100 ára afmæli UMF Trausta, Vestur Eyjafjöllum

Sigurður Sigmundsson í Ey ll hélt þessa eftirminnilegu ræðu í afmælinu:

Allir sem hafa átt heima undir Fjöllunum vita að þegar hér er gott veður þá er það besta veðrið á öllu Íslandi og þannig er það næstum alltaf.

En þegar rignir, hvelfist regnið niður eins og hundrað Seljalandsfossar komi í röðum vestur fyrir Holtsnúpinn og halda áfram út með hömrum að Seljalandi,yfir Markarfljót á Hólmabæina svo þeir missi ekki af hreingerningunni.

Svo er hér dúnalogn; þegar lítið fiðrildi blakar vængjunum austur í Indónesíu og býr til veikasta andvara sem nokkur veit, hann er svo léttur að hann svífur upp í heiðloftið, yfir Himalaja fjöllin í norðvestur. Þá vex honum ásmeginn þegar hann rennir sér niður brekkurnar á Everest, áfram yfir höf og lönd hraðar, hraðar. Orðinn alvöru þegar hann geysist á land austan við Jökulsá á Sólheimasandi upp á jökla og ofan í fjallaskörðin. 

Tekur allt lauslegt með sér, líka járnplötur af þökum ef ekki er neglt í hverja báru. Nágranni minn í Landeyjum átti erindi hingað í miklu roki og lýsti því svo, það hreinsuðust járnplöturnar af kofunum og fuku svo hátt að þær komu bara aldrei niður aftur. Svo mikið er víst að aðdráttarafl jarðarinnar má sín lítils þegar fossarnir hætta að renna fram af brúnum en feykjast í þess stað til himins eins og reykur frá áramótabrennu. Eitt sinn þegar hvessti verulega varð Ingólfi á Skála litið út um glugga og sýndist Vigfús bróðir minn fara hjá á mótorhjólinu, en svo var nú ekki, þetta var gömul hestasláttuvél úr pottjárni sem fauk frá Moldnúpi út á Mýrabæi 

Það hvessir víðar eins og allir vita, Gissur í Selkoti sagði mér einu sinni að hestur einn, mikill stólpagripur hefði fokið yfir tveggja metra háann grjótgarð kom niður á fæturna og hélt áfram að bíta, hann varð allra hesta elstur og alltaf kallaður Foknasi…… 

Það hvessir líka á Heklubæjunum, Halli í Hólum sagði frá að svo harður bylur hefði skollið á að hraunhellur fuku svo dimmdi í lofti og það var ekki stætt i skjóli. 

Við höfum samt vinninginn hér undir vestur Fjöllunum því svo hvasst getur orðið að ef maður álpast til þess daginn eftir að hugsa um hvað gekk á þá fýkur maður umsvifalaust á hliðina…….

Þetta er að sjálfsögðu alveg hreina satt……

Hér fýkur allt lauslegt eins og ég hef nefnt, meir að segja fauk presturinn okkar hann séra Sigurður eins og margir muna. Siggi í Ormskoti sótti nafna sinn sem var veðurhræddur og þorði ekki að vera einn heima. Jeppinn fauk á hliðina og þegar þeir hugðust ganga áfram fauk presturinn og stefndi til sjávar en stöðvaðist sem betur fór á girðingu, þar náði Siggi honum og þeir skriðu lítilsháttar hruflaðir niður að Ormskoti. 


Þetta frétti Vigfús bróðir minn og mælti 

Hræðist drottins handaverk
hugur mannsins veikur
Siggi fór að sækja klerk
sem var orðinn smeykur

Fundu storm í ferðalok
fast um vanga strjúka
Það er mikið Þremils rok
þegar prestar fjúka.

Það er skrítið að hugsa um fiðrildið litfagra sem kom hrikalegum hamförum af stað þegar það blakaði vængjunum og flögraði á milli blómanna, hvernig átti það að vita hvað gæti gerst hinu megin á hnettinum?

Þá undrar ekki sem þekkja til, að þeir sem hafa alist upp hér kunna að ganga láréttir með grjót i vösunum móti öllum veðrum. 

Við erum komin hingað til að fagna hundrað ára afmælinu og fyrst af öllu. Þið eigið fegursta hjartalag allra islendinga og mýkstu hjálparhendur allra ef hjálpar er þörf. 


Fyrir hundrað árum var flest öðruvísi en nú er og þó allir stofnfélagarnir dvelji nú í „Sumarlandinu“ fengum við sem skriðum í varpa tuttugu árum eftir stofndaginn, hjá foreldrum og nágrönnum sögurnar af því sem gerðist þegar morgunn frelsis og framfara reis í sveitum landsins. 


Ég man svo langt að bændur strituðu með sléttuspaða, torfljái og önnur handverkfæri við sléttun þýfis til að stækka örsmá túnin sín, man þegar skurðgröfurnar tóku að ræsa fram mýrarnar, jarðýturnar að slétta og traktorarnir að herfa flögin. 


Man ævintýrið þegar síminn kom á bæina. 


Nýir tímar fóru í hönd, það var sem þjóðin vaknaði af svefni, ég man söguna af kornræktarfélaginu sem pabbi minn og 16 aðrir stofnuðu, man hvernig óþurrkarnir léku blessaða karlana sem urðu að yfirgefa akurinn til að bjarga heyskapnum heimafyrir. Þá var pabbi einn eftir í korninu (var ekki búinn að festa sér bújörð, var bara kennari) sem nærri má geta gekk honum ekki vel og orti Mangi Knútur í Seljalandsseli stríðnisvísur um það. 

Ein var svona:
Kornið liggur úti enn
undur má það heita
Svona er þegar sautján menn
samtökunum beita.

Um hann voru líka settar saman vísur
Seljalands í Selinu
situr Mangi Knútur
Stendur undan stélinu
stærðar landakútur


Þetta mun hafa verið ein fyrsta tilraun bænda til kornræktar á Íslandi en vegna tækjaskorts og ótíðar varði hún aðeins í fáein ár. 


Margs er að minnast, stofnaðar voru stúkur gegn áfengisdrykkju (ekki var örgrannt að smávegis væri reynt að brugga afsíðis hér og hvar).
 

Stofnað var til málfunda um menningarstrauma og pólitík o.s.frv.
 

Ungmennafélögin höfðu að markmiði ræktun hugar og líkama, drengskapur skyldi viðhafður í glímu og íþróttum öllum.

Innan félagsins var snemma fengist við leiklist og sett á svið mörg leikrit s.s. Skugga Sveinn, Karólína snýr sér að leiklistinni, Seðlaskipti og ástir og mörg fleiri, flest af léttara taginu. Meir að segja farið með sum stykkin í önnur sveitarfélög. Sumir flytjenda voru fæddir leikarar sem sýndu óborganlega takta svipað og þeir bestu i Reykjavík 

Verð að nefna þrjá, Sigga í Rotum, Sigga í Seli, og Svenna i Skálakoti, ef einhver þeirra var á sviðinu þegar tjaldið var undið upp fóru allir að hlæja áður en nokkur sagði orð.

Svo voru haldin böll sem stóðu fram á morgun, ef gamalt harmóníum var tiltækt var belgurinn troðinn og sungið með, Óli Skans eða Blátt lítið blóm. Harmónikkur ein stundum tvær voru lengi aðal hljóðfærin en síðar voru stofnaðar hljómsveitir í sveitum eins og Bjarkalandsbræður, Blástakkar og Tónabræður svo einhverjir séu nefndir. Svo var labbað heim þegar sólin var komin upp og baðaði fjöllin og móann, meðfram veginum sóleyjar og gleymmérei, 

Hrossagaukur með hávaða upp í himinblámanum, 

Spóar og lóur, allir hinir fuglarnir og öll hin blómin, 

Þessu verður ekki lýst með orðum, 

Voru bjartir dagar, eru minning um ást og vináttu, um gleðina að vera til. Minning um það sem var, um það sem mótaði okkur sem höfum lifað langan dag. 

Hjartanlega til hamingju með daginn.

Scroll to Top