Að fá aldrei nóg

Margrét Kristmannsdóttir skrifaði í Bakþönkum Fréttablaðsins 12.12.2020:

„Þegar vetur var handan við hornið var eiginmaðurinn sendur út í skúr að smíða nýjan fóðurpall fyrir fuglana í hverfinu. Útkoman var fjári góð og dag einn var pallurinn settur út með viðhöfn og ýmiss konar góðgæti dreift á hann í ómældu magni. Fuglarnir voru ekki lengi að átta sig á að boðið hafði verið til veislu í hverfinu og miðaldra hjón horfðu stolt á atganginn út um gluggann.

Skömmu síðar var friðurinn þó úti. Stór svartþröstur tók að einoka fóðurpallinn og varna öðrum fuglum aðgangs að matnum með vængjaslætti og árásum. Allt í kringum fóðurpallinn stóðu hnípnir og svangir smáfuglar, en fáir lögðu í svartþröstinn freka. Og þá rann upp fyrir mér að baráttan í kringum fóðurpall í Kópavogi var birtingarmynd þess sem hrjáir heiminn. Á pallinum var nóg að borða en græðgi og yfirgangur kom í veg fyrir að allir fengju sinn skerf. Svartþrösturinn gat borðað nægju sína en samt unnað öðrum að fá sitt. Ójöfnuðurinn og óréttlætið blasti við út um eldhúsgluggann.

Ójöfnuður er eitt stærsta úrlausnarefni í heiminum í dag. Það er til nóg handa öllum – en misskipting veldur því að sumir eiga miklu meira en þeir geta nokkurn tíma notið á meðan aðrir hafa ekki neitt. Á meðan sumir eiga fullar kistur fjár veit stór hluti mannkyns ekki hvaðan næsta máltíð kemur. Jafnvel í einu ríkasta landi heims – Íslandi – standa fjölskyldur í röðum eftir matarúthlutun á meðan aðrir liggja afvelta af ofáti.

Það verður að stokka spilin og gefa upp á nýtt – við getum ekki haldið áfram á sömu braut. En á meðan málið er óleyst þurfa góðgerðarsamtök á stuðningi þínum að halda sem aldrei fyrr.

Gleðilega jólahátíð“.

Scroll to Top