Hugleiðingar um breytta tíma.

Það er margt sem kemur upp í hugann þegar litið er til baka og flestar eru þær minningar góðar.
Á árunum milli 1950 og 60 var lífið í sveitunum öðruvísi en börnin þekkja í dag.
Ég varð þeirrar ánægju aðnjótandi að vera sú amma sem barnabarnið tók viðtal við þegar hann þurfti að skrifa um líf barna þegar fólk á mínum aldri var að alast upp.
Miklar breytingar hafa orðið á þeim tíma sem liðinn er síðan þá, kannski sérstaklega í sveitum landsins. Ekki höfðu allir mikið fé handa á milli, samt voru flestir ánægðir með sitt hlutskipti enda þekktist varla mikið ríkidæmi meðal bænda.
Börn þess tíma voru farin að hjálpa til við bústörfin um leið og þau gátu og drógu ekki af sér. Í dag væri það kallað barnaþrælkun.
Eldri systkin gættu þeirra yngri og þótti ekki tiltökumál. Leikir barna voru mest útileikir. Leikföngin voru að hluta til horn og leggir sem gegndu hlutverki húsdýra og gerðar voru girðingar úr einhverju spýtnabraki sem til féll og snærisspottum.
Einnig voru ýmsir útileikir eins og Fallin spýtan, boltaleikir og Síðastaleikur, Hlaupið í skarðið og margir fleiri sem börn í dag þekkja
ekki.
Skólinn byrjað ekki fyrr en í október og honum lauk í byrjun maí á vorin. Ýmist var farskóli eða heimavist sem reyndist sumum býsna erfið.
Þetta þótti barnabarninu merkilegt og skrifaði góða ritgerð um efnið. Í dag eru börnin með síma og stunda tölvuleiki og allt er unnið í tölvum. Auðvitað stunda þau einnig íþróttir með jafningjum sínum, frjálsar og knattleiki, sund og hestamennsku, en á allt öðrum grundvelli en fyrr á tímum.
Skólaskylda er frá sex ára aldri til sextán ára, og möguleikar til framhaldsnáms svo miklu meiri, sem betur fer. Við sem komin erum á minn aldur höfum lifað miklar breytingar til góðs myndi ég segja.
Þó erum við ekki gömul.
Tækniframfarir í landbúnaði eru miklar. Allt frá því að slá með orfi og ljá og binda í bagga, sem reiddir voru heim á hestum, til dráttarvéla sem bera tvær til þrjár stórar sláttuvélar og knýja rúlluvélar sem pakka heyinu í plast, allt tölvuvætt. Maður sem ég þekkti vel talaði stundum um að hann hlyti að vera orðinn 1000 ára, að hafa upplifað allar þessar framfarir. Ekki þarf að taka það fram að mun færra fólk þarf til að heyja en áður var.
Og nú erum við í miðjum Kórónufaraldri og vitum ekki hvenær við losnum út úr því ástandi. Það eina sem við getum gert og telst skynsamlegt, er að vera þolinmóð og fara eftir tilmælum sóttvarnalæknis, nota grímur og spritt, þvo hendur og hlýða Víði.
Kannski getum við þá haldið jól með nokkurn vegin eðlilegum hætti.
Kær kveðja
Vilborg Gísladóttir, Hellu
Frá Fosshólum