Hvernig getum við fengið fleira fólk til liðs við FEB í Rangárþingunum og Ásahreppi? Ef ég vissi það hefði fjölgað í félaginu okkar. En ég veit það ekki og þess vegna leitum við í stjórninni til ykkar eftir góðum hugmyndum.
Í Rangárvallasýslu eru um 900 manns 60 ára og eldri en við erum aðeins 260 í félaginu. Við erum félagsskapur sem er að standa vörð um hagsmuni eldri borgara, laun, tryggingar, lögfræðiaðstoð og ýmislegt annað. Við skipuleggjum líka félagsstarf og gagnlega fræðslufundi.
Við þurfum að standa saman og leggja eitthvað að mörkum sem flest, ekki bara þiggja. Okkur vantar fólk til samstarfs, margar hendur vinna létt verk. Eins og staðan er núna erum við of fá að sinna of mörgum störfum, það er gaman og góð tilfinning að gefa af sér og deila ábyrgð. Ég vil ekki vera eins og presturinn sem skammaðist í þeim fáu gestum sem komu til kirkju yfir lélegri kirkjusókn. Nei ég vil hvetja ykkur til starfa fyrir félagið og hjálpast að við að fjölga félögum, líka að gefa kost á ykkur í stjórn, ráð og nefndir. Það væri nú tilbreyting ef kjósa þyrfti á næsta aðalfundi. Við vitum öll að fátt gerist af sjálfu sér.
Að lokum langar mig að segja frá því hvernig ég kynntist Félagi eldri borgara. Fyrir þremur árum var ég að fletta Búkollu. Þar auglýsti félagið dagsferð á Lakagíga. Hvernig get ég komist í þessa ferð, ég er ekki í félaginu enda svo ung fannst mér! Svo ég fór og heimsótti Rúnu þáverandi formann. „Þú verður bara að ganga í félagið“ sagði Rúna. Það varð raunin og ég fór á Laka, ógleymanleg ferð. Í rútunni var farið lauslega yfir starfið í félaginu, þar á meðal starf Hrings (kórinn). Ég heillaðist af þeirri kynningu og ákvað að taka þátt. Það er mjög gaman og við erum öll jöfn þó við séum á óræðum aldri. Það þurfum við líka að vera í FEBRANG og Nonni formaður leiðir okkur áfram.
Kær kveðja
Ásdís Ólafsdóttir, frístundabóndi
Bót
Rangárþingi eystra
Ps. Þú getur skráð þig í félagið hérna, færð strax full réttindi þótt þú greiðir ekki félagsgjald fyrir þetta ár (2020).