Skýrsla stjórnar til aðalfundar FEBRANG 2.3. 2023

Félagsmenn nú eru 301. Nýir félagar 25 en 10 látnir eða burtfluttir.

Strax að loknum aðalfundi 2022 hélt nýkjörin stjórn fund, skipti með sér verkum og skipaði í nefndir. Formaður, Jón Ragnar Björnsson var kosinn á aðalfundi, gjaldkeri Þórunn Ragnarsdóttir, ritari Svavar Hauksson, meðstjórnendur Ásdís Ólafsdóttir og Þorsteinn Markússon. Varamenn Vilborg Gísladóttir og Viðar Bjarnason. 

Nefndir á vegum félagsins eru kjörnefnd/uppstillingarnefnd og laganefnd, þegar það á við. Þær eru kosnar á aðalfundum. Nefndir til aðstoðar stjórninni eru skipaðar á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund. Þessar nefndir eru ferðanefnd, skemmtinefnd, spilanefnd á Hvolsvelli og spilanefnd á Hellu, bókaklúbbsnefnd og dansnefnd. Vefsíðunefnd var lögð niður og sér stjórnin um málefni vefsíðunnar febrang.net og Facebooksíðunnar FEBRANG.

Stjórnin hélt nítján stjórnarfundi, en fundir eru að jafnaði á hálfs mánaðar fresti nema yfir sumarmánuðina og í desember.

Að venju sótti félagið um rekstrarstyrk til Héraðsnefndar Rangæinga sem samþykkti stuðning við FEBRANG að upphæð kr. 5.317.000. Þökkum við Héraðsnefnd og sveitarstjórnarfólki í Rangárvallasýslu fyrir góðan skilning á málefnum okkar og ómetanlega aðstoð.

Starfsemi félagsins hefur komist í nokkuð gott horf eftir Covid. Þó virðist þátttaka í viðburðum félagsins ekki hafa náð sér enn að fullu eftir heimsfaraldurinn.

Í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna héldum við fundi með frambjóðendum í sveitarfélögunum, þar sem við kynntum áhersluatriði eldri borgara og dreifðum einblöðungi sem Kjaranefnd og stjórn LEB settu saman. Hann bar nafnið „Eldra fólk vill hafa áhrif á sitt nánasta umhverfi“. Einnig komu frambjóðendur sínum áhersluatriðum að varðandi málefni eldri borgara.

Félagið hefur tekið upp samstarf við grunnskólana í sýslunni. Ýmsar hugmyndir eru um samstarf, m.a. margmiðlunarkennsla fyrir félagsmenn FEBRANG og samverustundir með nemendum þar sem félagsmenn lesa fyrir þau, eða þau lesa fyrir okkur, segja nemendunum sögur úr lífi okkar o.s.frv.

Margmiðlunarkennsla fór af stað s.l. haust. Grunnskólinn á Hvolsvelli reið á vaðið, Grunnskólinn á Hellu kenndi á miðönn og Grunnskólinn á Laugalandi kennir nú á vorönn. Nemendur í efstu bekkjum grunnskólanna leiðbeina undir handleiðslu kennara. Fólk kemur með eigin borðtölvu, spjaldtölvu eða snjallsíma og fær einkakennslu að eigin óskum. 

Við teljum kennslu á margmiðlunartæki afar mikilvæga, þróunin er öll í þá veru að við verðum að nota tölvutæknina til að sinna fjölmörgum þáttum daglegs lífs, eins og t.d. bankaviðskiptum, samskiptum við heilbrigðiskerfið og svo ótalmargt fleira. Þátttakan í kennslunni mætti vera miklu meiri.

Félagið fékk 450 þúsund króna styrki frá Arion- og Landsbanka fyrir margmiðlunarkennslu. Við fengum Örnu Þöll Bjarnadóttur til að annast kennsluna. Hún heimsækir fólk og kennir á tækin eftir óskum hvers og eins. Félagið greiðir henni fyrir tveggja klukkustunda kennslu á hvern félagsmann.

Félagið stóð fyrir nokkrum hátíðum og uppákomum. Jónsmessuhátíð er að festast í sessi. Hún var haldinn að Goðalandi. Við fengum gott fólk til að grilla ómótstæðilegt lambakjöt, skemmtinefndin var á sínum stað með glens og gaman og Vinir Jenna sáu um dansmúsikkina. 

Árshátíðin var að venju í október. Haldinn í Smáratúni, vel heppnuð með flottum skemmtiatriðum, verðlaunaafhendingum í pútti og dansi í lokin með Vinum Jenna.

Jólahlaðborð á Hótel Stracta var vel heppnað. Kristinn Ingi Austmar Guðnason stóð fyrir fjöldasöng vopnaður sínum gítar.

Bjarni Harðar mætti með bráðskemmtilegt uppistand um atburði í Njálu og við héldum kvöldvöku. Venjulega hafa tveir svokallaðir Félags- og fræðslufundir verið haldnir á hvorri önn. Í upphafi haustannar var haldinn hefðbundin fundur þar sem starfið framundan var kynnt. Sigrún Ólafsdóttir hélt líka ógleymanlega hugvekju. Seinni fundurinn var svo í formi kvöldvöku sem tókst ágæta vel. Hún var á léttari nótunum. Leiklistarhópur félagsins flutti leikþátt, leynigestur: hver er maðurinn o.fl. Félagar úr Harmonikkusveit Suðurlands léku fyrir dansi við mikinn fögnuð viðstaddra.

Að venju var haldinn vegleg og vel sótt handverkssýning.

Leikhúsferð var farin í Borgarleikhúsið, leikhópurinn Hundur í óskilum flutti ógleymanlega Njálu á hundavaði.

Hið sívinsæla pútt á Strandarvelli undir styrkri stjórn Brynju Bergsveinsdóttur var vel sótt, svo og sundleikfimi sem var í sundlaugunum á Hellu og Hvolsvelli. Um leikfimina sáu Anna Rún Einarsdóttir á Hvolsvelli og Eydís Hrönn Tómasdóttir á Hellu.

Ferðir ársins voru að venju þrjár. Dagsferð um uppsveitir Árnessýslu og í Hvalfjörð og dagsferð í Hafnarfjörð. Karmel nunnuklaustrið var heimsótt svo og Hellisgerði. Fjögurra daga ferðin var í Skagafjörð. Allar þessar ferðir voru vel heppnaðar undir styrkri fararstjórn Þórunnar Ragnarsdóttur.

Boccia er leikin tvisvar í viku í íþróttahúsunum á Hvolsvelli og Hellu. Spiluð er vist  einu sinni í viku til skiptis á Hvolsvelli og á Hellu. Handverk er iðkað tvo daga í viku á Hellu og útskurður vikulega í Hvolsskóla. Hringur, kór eldri borgara æfir vikulega. Bókaklúbbur er starfræktur aðra hvora viku.

Félagar í félagi aldraðra í Borgarfjarðardölum voru á ferð um Suðurland s.l. sumar og komu við í Menningarsalnum og hittu félaga úr FEBRANG. Úr varð hið skemmtilegasta spjall. 

Þórunn Ragnarsdóttir lætur nú af störfum fyrir félagið. Hún hefur þjónað félaginu af trúmennsku og dugnaði undanfarin 17 ár. Við þökkum henni fyrir samstarfið og samveruna. 

Félagið auglýsti eftir starfskrafti í stað Þórunnar. Niðurstaðan varð sú að ráða ekki fastan starfskraft að sinni, heldur fá verktaka í einstök verkefni. Sem dæmi um verkefni er undirbúningur ferða og fararstjórn.  

Landsamband eldri borgara (LEB) sækir í sig veðrið. Það heldur reglulega formannafundi (á Netinu). Þeir eru vel sóttir og þar heyrast raddir félaganna víðs vegar að af landinu. Einnig er starfandi kjaranefnd LEB, sem formaður FEBRANG er ritari í. Stjórn FEBRANG getur því fylgst vel með starfinu á sviði kjaramála og lagt til hugmyndir, sem eru vel þegnar. Því miður miðar hægt í kjaramálum eldri borgara, en fólk er hvergi að baki dottið í baráttunni fyrir bættum kjörum.

Sem fyrr leggur stjórnin mikla áherslu á að félagsfólk geti fylgst með starfi félagsins. Við minnum á vefsíðuna febrang.net, þar eru birtar fréttir, hugleiðingar, vísur og örsögur. Við erum líka á Facebook á síðu sem heitir FEBRANG. Við auglýsum viðburði í Búkollu, sem dreift er ókeypis á öll heimili í sýslunni. Svo eru félags- og fræðslufundirnir ætlaðir til að koma fræðslu og skilaboðum á framfæri við félagsmenn.Við leggjum áherslu á sem mesta og besta miðlun upplýsinga til ykkar, kæru félagar. Við viljum safna netföngum ykkar til að geta sent ykkur beint upplýsingar um viðburði á vegum félagsins.

Við viljum þakka nefndafólki, leiðbeinendum og kaffikonum fyrir gott og farsælt samstarf. Við þökkum sveitarfélögunum þrem fyrir ókeypis aðgang að frábærum húsakosti undir starfsemina og Héraðsnefnd fyrir ómetanlegan fjárstuðning.

Scroll to Top