Æ, ég gleymdi þessu alveg

„Ég veit ekkert hvar ég setti gleraugun mín“ sagði Pétur við Mörtu sína og hélt áfram: „Fréttirnar eru að byrja í sjónvarpinu og ég sé ekkert gleraugnalaust“. „Andaðu nú með nefinu Pétur minn. Fréttirnar fara ekkert frá okkur, við getum horft á þær í spilaranum þegar þú ert búinn að finna gleraugun þín. En leitaðu ekki langt yfir skammt, þau eru á höfðinu á þér“.

„Heilinn tengist ÖLLU sem við gerum og því skiptir miklu máli að hugsa vel um hann. Hann stjórnar hugsunum okkar, líðan og hegðun, auk þess að stýra dómgreind, persónuleika, samskipta- og skipulagshæfileikum og gæðum þeirra ákvarðana sem við tökum. Ef við viljum nýta okkur mátt heilans er skynsamlegt að skoða hvað við getum gert til að þetta mikilvæga líffæri þjóni okkur enn betur“ segir í grein á vefsíðunni Lifum betur í boði náttúrunnar en greinin heitir 6 leiðir til að bæta minnið. Leiðirnar 6 eru: Hreyfing, næring, heilaleikfimi, minna stress, góð hvíld, vítamín og bætiefni. Ef þú vilt lesa greinina skaltu smella hér.

Við finnum flest fyrir því að minnið minnkar með aldrinum. Ég á t.d. erfitt með að muna mannanöfn og hvenær er nú aftur árshátíðin hjá FEBRANG? 

Ýmis trix er hægt að nota til að minna sig á. Umfjöllun um það er á vef sem heitir Áttavitinn. Nánar um það hér. Það er mismunandi hvaða minnisaðferðir henta fólki. Sumir klippa út auglýsingu eða merkja á dagatal og hengja á ísskápinn, eða skrá í dagbók. Þessar aðferðir duga skammt ef við gleymum að líta á ísskápinn eða fletta dagbókinni: Það er ekkert sem minnir okkur á að skoða dagbókina núna.

Manstu gamla daga?

Nú eru flest okkar komin með snjallsíma. Hann er til margra nota: Við getum farið á Veraldarvefinn og skoðað nýjustu fréttir, „skroppið“ í bankann til að borga reikninga eða pantað lyfin okkar í Heilsuveru með rafrænum skilríkjum. Hægt er að nota apparatið eins og gamaldags síma, myndsíma eða til á minna okkur á hvaðeina.

Þrátt fyrir að við leggjum rækt við að þjálfa minnið er áreitið af alls kyns upplýsingum svo mikið að við þurfum að láta minna okkur á. Snjallsímar eru útbúnir með dagatölum. Þar er hægt að skrá viðburð, hvar og hvenær og biðja símann að minna sig á viðburðinn. Ef við notum snjallsímann til að skrá atriði í framtíðinni sem við þurfum að muna, þá eru litlar líkur á að við upplifum: Æ, æ, ég gleymdi alveg. Mundi eftir því í gær, en svo datt það út.

FEBRANG býður nú félagsfólki sínu kennslu á snjallsíma, t.d. að nota dagatalið til að minna sig á.

Smelltu hér hér ef þú vilt aðstoð, fylltu út formið og sendu til okkar. – kostar ekki krónu.

Jón Ragnar Björnsson

Scroll to Top