Við í stjórn FEBRANG höfum velt því fyrir okkur hvers vegna svo lítið hefur miðað í málefnum okkar eldri borgara, þrátt fyrir blaðaskrif og þrýsting af ýmsu tagi. T.d. hefur formaður Kjararáðs FEBRANG verið ötull og bent á margar brotalamir, sem þarf að bæta.
Við leituðum nýrra baráttuleiða og skrifuðum greinina „Virkjum grasrótina“ hér. Hún var send öllum félögum eldri borgara svo og stjórn og Kjaranefnd LEB. Auk þess birtist greinin í Bændablaðinu og vefmiðlinum kjarninn.is.
Stjórn Félags eldri borgara í Rangárvallasýslu – FEBRANG tók þátt í rafrænum formannafundi LEB 13.3.2021. Á þeim fundi voru samþykkt einróma „Áhersluatriði eldra fólks í komandi Alþingiskosningum“ hér. Stjórn FEBRANG studdi samþykktina og gerði tillögu til Kjaranefndar LEB um kynningu á samþykktinni í minnisblaði sem heitir „Miðlun „áhersluatriða“ í málefnum eldri borgara“ hér.
Við í stjórninni teljum afar mikilvægt að eldri borgarar standi saman að kröfugerð til stjórnvalda og tali einum rómi. Stjórnvöld hafa kvartað yfir ósamræmi í kröfugerð okkar þannig að erfitt sé að vita hvað við viljum. Nú bregður svo við að meiri hluti aðildarfélaga LEB, Kjaranefnd og stjórn LEB eru sammála um kröfugerð fyrir komandi Alþingiskosningar.
Við hvetjum alla félaga okkar til að mæta á pólitíska fundi í sínum flokkum í aðdraganda Alþingiskosninganna í september. Gott er að gott er að hafa meðferðis samþykktina „Áhersluatriði eldra fólks í komandi Alþingiskosningum“ á fundunum og afhenda frambjóðendum og gjarnan tala máli okkar. Það er hægt að prenta samþykktina auk þess sem Nonni formaður lumar á prentuðum blöðum sem hægt er að nálgast (sími 6990055).
Stjórnin hefur ákveðið að halda almennan félagsfund fyrir kosningar og bjóða öllum flokkum í framboði að kynna stefnumál sín – og við munum nota tækifærið og kynna þeim okkar áhersluatriði.