Skýrsla stjórnar til aðalfundar FEBRANG 4.3. 2024

Félagsmenn nú eru 309 en voru 301 fyrir ári. 

Stjórnin skipti með sér verkum og skipaði í nefndir. Formaður, Jón Ragnar Björnsson var kosinn á aðalfundi, varaformaður Ásdís Ólafsdóttir, gjaldkeri Einar Grétar Magnússon, ritari Svavar Hauksson og meðstjórnandi Þorsteinn Markússon. Varamenn Vilborg Gísladóttir og Katrín J. Óskarsdóttir. 

Stjórnin hélt 22 stjórnarfundi. Þeir eru að jafnaði á hálfs mánaðar fresti nema yfir sumarmánuðina og í desember.

Nefndir til aðstoðar stjórninni voru skipaðar á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund. Þessar nefndir eru ferðanefnd, skemmtinefnd, spilanefnd á Hvolsvelli og spilanefnd á Hellu, bókaklúbbsnefnd og dansnefnd. 


Að venju sótti félagið um rekstrarstyrk til Héraðsnefndar Rangæinga fyrir árið 2024  sem samþykkti stuðning að upphæð kr. 5.750.000. Þökkum við Héraðsnefnd og sveitarstjórnarfólki í Rangárvallasýslu fyrir góðan skilning á málefnum okkar og ómetanlega aðstoð.

Helstu verkefni
Félagið stóð fyrir fjórum hátíðum á starfsárinu. Góugleði var haldin í mars í Hvolnum á Hvolsvelli. Kvenfélagið Eining á Hvolsvelli eldaði saltkjöt og baunir með miklum sóma. 

Jónsmessuhátíð og jafnframt 30 ára afmælishátíð félagsins var haldin að Laugalandi í Holtum. Kvenfélagið Eining í Holtum sá um matinn sem var lambasteik með tilheyrandi. Unnur Þórðardóttir og Þórunn Ragnarsdóttir röktu sögu félagsins. 

Árshátíðin var svo haldin í október að þessu sinni á Hótel Hellishólum með góðum mat, skemmtiatriðum og dansi. 

Að þessu sinni var Jólahlaðborðið á Landhótel í Landsveit. Miklar væntingar voru til þessa viðburðar í nýju og glæsilegu hóteli. Meiri hluti gesta kom með rútu sem var með bilaða miðstöð í sjö stiga gaddi. Þeir settust skjálfandi úr kulda að jólahlaðborði og hófst þá eftirrekstur hótelstarfsmanna að borða hratt, því annar hópur var væntanlegur fljótlega. Þetta kvöld varð því endasleppt og óskemmtilegt og eini ljósi punkturinn var að upphituð rúta skilaði hátíðargestum heim. 

Félagið skipulagði þrjár ferðir. Dagsferð í Borgarfjörð, fjögurra daga Vestfjarðaferð og dagsferð á Rangárvallaafrétt. 

Ekið var í blíðskaparveðri í júní um Þingvöll, Kaldadal og hádegisverður snæddur í Húsafelli. Þaðan lá leiðin um Borgarfjörðinn til Akraness og Byggðasafnið í Görðum skoðað. Ólöf Sara Garðarsdóttir var fararstjóri og Jón Ragnar Björnsson leiðsögumaður. 

Því miður var Vestfjarðaferðinni aflýst vegna lítillar þátttöku. 

Í ágúst var dagsferð um Rangárvallaafrétt. Fyrsta stopp var í Hungurfit, þar sem borðað var eigið nesti og kaffi í boði staðarhaldara. Síðan Álftavatn, Hvanngil, Emstrur og endað með kvöldverði á Hellishólum í Fljótshlíð. Ólöf Sara Garðarsdóttir var fararstjóri og Einar Grétar Magnússon leiðsögumaður.

Í nóvember efndi félagið til leikhúsferðar og sá Níu líf í Borgarleikhúsinu.

Yfir sumartímann var boðið upp á vikulegt pútt á Strandarvelli og sundleikfimi vikulega á Hellu og Hvolsvelli.

Af verkefnum vetrarins má nefna Boccia tvisvar í viku á Hvolsvelli og Hellu. Vist spiluð vikulega til skiptis í þorpunum, bókaklúbbur, og gömlu dansarnir hálfsmánaðarlega. Hringur, kór eldri borgara æfði vikulega. Handverk var iðkað tvo daga í viku á Hellu. Því lauk með veglegri og vel sóttri handverkssýningu. Útskurður og leiklist var vikulega og haldið var námskeið í skapandi skrifum.

Landsamband eldri borgara, LEB, hvatti aðildarfélög sín til að samþykkja siðareglur fyrir félagið. Það gerði stjórnin í nóvember s.l. Þær eru birtar á vefsíðu félagsins, febrang.net.

Haldnir voru tveir félags- og fræðslufundir. Haustfundur þar sem kynnt var starfsemi félagsins á haustönn, sagt frá hagræðingaraðgerðum félagsins og Aðalheiður Steinadóttir flutti fræðsluerindi til kynningar á heimaþjónustunni. Á fundi í janúar voru gestir þeir Helgi Pétursson, formaður LEB og Þorbjörn Guðmundsson, formaður kjaranefndar LEB og sögðu frá starfsemi LEB á sviði kjarabaráttu. Sama dag hittist stjórnarfólk félaga eldri borgara á Suðurlandi á fundi og sat síðan Félags- og fræðslufundinn.

Hagræðing

Stjórnin ákvað að fara yfir allan rekstur félagsins með það að markmiði að hagræða og jafna framlagi Héraðsnefndar sem best milli verkefna félagsins.

Spurt var: Erum við að sinna réttu verkefnunum? Gerum við þau rétt? Er rétt að gera breytingar? Hvernig getum við bætt þjónustuna við félagsfólk?

Ákveðið var að fastráða ekki starfskraft á síðasta ári, heldur fá verktaka í einstök verkefni. Til þess var fengin Ólöf Sara Garðarsdóttir. Jón Ragnar tók að sér að færa bókhaldið á síðasta ári, en Einar Grétar gjaldkeri annast það frá áramótum. Bókhaldið er nú unnið þannig að allar bankafærslur eru fluttar inn í bókhaldskerfið og þannig sparast mikil vinna.  

Ýmislegt fleira var gert í hagræðingarskyni og var ákveðið að fastráða starfskraft í 25% starf frá síðustu áramótum á sambærilegum kjörum og áður giltu. Starfshlutfallið var áður 33% og því sparast um 600 þúsund kr. á ári við þessa aðgerð. 

Sigdís Oddsdóttir var ráðin til félagsins frá síðustu áramótum. Hún er boðin velkomin til starfa. Sigdís annast vörusölu í handverki, undirbýr ferðir, annast fararstjórn auk annarra tilfallandi verkefna.

Ferðir hafa ekki notið niðurgreiðslu að öðru leyti en sem nemur vinnu við undirbúning og fararstjórn. Hátíðir hafa ekki verið niðurgreiddar að neinu leyti. 

Rekstraráætlun þessa árs gerir ráð fyrir að ferðir og samkomur verði greiddar niður af einhverju leiti. Þetta er hægt þar sem launakostnaður hefur lækkað og gjöld fyrir þátttöku í nokkrum verkefnum hækkað. Engin kostnaður er færður á vinnu við bókhald.

Þátttökugjöld í hinum ýmsu verkefnum félagsins hafa verið endurskoðuð og hækkuð til samræmis við þróun verðlags.

Félagið hefur tekið þátt í launakostnaði kórstjóra Hrings. Upphæðin var 528.000 kr. á síðasta ári. Stjórnin samþykkti að þessar greiðslur breytist í samræmi við þróun verðlags.

Sem fyrr leggur stjórnin mikla áherslu á að félagsfólk geti fylgst með starfi félagsins. Minnum á vefsíðuna febrang.net, þar eru birtar fréttir, hugleiðingar, vísur og örsögur. 

Við erum líka á Facebook á síðu sem heitir FEBRANG. Við auglýsum viðburði í Búkollu, sem hægt er að nálgast í verslunum á svæðinu, á vefsíðum sveitarfélaganna og á vefsíðu félagsins. Svo eru félags- og fræðslufundirnir ætlaðir til að koma fræðslu og skilaboðum á framfæri við félagsmenn.

Við viljum þakka nefndafólki og starfsfólki fyrir gott og farsælt samstarf. Við þökkum sveitarfélögunum fyrir ókeypis aðgang að frábærum húsakosti undir starfsemina og Héraðsnefnd fyrir ómetanlegan fjárstuðning.

Scroll to Top