Endurminning Sigurgeirs Valmundssonar frá Galtarholti síðar bónda í Eystra-Fróðholti

Laugardagur 14. desember 1935. Ungmennafélagið Hekla á Rangárvöllum hafði auglýst skemmtun á Strönd, í hinu tveggja ára gamla skólahúsi, sem enn blasir við á hægri hönd þegar keyrt er vestur yfir Rangárvelli. Þetta er reisulegt hús á tveimur hæðum og kjallari undir hluta þess. Í því var heimavist fyrir börnin, kennaraíbúð, ráðskonuherbergi auk kennslustofu og matstofu, sem einnig nýttust sem samkomusalur og ballhús fyrir sveitina. Og þetta kvöld átti að vera ball á Strönd. Bjarni Björnsson leikari og eftirhermusöngvari ásamt harmonikkuleikara sem Steingrímur hét, úr Reykjavík, áttu að skemmta.
Það var mikill hugur í ungu fólki að koma á ballið, en það gat verið erfitt
á þessum árum, því ekki voru farartæki önnur en fæturnir og svo bátur ef
yfir vatnsföll þrufti að fara. Þá gátu veður oft verið erfið fyrir gangandi
fólk og því fengu Bakkbæingar að kynnast í þessari ballferð. Sá Bakkbæingur er þetta ritar hafði hálfan mánuð yfir sextán árin þennan dag og hafði ráðið sig til að vera gegningamaður hjá Haraldi Thorarensen bónda á Móeiðarhvoli þennan vetur ásamt Sigga, fimmtán ára strák frá Eyrarbakka sem
Sigurður hét Ólafsson. Fluttist hann síðar til Vestmannaeyja og var þar
lengi sjómaður og skipstjóri.
Við Siggi ætluðum á ballið um kvöldið, en ég átti sparifötin mín heima í
Galtarholti og þurfti að sækja þau. Fórum við strákarnir til þess eftir
hádegið og fengum lánaðan lítinn bát hjá Sigurði Guðmundssyni bónda í
Móeiðarhvolshjáleigu til að komast suður yfir Þverána. Höfðum við hraðan á
ferð okkar þegar yfir ána kom, sóttum fötin að Galtarholti og héldum síðan
að Fróðholtshjáleigu, þar sem við höfðum skilið bátinn eftir. Var nú farið
að hvessa á norðan og fór vindur ört vaxandi. Báturinn var lítill,
flatbotnaður og svo mjór að ekki gat nema einn róið honum. Ég settist undir
árar og reri yfir Þverána og náði landi á Oddhólsbökkum. Drógum við svo
bátinn yfir Tangahornið og dálítið upp með bakka Rangárinnar, þaðan sem
Siggi reri síðan austur yfir hana. Allt gekk þetta slysalaust, því þó við
værum ekki nema 15 og 16 ára vorum við vanir að róa, ég hér á Þveránni og
Siggi eins og aðrir strákar á Eyrarbakka á þessum árum.
Við kipptum nú bátnum á land og hvolfdum honum eins og venja var að gera að
notkun lokinni. Héldum við síðan sem leið lá heim að Móeiðarhvoli, fórum í
gegningarnar og að því búnu að búa okkur á ballið. Löbbuðum við Siggi síðan
sem leið lá frá Móeiðarhvoli upp að Djúpadal. Var nú komið mikið norðanrok
og allmikið frost. Djúpadalsfeðgar, þeir Sigursteinn og Alexander urðu svo
samferða okkur vestur yfir sandinn frá Djúpadal að Strönd. Á leiðinni
fengum við allhart veður og sandbyl. Þegar að Strönd kom var fátt fólk
komið, en fór nú að tínast að. Nokkuð dróst að Bakkbæingar kæmu en að lokum
komu þeir líka, 12 – 14 saman. Þeir voru nokkrum klukkutímum á eftir okkur
Sigga yfir ána, og hafði þá hvesst meira og ísskrið komið í ána. Sá er
fyrir hópnum fór var Páll Pálsson frá Bakkakoti, oftast kallaður
Stóri-Páll, heljarmenni að burðum. Hann kom fyrstur inn úr dyrunum, dreif
sig úr utanyfirjakkanum sem var allur eitt klakaklambur og hefði víst
staðið einn á gólfinu ef hann hefði sett hann niður. En jakkinn fór á
fatahengið og fór þar mikið fyrir honum fram eftir nóttu.
Já, það var harðsótt hjá Bakkbæingum að fara á þetta ball. Árni bóndi og
ferjumaður í Fróðholtshjáleigu taldi orðið ófært að fara yfir ána sökum
hvassviðris og frosts þegar ballfólkið kom að Hjáleigunni, en Stóri-Páll
vildi reyna þetta. Hann hafði verið að smíða bát, flatbotnaðan pramma eins
og þessir bátar voru kallaðir. Þeir flutu á grynnra vatni en byrðingar.
Bátur Páls var allstór, gott fyrir tvo menn að róa honum og svo aðra tvo á
næstu þóftu til að falla á eins og það var kallað. Var það gert í þessari
fyrstu ferð hans yfir ána. Stóri-Páll reri og þurfti að fara þrjár eða
fjórar ferðir yfir ána vegna þess að ekki var hægt að hlaða bátinn mikið
vegna hvassviðrisins. Reru fjórir menn norður yfir ána en tveir til baka
undan vindinum til að sækja næsta hóp og í hverjum hópi voru alltaf nýir
menn til að falla á með ræðurunum.
Á þessum árum kunnu allir karlmenn á Bakkabæjum að róa, enda var ferjan í
Hjáleigunni aðal samgöngutækið yfir ána, allt þar til Þveráin var brúuð
1932, og raunar lengur, þar sem enginn Bakkbæingur átti bíl, svo langur
þótti krókurinn á brúna ef erindi voru til Rangárvalla, svo sem kirkjuferða
að Odda og flytja skólabörnin í heimavistaskólann að Strönd eftir að hann
tók til starfa. Einnig komu menn oft gangandi niður á Tanga og kölluðu á
ferju, því þarna var lögferja eins og það var kallað. Þá fóru menn oft
einnig með hesta þarna yfir og voru þeir þá sundlagðir því venjulega var
sundvatn þarna á ferjustaðnum. Þá voru fráfærulömb ferjuð þarna yfir ána á
vorin og stundum sláturfé á haustin.

En víkjum nú aftur að ballnóttinni á Strönd. Veðrið var víða um land
ofsaveður og reyndist nóttin verða mannskaðanótt, bátar fórust og menn urðu
úti, alls 25 manns, flestir norðanlands. Eitthvað mun veðrið hafa verið
hægara sunnanlands svo Sunnlendingar sluppu við manntjón. En á Strönd gekk
ballið eins og til hafði staðið, nýja húsið geymdi vel gesti sína þó úti
væri rok og gaddur. Bjarni Björnsson gerði mikla lukku og Steingrímur stóð
sig vel með nikkuna. Þegar líða tók á nóttina fóru menn að gá til veðurs en
það hafði ekkert lægt. Þegar klukkan fór að ganga sex um morguninn fóru
menn að tygja sig til heimferðar. Við ferðafélagarnir frá Djúpadal og
Móeiðarhvoli löbbuðum til baka sömu leið og við höfðum komið. Bakkbæingar
löbbuðu niður að Þverá, en þegar þangað kom var hún orðin allögð af ís, en
ekki viðlit að hann væri manngengur. Var nú ekki annað að gera en labba
aftur upp á þjóðveg, yfir Rangárbrúna hjá Djúpadal og síðan austur
Hvolsvöll og yfir Þverárbrú og síðan út með öllum Bakkabæjum, alla leið að
Ártúnum þeir sem lengst áttu. Á leiðinni var komið við á tveim bæjum,
Miðkrika og Uxahrygg, þar sem fólkið fékk einhverja hressingu. Þegar að
Uxahrygg var komið var komið myrkur, svo flestir Bakkbæingar máttu ganga
síðasta hluta ferðarinnar í myrkri annarrar nætur í balli. Hafa eflaust
flestir orðið fegnir að komast í bólið að lokinni þessari löngu og
eftirminnilegu ballferð á jólaföstunni 1935.
*Þessi frásögn birtist í Goðasteini 2009. Birt með leyfi Guðmundar Óla
Sigurgeirssonar, sonar Sigurgeirs.*