Prestapælingar

Góð mæting

Eitt af fyrstu verkum unga prestsins á Eyrarbakka var að messa á Litla-Hrauni. Hann hóf helgistundina þurr í munni af stressi á þessa leið: „Mikið er nú gaman að sjá hvað þið eru margir hérna“.

Teðjað og hlaðið

Þegar Guðni í Skækli (nú Guðnastaðir) var jarðaður sagði presturinn í ræðu sinni að Guðni hefði teðjað bæði tún og matjurtagarða og hlaðið flóðgarða eftir þörfum.

Erfidrykkja

Ástsæll veghefilstjóri var jarðaður í sól og blíðu og hreppurinn bauð til erfidrykkju, en vistir þraut þar sem fjölmenni fylgdi honum. Þá steig oddvitinn á svið og baðst afsökunar á því með þeim orðum að engin hefði varað sig á því að svona margir fylgdu honum til grafar.

Vefstóll úti í horni

Sigurður Einarsson  í Holti var að jarða konu sem var í horninu hjá Jensínu á Brú við gott atlæti en Sigurður sagði að hún hefði endað ævi sína sem rykfallin vefstóll úti í horni.

Dottað á kirkjubekk

Presturinn var að messa og þegar líða tók á athöfnina tók hann eftir að sumir fóru að dotta og reyndi að sporna við því eins og hann gat án þess að valda helgispjöllum þegar sonur hans kallaði „ pabbi halt þú bara áfram að messa, ég skal kasta hrossaskít í þá sem sofna.“

Nú kannski ég messi þá ögn meira

Annar prestur var að messa og hafði fengið sér vel í staupinu og þurfti að bregða sér út undir kirkjuvegg  til að pissa og þegar meðhjálparann var farið að lengja eftir honum fór hann  út til klerks og sagði, þú ert nú ekki búinn að messa prestur minn. Nú kannski ég messi þá ögn meira.

Scroll to Top