Félagsmenn nú eru 284. Nýir félagar 18 en 7 eru látnir eða burtfluttir.
Strax að loknum aðalfundi 2021 hélt nýkjörin stjórn fund, skipti með sér verkum og skipaði í nefndir. Formaður Jón Ragnar Björnsson, en formaður er kosinn á aðalfundi, varaformaður Sigrún Ólafsdóttir, gjaldkeri Þórunn Ragnarsdóttir, ritari Svavar Hauksson og meðstjórnandi Þorsteinn Markússon. Varamenn Vilborg Gísladóttir og Ásdís Ólafsdóttir.
Stjórnin skipaði í ferðanefnd, skemmtinefnd, spilanefnd á Hvolsvelli og spilanefnd á Hellu, vefsíðunefnd, bókaklúbbsnefnd og dansnefnd. Leitað var til formanna nefndanna nú fyrir aðalfund og gefa allir nefndarmenn kost á að sitja áfram í nefndum. Nefndirnar verða því skipaðar á ný á fyrsta stjórnarfundi sem boðað er til strax eftir aðalfundinn. Alls hélt stjórnin 21 fund frá síðasta aðalfundi.
Corona heimsfaraldurinn setti mark sitt á starfsemi félagsins annað árið í röð, þannig að við urðum að aflýsa ýmsum viðburðum. Þó var hið sívinsæla pútt á Strandarvelli undir styrkri stjórn Brynju Bergsveinsdóttur vel sótt, svo og sundleikfimi sem var í sundlaugunum á Hellu og á Hvolsvelli. Um leikfimina sáu Anna Rún Einarsdóttir á Hvolsvelli og Eydís Hrönn Tómasdóttir á Hellu.
Við héldum Jónsmessuhátíð í Goðalandi. Fengum nokkra snillinga til að grilla fyrir okkur. Stórhljómsveitin Vinir Jenna lék og söng og skemmtinefnd félagsins lét ekki sitt eftir liggja með safaríkum skemmtiatriðum.
Okkur tókst að halda góða og vel sótta árshátíð á Hótel Fljótshlíð. Skemmtinefndin sá um skemmtiatriði ásamt Frjálslegum fíflagangi, en svo nefnist hópurinn sem sækir leiklistartíma hjá Margréti Tryggvadóttur. Og dansinn dunaði við undirleik og söng Vina Jenna.
Til stóð að hafa jólahlaðborð en hætt var við það vegna Covid. Þá átti að halda Góugleði í staðinn, en það fór á sama veg, hætt var við hana vegna hrað fjölgandi smita á svæðinu.
Við undirbjuggum uppistand með Bjarna Harðarsyni sem hann nefnir „Var Gunnar á Hlíðarenda írskur prins?“ Það átti að vera í mars, en var frestað eins og svo mörgu öðru.
Dagsferð var farin í Þórsmörk í júni. 62 félagar fóru í ferðina. Viðar Bjarnason var leiðsögumaður í vel heppnaðri ferð.
Í júlí fóru 35 félagar í þriggja daga ferð á Strandir. Gist var á Laugarhóli og á Svanshóli. Við vorum svo lánsöm að bílstjórinn frá Teiti ehf. á ættir að rekja á Strandirnar og veitti hann góðar upplýsingar. Leiðsögumaður um Strandir var Valgeir Benediktsson frá Minja- og handverkshúsinu Kört í Árnesi. Líka var farið á Snæfjallaströndina og síðan heim um Dalasýslu. Þetta var mjög vel heppnuð ferð að miklu leyti gott veður og allir komu ánægðir heim.
Áður en haldið var á Strandir fengum við Hrafn Jökulsson í heimsókn. Hann las upp úr bókinni sinni Þar sem vegurinn endar, en hún fjallar um veru hans í sveit á Ströndum.
Í ágúst átti að fara dagsferð í Hafnarfjörð en hætt við vegna Covid.
Félag eldri borgara Djúpavogi ferðaðist um héraðið og naut leiðsagnar staðkunnugra félaga okkar. Þá stóð til að Félag aldraðra Borgarfjarðardölum sækti okkur heim, en þeirri ferð var frestað um ár af vel þekktum ástæðum.
Þrátt fyrir að Covid hefði umtalsverð áhrif á starfsemi félagsins tókst þó að koma bókaklúbbi á fót. Fólk hittist hálfs mánaðar lega í húsakynnum Héraðsbókasafns Rangæinga þá daga sem spiluð er vist á Hvolsvelli. Einnig var byrjað með dans aðra hvora viku við dræmar undirtektir enn sem komið er.
Boccia er leikin tvisvar í viku í íþróttahúsunum á Hvolsvelli og Hellu. Spiluð er vist einu sinni í viku til skiptis á Hvolsvelli og á Hellu. Handverk er iðkað tvo daga í viku á Hellu og útskurður vikulega í Hvolsskóla. Hringur, kór eldri borgara æfir vikulega þegar gefur, en langvarandi samkomutakmarkanir hafa truflað starfsemi kórsins verulega.
Stjórnin sótti um styrki til Arion banka og Landsbankans til að standa straum af kennslu á spjaldtölvur og snjallsíma, öðru nafni margmiðlunartæki. Sótt var um 250 þús. kr. framlag til hvors banka. Arionbanki veitti kr. 150 þúsund og Landsbankinn 250 þúsund. Okkur tókst að fá góðan leiðbeinanda sem fer heim til fólks og kennir á þau snjalltæki sem óskað er eftir. Hún heitir Arna Þöll Hjartardóttir. Hver félagi fær ókeypis 2 kennslustundir og getur svo samið um viðbótar kennslu fyrir eigin reikning.
Stjórnin hefur stefnt að því halda um fjóra félags- og fræðslufundi á ári. Okkur tókst að halda einn ágætan fund s.l. haust þar sem megin efni var lýðheilsa. Einnig mætti Helgi Pétursson nýkjörinn formaður LEB á fundinn. Til stóð að halda fund í febrúar sem var slegin af vegna mikilla smita og samkomutakmarkana. Við áformum að halda fund 25. apríl n.k.
Á landsfundi Landssambands eldri borgara, LEB 2021 náðist þétt samstaða um aðgerðir í baráttumálum okkar eldri í aðdraganda kosninga til Alþingis. Samþykkt voru fimm áhersluatriði sem birt voru í einblöðungnum „Eldra fólk vill hafa áhrif á eigið líf“ og dreift var til aðildarfélaganna 56 og þau hvött til að hafa samband við frambjóðendur í sínu kjördæmi.
Félögin hér á Suðurlandi tóku sig saman um aðgerðir. Þannig sendum við um 200 manns á framboðslistum allra framboða í Suðurkjördæmi einblöðunginn ásamt hvatningu til að tala máli okkar. Auk þess mættu stjórnarmenn FEBRANG á alla framboðsfundi sem haldnir voru í sýslunni og komu áhersluatriðum okkar á framfæri. Sama gerðu fleiri félög á Suðurlandi og í öðrum kjördæmum.
Nú eru sveitarstjórnarkosningar framundan og hefur kjaranefnd og stjórn LEB sett saman einblöðung til dreifingar meðal frambjóðenda til sveitarstjórna. Hann ber nafnið „Eldra fólk vill hafa áhrif á sitt nánasta umhverfi.
Landsambandið hefur tekið upp þá nýbreytni að halda fundi á Netinu með aðildarfélögunum. Þátttaka hefur verið góð og vaxandi og eflir án nokkurs vafa samstarf og samheldni okkar eldri.
Stjórnin leggur mikla áherslu á að félagar geti fylgst með starfi félagsins. Við höfum vefsíðuna febrang.net, birtum þar fréttir, hugleiðingar, vísur og örsögur. Undanfarið eitt ár hafa um 11 þúsund manns heimsótt síðuna 44 þúsund sinnum. Við erum líka á Facebook. Við auglýsum viðburði í Búkollu, sem dreift er ókeypis á öll heimili í sýslunni. Svo eru félags- og fræðslufundirnir ætlaðir til að koma fræðslu og skilaboðum á framfæri við félagsmenn.
Við viljum þakka nefndafólki, leiðbeinendum og kaffikonum fyrir gott og farsælt samstarf. Við þökkum sveitarfélögunum þrem fyrir ókeypis aðgang að frábærum húsakosti undir starfsemina og Héraðsnefnd fyrir ómetanlegan fjárstuðning.