútunni í minn bíl og sluppum við því við að moka síðasta og brattasta hluta Hálsins. Allir voru reyndar fegnir að fá heita rútuna til hjálpar og fékk mannskapurinn far með henni heim í Laugar. Ég var eiginlega hræddastur við að bensínvélin myndi hætta að ganga þegar svona veður er og allt blautt í vélarhúsinu en vélin sló ekki feilpúst. Gekk nú bara vel að komast í Laugarnar en ferðin tók 8 klukkutíma. Ekki eru nema um 8 km úr Laugunum og þangað sem bílarnir voru svo að ekki hefur meðalhraðinn verið mikill.
Það fór ekki framhjá mönnum niður í sveit að inn á Landmannaafrétti væri illviðri. Þórður Bjarnason oddviti í Meiri Tungu hafði miklar áhyggjur af fjallmönnum og fékk Vilhjálm Þórarinsson í Litlu Tungu til að fara inn á fjall með sig til að athuga hvernig mönnum reiddi af innfrá. Vilhjálmur átti ágætan Rússajeppa með blæjum á svokölluðum Lappadekkjum sem þótti nú toppurinn á þeim tíma, sama stærð og dekkin undir Weapon 900×16. Páll Elíasson í Saurbæ slóst í för með þeim og fóru þeir fyrst inn að Landmannahelli og fundu þar engan mann. Eitthvað fóru þeir áfram austur, en leist ekki á færðina svo að þeir snéru við og fóru til baka og inn í Sigöldu og þaðan austur Sigölduleiðina sem er oftast greiðfærari við þessar aðstæður.
Þeim mun hafa gengið furðu vel enda hefur bíllinn flotið betur í snjónum en hinir. Ekki náðu þeir í Laugarnar fyrr en allir voru komnir þangað og urðu mjög fegnir að allir voru heilir á húfi. Eftir að hafa fengið einhverja hressingu héldu Þórður og félagar heim á leið og bílstjórarnir með þeim út yfir Frostastaðaháls að bílunum. Landroverinn var hafður í bandi af stað eitthvað út fyrir Hnausapoll (Bláhyl) þangað til snjórinn fór að minnka, en Subaruarnir komust hjálparlaust í förin. Að Skarði náðu leiðangursmenn nálægt miðnætti og fengu velútilátinn kvöldmat. Heim komu þeir svo um tvöleytið um nóttina.
Þetta var síðasta haustið sem Þórður í Meiri Tungu fór inn á fjall því að hann lést í júní næsta vor nýlega 71 árs að aldri. Einhverjar tafir urðu á smölun og veghefill kom inneftir að opna veginn fyrir bæði okkur og ferðafólk sem var á svæðinu.
Um þessa helgi var Róska að taka upp atriði úr kvikmyndinni Sóley og átti von á manni með hesta úr Árnessýslu en það brenglaðist allt og hún fékk hesta hjá fjallmönnum.
Þetta er með því allra eftirminnilegasta sem ég hef lent í á mínum ferli í fjallferðum frá árinu 1964.
23. nóv. 2006 Olgeir Engilbertsson Nefsholti.