Tólf eru synir tímans

Tólf eru synir tímans, sem tifa fram hjá mér,
Janúar er á undan með ár í faðmi sér.

Febrúar á fannir þá læðast geislar lágt.
Mars þótt blási’ oft biturt, þá birtir smátt og smátt.

Í apríl sumrar aftur þá ómar söngur nýr,
í maí flytur fólkið og fuglinn hreiður býr.

Í júní sest ei sólin þá brosir blómafjöld,
í júlí baggi er bundinn og borðuð töðugjöld.

Í ágúst slá menn engið og börnin týna ber,
í september fer söngfugl og sumardýrðin þver.

Í október fer skólinn að bjóða börnum heim,
í nóvember er náttlangt um norðurljósa geim.

Þótt desember sé dimmur, dýrðleg á hann jól,
með honum endar árið og aftur hækkar sól.

Steingrímur Arason

Scroll to Top