Þetta ljóð frumflutti höfundurinn Guðmundur Daníelsson frá Guttormshaga
við vígslu samkomuhússins á Laugalandi árið 1946.

Mín græna sveit, hve yfirlætislaust
var ljóð þitt allt og aðeins hvísl þín raust.
Á meðan hinir æptu um foss og fjöll
þú fólst í holti og mýri blóm þín öll.
Og meðan einn var hafinn hátt við ský
og hverju auga beint að djásni því,
í grasi þínu græna sveitin mín
lá grafið landsins pund, og fegurð þín.
Í gljúpri moldu lengi fólstu flest
þau fræ, er seinna munu vaxa best
á akri lands í nýrra sumra sól,
því sjá þitt kot mun verða höfuðból.
Og hann sem ungur yfirgaf þig fyrr
mun aftur knýja á þínar grænu dyr,
í leit að blómi, er lifir aðeins þar
sem lífsins fyrsta ganga hafin var.