Jólin heima í gamla bænum á Skíðbakka eru í minningunni ljómuð birtu og fegurð, þó var ekkert rafmagn komið þá, bara 10 línu olíulampar, gaslugt í baðstofunni og svo kertaljósin.

Ekki var gert eins mikið úr aðventunni í sambandi við jólahaldið þá, eins og er núna, allavega ekki þar sem ég ólst upp í vesturbænum á Skíðbakka, hjá mömmu minni, afa mínum og ömmu. Þessi tími fyrir jólin var eigi að síður tími mikilla anna. Auk gegninga og mjalta var mikið að gera innan húss, bærinn þveginn og skrúbbaður hátt og lágt, bakað, saumað og prjónað, því enginn mátti fara í jólaköttinn og alltaf var jólakjóllinn minn tilbúinn, einhvern morguninn þegar ég vaknaði.
Á Þorláksmessu var jólahangikjötið soðið, einnig grjónagrautur með rúsínum, sem var borðaður í hádeginu ásamt flatkökum úr hvítu hveiti, sem amma mín hafði til spari. Á Þorláksmessu var baðstofan skreytt með kreppappírslengjum. Jólatréð, sem var heimasmíðað, var einnig skreytt með kreppappír. Sumir tíndu lyng og settu utan um tréð, en það var ekki gert hjá okkur enda ekkert berjalyng í nágrenninu.
Eftir því sem ég stálpaðist yfirtók ég skreytingu jólatrésins, fléttaði músastiga og vafði um tréð hátt og lágt. Í minningunni er alveg sérstakur sjarmi yfir þessari kvöldstund á Þorláksmessu, meðan ég dundaði við jólatréð og hlustaði á jólakveðjurnar í útvarpinu og enn þann dag í dag vil ég helst vera heima á Þorláksmessu, hlusta á jólakveðjurnar og skreyta jólatréð.

Á aðfangadag var reynt að flýta sér með verkin svo allir væru komnir inn áður en heilagt yrði kl. 18.00 og gætu hlustað á jólamessuna í útvarpinu, eftir að það kom á heimilið. Alltaf var borðuð kjötsúpa á aðfangadagskvöld. Síðan var kveikt á kertum, sem fest höfðu verið á jólatréð, einnig fengu allir sitt kerti. Eitthvað hefur verið lítið um kertastjaka því ég man eftir því að móðurbróðir minn, sem þá var á heimilinu, bræddi sitt kerti á rúmstólpann. Síðan las afi minn jólaguðspjallið og á eftir sungum við jólasálma.
Alltaf fékk ég einhverjar jólagjafir, en upp úr stendur þegar ég fékk stóra dúkku og síma, sem gat hringt, frá móðursystrum mínum tveim, sem komu heim í jólafrí. Auðvitað hringdi ég stöðugt þar til síminn þagnaði, en dúkkuna átti ég langt fram á fullorðins ár.
Seinna þegar ég var orðin eldri og gat farið að lesa mér til ánægju, þá gaf mamma mér alltaf auka jólagjöf, sem ég fékk að taka upp nokkrum dögum fyrir jól. Það var einhver góð bók,sem ég stytti mér stundir við að lesa, því biðin eftir jólunum gat verið löng þá, ekki síður en nú.
Alltaf var hangikjöt í matinn á jóladag og sveskjugrautur með rjóma í eftirrétt.
Síðan farið í jólamessuna í Krosskirkju. Svo var jólaballið milli jóla og nýárs. Mig minnir að flestir hafi farið fótgangandi, á meðan önnur farartæki voru ekki komin til sögunnar. Í minningunni var jólatréð,sem var heimasmíðað, feikna stórt og kertin á því óskaplega mörg og falleg. Tveir til þrír bændur í sveitinni stóðu við tréð og sáu um að skipta um kerti og pössuðu að ekki kviknaði í öllu saman, meðan gengið var í kring og sungin jólalög og sálmar.
Eitt var það, sem fylgdi jólum bernsku minnar,en það voru jólaboðin, sem Skíðbakkahverfingar stunduðu. Allir fóru í boð til allra og sumir tvisvar til sumra, þannig að jólaboðin gátu orðið 6-8 á hverjum jólum. Það var mjög skemmtilegt í þessum jólaboðum, alltaf var spilað, þeir eldri spiluðu vist, þau yngri eitthvað léttara, og kakó og jólabakkelsi alltaf á borðum. Þá var ekki sjónvarp eða annað til að glepja fyrir og fólk virtist hafa nægan tíma til að hitta nágranna og vini á jólum.
Í minningunni var alltaf farið gangandi í þessi boð, það var albjart af tungli, logn og frost og það marraði í snjónum undan fótum okkar. Enn eru jólaboð á Skíðbakkabæjum, en núna bara eitt á hverjum jólum og þykir nokkuð gott, að það finnist eitt kvöld yfir jólin, þar sem flest allir geta fundið sér tíma til að hittast og blanda geði, þó lítið fari fyrir spilamennsku í seinni tíð. Enn eru kökurnar og kakóið á sínum stað (veit ekki hvernig það verður á komandi jólum vegna COVID).
Sumum finnst að tilstandið kringum jólin núna sé orðið allt of mikið, gjafirnar allt of margar og stórar.
Vel má það vera, en aðalatriðið er að hver og einn finni sinn stíl,haldi sín jól eftir efnum og ástæðum, muni eftir tilgangi jólana, að minnast fæðingar Jesú Krists. Og mikið væri nú skammdegið langt og dimmt ef ekki væru jólin, með sína birtu og gleði, sem vonandi ríkir á hverju heimili. Ég er t.d.komin í jólaskapið með fyrsta sunnudegi í aðventu og ég vona að ég verði ekki svo gömul, að ég hætti að hlakka til jólana.
Ég bið þess að við megum öll njóta jólana með ástvinum okkar, að við megum njóta jólaljósanna og varðveita barnið í okkur sjálfum.
Guð gefi okkur öllum góð og gleðileg jól.
Bestu jólakveðjur.
Guðrún Aradóttir (Rúna)
takk elsku Rúna ég sé þetta fyrir mér svo lifandi lýsing