Minnisblað um rekstur FEBRANG

4.12.2020

  1. Stjórn FEBRANG annast og ber ábyrgð á rekstri félagsins og gerir aðalfundi grein fyrir niðurstöðu hans.
  2. Brúttó velta félagsins árið 2019 var 12,4 millj. kr. og 312 þús. kr. rekstrarhalli. Félaginu er því fjárhagslega þröngur stakkur skorinn; gæta þarf aðhalds í rekstri og sífellt leita leiða til að lækka kostnað, án þess að skerða þjónustu við félagsmenn.

    Tekjurnar skiptast þannig: Framlag frá Héraðsnefnd er 39% (78% ef sala ferða er tekin út), sala ferða 39%, tekjur af handverki 18%, félagsgjöld 4%.
  3. Framlag Héraðsnefndar er mikilvægt fyrir rekstur félagsins. Stjórnin sækir um ákveðna upphæð ár hvert. Það er svo ákvörðun Héraðsnefndar hvert framlagið verður. Framlagið er veitt félaginu án sérstakra skilyrða og það ákveður alfarið ráðstöfun fjármunanna, nema launakostnað framkvæmdastjóra, sbr. lið 4.

    Félagið hefur undanfarin ár óskað eftir að Héraðsnefnd annaðist greiðslur af framlaginu vegna verktakagreiðslna leiðbeinenda, launagreiðslna framkvæmdastjóra, kórastarfs, húsaleigu, auglýsinga og messuferðar.

    Þetta fyrirkomulag hefur í för með sér að framlag Héraðsnefndar, 38% af veltu (en 78% af veltu ef sala ferða er tekin út), kemur ekki inn í ársreikning félagsins. Gerð er grein fyrir ráðstöfun framlagsins á sérblaði á aðalfundum. 

    Eðlilegt er að ársreikningur endurspegli allan rekstur félagsins. 
  4. Framkvæmdastjóri var ráðinn af Héraðsnefnd. Hann semur um laun sín við Héraðsnefnd, án nokkurrar aðkomu FEBRANG. Héraðsnefnd greiðir svo framkvæmdastjóra af framlagi félagsins. -Hefur stjórn FEBRANG strangt til tekið nokkuð um verkefni framkvæmdastjóra að segja? 
  5. Félagsgjöld eru innheimt af viðskiptabanka félagsins. Greiðslur fyrir ferðir fara alfarið í gegn um banka. Hins vegar eru greiðslur fyrir handverk (þátttökugjöld og efni) að hluta greidd með peningum, að hluta með innleggi í banka. Þessi viðskipti eru að miklu leyti lánsviðskipti. Þau krefjast mikillar vinnu við utanumhald, afstemmingar og innheimtu.

    Breytt fyrirkomulag til einfaldari og tryggari umsýslu væri að taka upp staðgreiðsluviðskipti í handverki. Annað hvort með því að þátttakandi fái heim með sér blað með upphæð viðskipta og leggi inn á bankareikning félagsins, eða greitt verði með posa. Þeir aðilar sem ekki væru með kort gætu þó greitt með peningum. Minni vinna væri ef posi væri notaður. Ef sala væri ekki skráð á nafn yrði vinnusparnaður enn meiri. Þá mætti hugsa sér að þegar sala á vöru fer fram sé hún strax merkt nýjum eiganda með tússi.
  6. Innkaup á handverki. Semja um afslætti við seljendur efnis. E.t.v. samstarf við önnur félög um innkaup/afslætti. Gæti LEB samið fyrir hönd félaga sinna og þannig fengið enn meiri afslætti í krafti stærðar?
  7. Fyrir liggur að ekkert er í veginum fyrir að FEBRANG fái greitt framlag Héraðsefndar og annist sjálft ráðstöfun þess. Það myndi hafa í för með sér að framkvæmdastjóri væri starfsmaður félagsins. 

Félagið þyrfti þá sjálft að leggja fram vinnu við að greiða leiðbeinendum verktakagreiðslur, framkvæmdastjóra laun svo og aðrar greiðslur sbr. lið 3. 

KPMG, sem annast greiðslur af framlagi Héraðsnefndar og annað utanumhald svaraði fyrirspurn FEBRANG þannig:

„Ef þið farið að greiða laun, þá þurfið þið að tilkynna það til launagreiðendaskrár Ríkisskattstóra.

Síðan þarf að senda mánaðarlega skilagrein til RSK vegna staðgreiðslu og tryggingagjalds.

Þá þarf einnig að skila skattframtali og launaframtali sem og launamiðum um áramót.

Eins og staðan er í dag er enginn kostnaður færður á „eldri borgara“ vegna vinnu KPMG við það sem að því snýr.

Vinnan sem slík er greiðsla reikninga, vinna við launakeyrslur og færsla bókhalds. 

Kostnaður vegna þessa hefur verið færður á Héraðsnefndina“.

 
Ef stjórnin telur rétt að félagið annist þessa vinnu sjálft, er ekki óeðlilegt að Héraðsnefnd greiði FEBRANG fyrir vinnuna í stað þess að greiða KPMG. FEBRANG getur væntanlega boðið lægri taxta en endurskoðunarfyrirtæki.

Ef breytingar verða gerðar á umsýslu handverks og vinna við það minnkar, má nota þær vinnustundir sem sparast til að sinna öðrum verkefnum.  

Jón Ragnar Björnsson

Scroll to Top